Skip to main content
21. ágúst 2019

Samstarfssamningur við SÁM endurnýjaður

Háskóli Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM) hafa endurnýjað samning sinn um náið samstarf sem nær bæði til kennslu, rannsókna og starfsmannamála.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, undirrituðu samninginn á rektorsskrifstofu fyrr í vikunni en hann er til fimm ára og tekur við af eldri samningi sem rann út á þessu ári.

Markmið samstarfssamningsins er að samnýta sem best þá sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu sem Háskólinn og Stofnun Árna Magnússonar búa yfir með það fyrir augum að efla rannsóknir og kynningu á íslenskum fræðum innan lands og í alþjóðlegu fræðasamfélagi, styrkja menntun í íslenskum fræðum og tryggja gæði rannsóknastarfs á sviði íslenskra fræða.

Háskóli Íslands og SÁM hafa um árabil átt afar farsælt samstarf enda er síðarnefnda stofnunin til húsa í hjarta háskólasvæðisins, í Árnagarði. Þá standa stofnanirnar saman að byggingu Húss íslenskunnar sem rísa mun á næstu árum vestan Suðurgötu, nærri Þjóðarbókhlöðu. Samstarf stofnananna tveggja hefur enn fremur verið á vettvangi Hugvísindaþings og annarra ráðstefna, Miðaldastofu og uppbyggingar rannsóknanáms, sumarnámskeiða og sameiginlegra rannsóknaverkefna. 

Samkvæmt hinum nýja samningi er gert ráð fyrir að að stofnanirnar tvær móti sameiginlegar áherslur í rannsóknastarfi. Þá kveður hann á um að SÁM veiti starfsmönnum og stúdentum Háskóla Íslands aðgang að rannsóknaefniviði og aðstöðu til rannsókna eftir því sem föng eru á og á sama hátt veita deildir og stofnanir Háskólans starfsmönnum Árnastofnunar aðgang að rannsóknaefniviði og -aðstöðu eftir því sem mögulegt er. Einnig geta þeir starfsmenn SÁM sem hafa rannsóknaskyldu sótt stuðning fyrir rannsóknir sínar í Rannsóknasjóð Háskóla Íslands.

Starfsmenn SÁM hafa um langt skeið komið að kennslu við tvær af nánustu samstarfsdeildum stofnunarinnar innan Háskóla Íslands, Íslensku- og menningardeild og Félagsfræði-, mannfræði og þjóðfræðideild, og gert er ráð fyrir að svo verði áfram. Jafnframt kveður samningurinn á um að fulltrúar SÁM geti komið að gerð kennsluskrár skólans með hugmyndum um málstofur eða annað kennsluframlag til helstu samstarfsgreina við háskólann.

Náið samstarf hefur verið í starfsmannamálum milli þessara tveggja stofnana og því verður haldið áfram. Þannig er forstöðumaður SÁM jafnframt prófessor við námsbraut í íslensku við Íslensku- og menningardeild Háskólans og á sæti á háskólaþingi. Þá er heimilt að tengja störf fastra kennara við Háskóla Íslands við SÁM og öfugt. Enn fremur hefur forstöðumaður Miðaldastofu Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem er jafnframt fastur kennari í miðaldafræði við Íslensku- og menningardeild, starfsaðstöðu við Árnastofnun og er helsti tengiliður milli Hugvísindasviðs og stofnunarinnar. Þetta fyrirkomulag verður við lýði uns stofnunin og námsbrautir í íslensku og íslensku sem öðru máli flytja í Hús íslenskunnar.

Sérstök nefnd skipuð fulltrúum beggja stofnana hefur yfirumsjón með samningnum.
 

Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, handsala samninginn
Guðrún Nordal og Jón Atli Benediktsson ásamt þeim Guðmundi Hálfdánarsyni forseta Hugvísindasviðs, og Þórði Kristinssyni, ráðgjafa á rektorsskrifstofu.