Ræða rektors við brautskráningu í febrúar 2018 | Háskóli Íslands Skip to main content

Ræða rektors við brautskráningu í febrúar 2018

24. febrúar 2018

Ávarp Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, við brautskráningu kandídata í Háskólabíói 24. febrúar 2018

„Fyrrverandi rektorar, aðstoðarrektorar, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, starfsfólk Háskóla Íslands, góðir gestir. 

Kæru kandídatar, ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn. Þetta er sannkallaður gleðidagur; þetta er ykkar stund.  Þið hafið lagt hart að ykkur í náminu og uppskerið nú laun erfiðisins og framtíðin blasir við ykkur.  Árangur ykkar er staðfestur með prófskírteinunum sem þið takið við hér á eftir.  Þið bætist nú í hóp þeirra fjörutíu og fimm þúsund kandídata sem brautskráðst hafa frá Háskóla Íslands á rúmri öld og við munum líta til ykkar sem traustra hollvina skólans um ókomin ár.  

Um leið og við fögnum árangri ykkar skulum við vera minnug þess að enginn er eyland og að baki ykkur standa fjölskyldur, vinir og vandamenn sem fagna með ykkur í dag.  Þau hafa stutt ykkur með ráðum og dáð og eiga hlutdeild í árangri ykkar.  Við óskum þeim einnig til hamingju með daginn. 

Brautskráning frá Háskóla Íslands markar jafnan tímamót í starfi skólans og er því einnig hátíð starfsfólks sem hefur gert allt sem í þess valdi stendur til að tryggja að prófgráðan frá Háskólanum sé traustur vitnisburður um þekkingu ykkar og hæfni, hvert sem leiðir ykkar kunna að liggja.

Nú, þegar við fögnum þessum áfanga, kandídatar góðir, er vel við hæfi að minnast þess að undir lok þessa árs fögnum við hundrað ára afmæli fullveldis Íslands, en 1. desember 1918 varð Ísland sem kunnugt er fullvalda ríki. Fullveldisdagurinn 1. desember hefur ætíð skipað stóran sess hjá Háskóla Íslands og eru það ekki síst stúdentar sem hafa haldið á lofti merki fullveldisins og minnt þjóðina á mikilvægi þessa dags.  Það er engin tilviljun því stofnun Háskóla Íslands var samofin sjálfstæðisbaráttu Íslands.  Það er heldur engin tilviljun að Háskólinn var stofnaður nokkrum árum áður en fullveldi fékkst úr hendi Dana, og raunar var farið að huga að stofnun háskóla hér á landi þegar við endurreisn Alþingis árið 1845. Framsýnir Íslendingar skynjuðu því snemma að háskóli á Íslandi væri forsenda þess að þjóðin gæti risið undir nýfengnu frelsi og orðið stjórnmálalega, efnahagslega og menningarlega sjálfstæð. 

Einn þeirra sem lét sig sjálfstæði Íslands varða var Björn M. Olsen, fyrsti rektor Háskóla Íslands.  Í ræðu sem hann flutti í Alþingishúsinu við stofnun skólans 17. júní 1911, 100 árum eftir fæðingu Jóns Sigurðssonar, fjallar Björn um fjórar hugsjónir háskóla – hugsjónir sem jafnframt liggja sjálfstæði þjóðar til grundvallar. Í fyrsta lagi lýsir hann leitinni að sannleikanum sem höfuðmarkmiði alls háskólastarfs. Í öðru lagi undirstrikar hann frelsishugsjón háskóla. Frjáls rannsókn og frjáls kennsla, segir Björn, er eins nauðsynleg fyrir háskóla og andardrátturinn er fyrir einstaklinginn. Í þriðja lagi tilgreinir Björn uppeldishlutverk háskóla. Með því beinir hann sjónum að mikilvægi þess að háskólar séu ávallt í lifandi tengslum við samfélagið sem fóstrar þá. Í fjórða lagi leggur Björn sérstaka áherslu á alþjóðlegt eðli háskóla. „Hver háskóli fyrir sig“, segir hann, „má heita borgari í hinu alþjóðlega lýðveldi vísindanna“.  Vekur Björn sérstaka athygli á því að engin mótsögn sé á milli hins þjóðlega og hins alþjóðlega hlutverks háskóla svo lengi sem þeir ali ekki á þjóðernisrembingi. 

Það er merkilegt hvernig frumherjunum tókst að sjá í hinum nýstofnaða skóla – hinum „minnsta og ófullkomnasta“ háskóla á byggðu bóli, svo enn sé vitnað til orða Björns M. Olsen – útlínur hins þróttmikla Háskóla Íslands sem við þekkjum í dag: Háskóla sem kveikir nýjar hugmyndir og bætir lífsgæði, háskóla sem skapar nýja þekkingu og veitir menntun og prófgráður sem eru gjaldgengar um víða veröld, háskóla sem er eftirsóttur þátttakandi í samstarfsneti bestu háskóla á alþjóðavísu, háskóla sem dregur að sér nemendur og starfsfólk hvaðanæva að, háskóla sem er mikilvæg undirstaða atvinnulífs og framfara og lifandi menningar.  

Miklar framfarir hafa orðið í íslensku samfélagi á starfstíma Háskóla Íslands.  Í hinum fámenna hópi kennara sem háskólahugsjónin kallaði saman í Alþingishúsinu 17. júní 1911 var engin kona og í nemendahópi fyrsta árgangsins voru 44 karlar en aðeins ein kona, Kristín Ólafsdóttir læknanemi, sem brautskráðist fyrst kvenna frá Háskóla Íslands árið 1917. Í vetur stunda yfir átta þúsund konur nám við Háskólann og á síðasta ári brautskráðust yfir tvö þúsund konur frá skólanum. Fyrsta konan til að gegna prófessorsstarfi við Háskóla Íslands var Margrét Guðnadóttir, prófessor við Læknadeild, og hlaut hún þá nafnbót 58 árum eftir stofnun skólans. Margrét átti einstaklega farsælan kennslu- og rannsóknaferil við Háskóla Íslands en hún lést 4. janúar síðastliðinn.  

Það er höfuðatriði að fjölbreytnin og gróskan í íslensku þjóðfélagi endurspeglist á hverjum tíma í háskólasamfélaginu, enginn sé afskiptur og engir hæfileikar vanræktir. Við Íslendingar þurfum líka að uppræta úrelt viðhorf, mannskemmandi venjur og þá valdníðslu sem afhjúpuð hefur verið á undanförnum mánuðum í samskiptum kynjanna. Hér getur Háskóli Íslands gengið á undan og sýnt gott fordæmi í krafti sérþekkingar og jafnréttishugsjónar. 

Ekki má gleyma að í dag stöndum við frammi fyrir ótal öðrum áskorunum sem ógjörningur var að sjá fyrir við upphaf tuttugustu aldar. Loftslagsbreytingar ógna lífi á jörðinni, upplýsingamengun grefur undan lýðræði, vélmenni munu í mörgum tilvikum leysa mannshöndina af hólmi, síaukin söfnun auðs á fáar hendur ógnar félagslegu jafnvægi og vaxandi flóttamannastraumur eykur sundurþykkju í samfélögum heims. Andspænis slíkum viðfangsefnum skiptir miklu að við höldum tryggð við háskólahugsjónina og sýnum þann stórhug og dug sem einkenndi frumherja háskólastarfs á Íslandi.  

Til að takast á við áskoranir samtímans þurfum við öflugan Háskóla Íslands – skóla sem stenst samanburð við fremstu háskóla Norðurlanda og nýtur óskoraðs trausts hjá þjóðinni og stuðnings stjórnvalda. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er því lýst yfir að hafin sé „stórsókn í menntamálum“ og er það fagnaðarefni.  

Vert er að hafa hugfast að rannsókna- og nýsköpunarstarf og markviss hagnýting rannsóknaniðurstaðna hefur fært okkur Íslendingum meiri hagsæld og meira öryggi en nokkurn hefur getað órað fyrir. Lífslíkur og lífskjör almennings hafa stórbatnað og tækifæri til menntunar og símenntunar margfaldast. Fleiri fá nú tækifæri til að finna og rækta hæfileika sína og hugsjónir en nokkru sinni fyrr. Heita má að allir vegir séu nú færir ungum Íslendingum sem láta til sín taka á öllum sviðum víða um lönd. Kæru kandídatar, ef rétt er á haldið eru blómlegir tímar framundan á Íslandi á 21. öld og sameiginlegt verkefni okkar er að breyta aðsteðjandi ógnum og áskorunum í tækifæri og sókn. Lyklarnir að friðsamlegri og farsælli framtíð eru menntun, nýsköpun, gagnrýnin hugsun, frelsi og víðsýni.

Kæru kandídatar, þekking er gjaldmiðill framtíðarinnar. Grunnrannsóknir í háskólum skapa nýja þekkingu og eru undirstaða framfara í samfélaginu. Samskipti og félagshæfni eru forsenda fyrir því að miðla þekkingunni áfram og tryggja að sem flestir fái notið ávaxta vísindanna. 

Andleg velferð og vellíðan vex ekki nauðsynlega í réttu hlutfalli við veraldlega hagsæld. Kvíði og þunglyndi geta fylgt síauknum kröfum og áreiti samtímans, ekki síst hjá ungu fólki. Vísbendingar rannsókna á andlegri vanlíðan íslenskra háskólanema eru áhyggjuefni og við því þarf að bregðast. Sérstaklega er mikilvægt að fá ungt fólk til að tjá hug sinn og leita sér aðstoðar. Háskóli Íslands hefur nú þegar gert ráðstafanir til að efla náms- og sálfræðiráðgjöf við skólann og mun kynna fleiri úrræði á næstunni. Miklu skiptir að háskólanemar geti helgað sig náminu án þess að óþarfa áhyggjur hamli þeim. Þannig verður námsánægjan varanlegust og námsárangurinn mestur.

Við skulum hafa hugfast að enginn er fullkominn, eins og kanadíska skáldið Leonard Cohen fjallar um í verkinu „Lofsöngur“, en þar segir:

Hringdu þeim klukkum sem enn fá ómað,
og gleymdu hvernig hið fullkomna getur hljómað.
Það er brestur, brestur í öllu sem er til,
en ljósið brýst í gegnum það bil.

Kæru kandídatar, háskóli er ekki aðeins menntastofnun heldur einnig samfélag kennara, nemenda og starfsfólks sem vinnur að framgangi vísinda og fræða og eflir þannig hag einstaklinga, lands og þjóðar. Þetta samfélag teygir anga sína langt út fyrir háskólasvæðið og raunar landsteinana, og nær til allra þeirra sem brautskráðst hafa frá skólanum, eins og ég gat um í upphafi.  Háskólinn hefur ákveðið að stórefla tengslin við hollvini sína á næstu misserum. Markmiðið með þessu er að virkja alla þá sem vilja sýna Háskóla Íslands hlýhug og treysta enn frekar böndin við ykkur og aðra brautskráða kandídata. Þið eruð sannir hollvinir Háskóla Íslands, kæru kandídatar.

Nú er stund til að fagna. Njótum hennar. Göngum glöð út í daginn, fögnum með fjölskyldum okkar og vinum. Verum þakklát og örlát og látum gott af okkur leiða.

Um leið og ég þakka ykkur fyrir hönd Háskóla Íslands fyrir samfylgdina á undanförnum árum og býð ykkur að taka við prófskírteinum ykkar, óska ég ykkur velfarnaðar í þeim fjölbreyttu verkefnum sem þið munuð nú taka ykkur fyrir hendur.

Framtíðin er ykkar.“
 

rektor flytur ræðu sína á brautskráningu

Netspjall