Skip to main content
21. nóvember 2019

Samfélagsleg nýsköpun sett í forgang

„Þörfin fyrir samfélagslega nýsköpun hefur aukist verulega á síðastliðnum árum.“ Þetta segir dr. Ómar H. Kristmundsson, prófessor við Háskóla Íslands. Hann var meðal þeirra sem koma að fundi í sal Þjóðminjasafnsins í dag þar sem undirrituð var sameiginleg viljayfirlýsing nýsköpunarráðherra, Háskóla Íslands og Almannaheilla, samtaka þriðja geirans. Ómar segir að með þátttöku nýsköpunarráðherra verði til samstarf háskólans, stjórnvalda og þriðja geirans. Á grunni viljayfirlýsingarinnar verður unnið að því að skapa þriðja geiranum aukna möguleika á að starfa að samfélagslegum umbótum.

Þriðji geirinn og samfélagsleg nýsköpun

Samfélagsleg nýsköpun tengist hinum svokallaða þriðja geira eða félagshagkerfinu en það er í raun það starf sem hvorki heyrir til hins opinbera né einkageirans. Hér eru á ferðinni félagasamtök að stærstum hluta en í sumum tilvikum sjálfseignastofnanir, samvinnufélög og jafnvel hlutafélög. Það sem einkennir þennan rekstur er að ekki er sóst eftir hagnaði, félagsleg gildi eru höfð að leiðarljósi og verkefni eru unnin að einhverju leyti í sjálfboðavinnu. Með samfélagslegri nýsköpun eða „social innovation“ er átt við nýjar eða breyttar leiðir til að mæta þörfum samfélagsins með framlagi notenda, starfsfólks og annarra hagsmunaaðila.

Framhald á starfi kennara innan háskólans

Fyrir hönd Háskóla Íslands mun Vaxandi - Miðstöð um samfélagslega nýsköpun vinna að þessum verkefnum í samvinnu Almannaheill og stjórnvöld. Miðstöðin, sem hét áður Fræðasetur þriðja geirans innan Háskóla Íslands, starfar undir Félagsvísindasviði og var stofnað 2010 að frumkvæði Ómars  og Steinunnar Hrafnsdóttur, prófessors við Háskóla Íslands. Nú er ætlunin að leggja aukna áherslu á félagslega frumkvöðlastarfsemi og samfélagslega nýsköpun. 

„Eitt af okkar sérsviðum í rannsóknum og kennslu er þriðji geirinn,“ segir Ómar. „Áhugi okkar á þriðja geiranum hefur lengi verið mikill, m.a. vegna starfa okkar innan félagasamtaka. Til að efla starfið ritstýrðum við m.a. bókinni Stjórnin og rekstur félagasamtaka 2008 en í hana skrifa ásamt okkur sérfróðir aðilar um afmörkuð viðfangsefni. Við höfum verið mjög ánægð með hversu mikið sú bók hefur verið nýtt af félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum. Okkur finnst bókin lítið dæmi um samfélagslegt hlutverk háskólans í verki.“  

Ómar segir að nú séu komnar forsendur til að formgera starfsemina enn frekar, fá öfluga aðila að verkefninu og er undirritun viljayfirlýsingar núna í nóvember upphaf þeirrar vegferðar. 

„Við stefnum að því að skapa vettvang félaga og almennra borgara til að þróa hugmyndir og lausnir við að bæta samfélagið og gera þær sjálfbærar. Með þessu getur setrið orðið að eins konar „tilraunastöð“ fyrir nýjar leiðir til að efla þátttöku almennra borgara,“ segir Ómar Kristmundsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild. MYND/Kristinn Ingvarsson

Mikilvægi starfs þriðja geirans

Að sögn Ómars hefur mikilvægi þriðja geirans sjaldan verið meira. Virk þátttaka almennra borgara í aðgerðum til að bregðast við hamfarahlýnun skipti miklu. Hvorki hið opinbera né einkafyrirtæki hafa ein og sér bolmagn til að ná nauðsynlegum árangri.  Síðan má benda á aukinn stuðning „popularískra“ stjórnmálahreyfinga og stjórnmálaleiðtoga og öfgahópa víða um heim sem gengur þvert á hin almennu lífsgildi m.a. Íslendinga um fjölbreytileika, umburðalyndi og fjölmenningu. Öflug leið til að berjast gegn þessari þróun er að styðja við grasrótarhreyfingar ólíkra hópa samfélagsins. Aukin vitund er um að opinber velferðarþjónusta muni ekki geta mætt auknu álagi vegna hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar. Félagasamtök sem rekin eru án hagnaðarvonar munu gegna lykilhlutverki í að mæta þörfum um nýjar leiðir, svo sem í geðheilbrigðisþjónustu, en þar hafa nú þegar félagasamtök skipt sköpum.

Verkefni framundan

„Við stefnum að því að skapa vettvang félaga og almennra borgara til að þróa hugmyndir og lausnir við að bæta samfélagið og gera þær sjálfbærar. Með þessu getur setrið orðið að eins konar „tilraunastöð“ fyrir nýjar leiðir til að efla þátttöku almennra borgara,“ segir Ómar. Með nánu samstarfi við Almannaheill verður stuðlað að því að mál sem brenna á félagasamtökum séu til umfjöllunar á vettvangi setursins. Á næstu misserum verða skipulagðar vinnustofur um aðferðir við félagslega nýsköpun. Þær verða ætlaðar þeim sem eru að undirbúa stofnun nýrra félaga en einnig rótgrónum félögum sem ráðgera að leggja aukna áherslu á nýsköpunarverkefni. Gerð verður rannsókn á umfangi þriðja geirans á Íslandi og frumkvöðlastarfs sem þar fer fram. Í dag liggja takmarkaðar upplýsingar fyrir um virk félagasamtök og félagslega nýsköpun á Íslandi, um árangur slíkra verkefna og hvernig megi betur styðja við þau. Opnaður verður upplýsingavefur sem er ætlaður íslenskum félagasamtökum og nýtist við daglega stjórnun en einnig við undirbúning og framkvæmd umbótaverkefna.  Handbókin um stjórnun og rekstur félagasamtaka sem áður er minnst á verður endurnýjuð m.a. með nýju um efni um aðferðafræði félagslegrar nýsköpunar. 

Við undirritun viljayfirlýsingarinnar fluttu þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Jónas Guðmundsson, formaður Almannaheilla, samtaka þriðja geirans stutt ávörp. 

Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor við Félagsráðgjafardeild, ræddi enn fremur hlutverk íslenskra almannaheillasamtaka í félagslegri nýsköpun og Lars Hulgaard, prófessor við Háskólann í Hróarskeldu og alþjóðlega þekktur fyrirlesari, fjallaði um mikilvægi félagslegra frumkvöðla.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Jónas Guðmundsson, formaður Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, undirrituðu viljayfirlýsingu um samstarf um samfélagslega nýsköpun.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir,
Jón Atli Benediktsson
Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor við Félagsráðgjafardeild, ræddi enn fremur hlutverk íslenskra almannaheillasamtaka í félagslegri nýsköpun
Lars Hulgaard, prófessor við Háskólann í Hróarskeldu og alþjóðlega þekktur fyrirlesari, fjallaði um mikilvægi félagslegra frumkvöðla.