Skip to main content
22. maí 2018

Runólfur heiðursvísindamaður Landspítala

Runólfur Pálsson, prófessor í lyflæknisfræði við Læknadeild og umsjónarmaður líffæraígræðsluteymis Landspítala, var á dögunum útnefndur heiðursvísindamaður Landspítala en hann hefur stundað umfangsmiklar rannsóknir á nýrnasjúkdómum.

Rannsóknirnar hafa verið unnar í nánu samstarfi við Ólaf Skúla Indriðason nýrnalækni og Viðar Örn Eðvarðsson, sérfræðing í nýrnalækningum barna, á Landspítala. Meginviðfangsefnin hafa verið faraldsfræði og erfðafræði langvinns nýrnasjúkdóms annars vegar og nýrnasteinasjúkdóms hins vegar. Rannsóknir Runólfs og Ólafs Skúla á faraldsfræði langvinns nýrnasjúkdóms, í samvinnu við vísindamenn Hjartaverndar, hafa sýnt fram á svipað algengi og í öðrum vestrænum samfélögum þrátt fyrir að lokastigsnýrnabilun sé fátíðari hér en víðast annars staðar. Beinast rannsóknirnar nú að því að finna skýringu á þessu misræmi. Loks hefur samstarf við vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar leitt til uppgötvunar breytileika í erfðavísum sem tengjast aukinni áhættu á þróun langvinns nýrnasjúkdóms. 

Rannsóknir á nýrnasteinasjúkdómi hafa sýnt að vaxandi nýgengi, sem talið hefur verið að tengist vestrænum lífsstílsþáttum, skýrist að mestu af aukinni greiningu einkennalausra steina. Samvinnan við Íslenska erfðagreiningu hefur verið sérlega árangursrík því fundist hafa afar áhugaverðir erfðavísar sem hafa tengsl við nýrnasteinasjúkdóm. 

Loks hafa Runólfur og Viðar Örn unnið um árabil að rannsóknum á erfðasjúkdómi er nefnist adenínfosfóríbósýltransferasaskortur og leiðir til nýrnasteina og langvinns nýrnasjúkdóms af völdum sk. útfellinga 2,8-díhýdroxýadeníns í nýrum. Árið 2008 stofnuðu þeir ásamt samstarfsmönnum á Mayo Clinic og New York University í Bandaríkjunum rannsóknarhópinn Rare Kidney Stone Consortium sem fæst við rannsóknir á sjaldgæfum erfðasjúkdómum sem valda nýrnasteinum og nýrnabilun. Rannsóknarhópurinn hefur notið veglegra styrkja frá Bandarísku heilbrigðisstofnunni frá árinu 2009. Meðal mikilvægra áfanga er þróun aðferðar til að mæla 2,8-díhýdroxýadenín í þvagi sjúklinga með adenínfosfóríbósýltransferasaskort í samstarfi við vísindamenn hjá ArticMass í Reykjavík. 

Runólfur hefur leiðbeint nemendum í doktorsnámi og meistaranámi við læknadeild Háskóla Íslands auk fjölda læknanema og ungra lækna. Þá hefur hann birt um 130 vísindagreinar og bókarkafla og hefur átt aðild að liðlega 300 ágripum sem kynnt hafa verið á vísindaþingum. Þá hefur hann haldið fjölda boðsfyrirlestra víða um heim. Runólfur á sæti í ritstjórn Journal of Nephrology og sat áður í ritstjórn Clinical Journal of the American Society of Nephrology um árabil. Einnig hefur Runólfur verið einn af ritstjórum og ábyrgðarmönnum Handbókar í lyflæknisfræði.

Runólfur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1979 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1985. Hann hélt í kjölfarið til framhaldsnáms í Bandaríkjunum þar sem hann stundaði nám í lyflækningum við Hartford Hospital og University of Connecticut 1988-1991 og í nýrnalækningum við Massachusetts General Hospital og Harvard Medical Shoool í Boston 1991-1996. Hann lauk bandaríska sérfræðiprófinu í lyflækningum árið 1991 og í nýrnalækningum árið 1996. Eftir heimkomu starfaði Runólfur fyrst við Sjúkrahús Reykjavíkur og síðan við nýrnalækningaeiningu Landspítala. Hann var skipaður yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítala árið 2004. Runólfur var ráðinn lektor í lyflæknisfræði (nýrnasjúkdómafræði) við Háskóla Íslands árið 1999, hlaut framgang í starf dósents árið 2004 og í starf prófessors árið 2014.

Runólfur hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann var formaður Félags íslenskra lyflækna 2001-2016. Þá hefur hann verið forseti European Federation of Internal Medicine frá árinu 2016. Runólfur er fulltrúi Landspítala í stjórn norrænu líffæraígræðslustofnunarinnar Scandiatransplant. Hann hefur enn fremur setið í deildarráði Læknadeildar Háskóla Íslands frá 2013.

Runólfur Pálsson.