Skip to main content
12. janúar 2021

Reynsla karla af leikskólastörfum kortlögð í nýrri bók

Reynsla karla af leikskólastörfum kortlögð í nýrri bók - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Exploring Career Trajectories of Men in the Early Childhood Education and Care Workforce: Why They Leave and Why They Stay í ritstjórn erlendu fræðimannanna David L. Brody, Kari Emilsen, Tim Rohrmann og Jo Warin. Þórdís Þórðardóttir, dósent í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands, er meðhöfundur tveggja kafla í bókinni sem hið þekkta bókaforlag Routledge gefur út. 

Bókin skiptist í fjórtán kafla sem byggjast á niðurstöðum alþjóðlegu rannsóknarinnar Career trajectories of men in and out of ECEC sem gerð hefur verið í þrettán löndum víðs vegar um heiminn. Í rannsókninni er könnuð persónulega reynsla 37 karlkyns leikskólakennara og hvers vegna þeir hverfa frá eða haldast í starfi. 

Þórdís Þórðardóttir, fulltrúi Háskólans í verkefninu, segir að niðurstöðurnar bendi til að sams konar ástæður liggi að baki reynslu þeirra karlmanna sem rætt var við þrátt fyrir margbreytileika þeirra landa sem rannsóknin náði til. Í ljós kom að eðlis- og tvíhyggju orðræða um kynin var ríkjandi í öllum leikskólunum sem þátttakendur störfuðu en hún birtist þó með ólíkum hætti. 

Upphrópaðir hommar og sakaðir um barnaníð

„Margir karlanna sem hurfu frá starfi töldu hugmyndir sínar um að veita börnum ögrandi verkefni vera á skjön við áherslur kvenna á öryggi barna og að forðast slysahættu. Þeir töldu að vegna slíks ágreinings treystu konurnar þeim ekki til að sinna starfinu nægilega vel,“ lýsir Þórdís. Aðrar ástæður sem nefndar voru til sögunnar voru meðal annars lág laun, kulnun í starfi, vanmat á vinnu með ungum börnum, lítill aðgangur að karlkyns vinnufélögum og félagslegur þrýstingur um að finna sér „karlmannlegra“ starf. „Þá voru dæmi um að karlar í leikskólakennslu væru uppnefndir hommar, þeir áttu á hættu að verða sakaðir um barnaníð, fundu fyrir skorti á sjálfræði en jafnframt skorti á sjálfstraustri. Sumir nefndu sérstaklega að þeir hefðu náð góðum tengslum við börnin en það dugði ekki til að halda þeim í starfi.“

Karlarnir sem héldust í starfi sögðu kyngervi starfsfélaga skipta þá litlu eða engu máli og notuðu síður eðlis- eða tvíhyggju orðræðu um kynin. „Þessir karlar áttu það sameiginlegt að finnast samstarf við annað fagfólk mikilvægt fyrir eigin starfsþróun og þeir töldu sig vel hæfa til að sinna starfinu. Það sem héldi þeim í starfi væru tengslin við börn og foreldra, samstarf við vinnufélaga og stofnanir, stuðningur frá fjölskyldum, vinum, samstarfsfólki og foreldrum ásamt möguleikum á að hækka í launum.“

„Þessar niðurstöður benda eindregið til að ef takast á að hækka hlutfall karla í leikskólastarfi til að auka á fjölbreytileika starfsmannahópsins þurfi að beina sjónum að kynjun í leikskólum og sporna gegn viðtekinni kynjaorðræðu um að hæfni barna og starfsfólks í leikskólum ráðist af eyrnamerktum eðlislægum eiginleikum. Ráðast þarf gegn kynjafordómum á opinberum vettvangi og leiðrétta kynjaskekkta launastefnu,“ segir Þórdís að endingu.

Velferð ungra barna í brennidepli

Rannsóknir Þórdísar eru innan mennta-, menningar- og kynjafræða og hefur hún tekið þátt í ýmsum samstarfsverkefnum, bæði hérlendis og erlendis. Helstu rannsóknir hennar hafa beinst að áhrifum menningar á menntun og þekkingarsköpun leikskólabarna. Þórdís hefur kannað áhrif uppruna, stétta og kyns á þekkingu og merkingarmótun barna og greint hvers konar þekking er líkleg til að skapa þeim háan félagslegan sess í jafningjahópum í leikskóla. Hún hefur jafnframt kannað mat foreldra á aðgengi ungra barna sinna að mismunandi miðlum og hvernig barnaefni höfðar á ólíkan hátt til barna út frá menningar- og félagslegum bakgrunni. Þórdís leggur ríka áherslu á að rannsóknir hennar nýtist fagfólki á vettvangi og mikilvægi gagnrýninnar uppeldis- og menntunarfræði til að auka velferð barna.  

Út er komin bókin Exploring Career Trajectories of Men in the Early Childhood Education and Care Workforce: Why They Leave and Why They Stay í ritstjórn erlendu fræðimannanna David L. Brody, Kari Emilsen, Tim Rohrmann og Jo Warin. Þórdís Þórðardóttir, dósent í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands, er meðhöfundur tveggja kafla í bókinni sem hið þekkta bókaforlag Routledge gefur út.