Skip to main content
8. nóvember 2021

Óumræðilega mikill munaður að eiga þess kost að læra

Óumræðilega mikill munaður að eiga þess kost að læra - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þegar starfsfólk Háskóla Íslands fagnaði 110 ára afmæli skólans fyrir helgi sté skáldið Gerður Kristný á svið og frumflutti af stakri snilld ljóð til heiðurs skólanum:

Háskólinn rís
upp af hæðinni

virki byggt
úr þeirri 
bjargföstu trú
að vernda skuli
allt sem gott er
og satt
mýri
murtu
viðtengingarhátt 

Bílastæðin
bogadregin síki

Hið vonda hörfar
á vindubrúnni
óttast að vera
barið með bók

Á kvöldin
lýsa kastarar
upp virkisvegginn

Birtast þá menn
á múrnum
sem risar

Þannig er Háskólinn
stækkar okkur 
svo við megum
vernda allt sem gott er
og satt
siðina
söguna
vörumerkjastjórnun

Hér tekur Gerður Kristný að sér svipað hlutverk og þjóðskáldin höfðu á fyrri tíð þegar þau ortu urmul tækifærisljóða, mjög oft eftir pöntun. Í raun er hún hér að yrkja í þágu þekkingarinnar og vísindanna eins og Jónas Hallgrímsson gerði þegar hann orti eitt þekktasta tækifærisljóð sögunnar, þakkir til herra Páls Gaimard (1793-1858), franska natúralistans sem færði Evrópumönnum 19. aldar sýn á þjóðir og lönd á norðurslóðum. Ljóðið er ort fyrir samsæti Íslendinga í Kaupmannahöfn til heiðurs Gaimard þann 16. janúar 1839. 

Í ljóðinu um Gaimard færði náðargáfan Jónasi línurnar: Vísindin efla alla dáð, orkuna styrkja, viljann hvessa, vonina glæða, hugann hressa, farsældum vefja lýð og láð. Þetta ljóð Jónasar hefur orðið að einhvers konar einkennisbrag Háskólans og gullnar línur úr því blasa við ofan við innganginn að Hátíðarsalnum í Aðalbyggingunni. 

„Við höfum sterka hefð fyrir tækifærisljóðum og það er gaman að hún skuli enn vera við lýði, að hóað sé í skáld við hátíðleg tilefni. Það er engu líkt að starfa í landi þar sem ljóðið vegur jafn þungt. Hefðina eigum við að þakka öllum þeim færu skáldum sem þetta land hefur alið,“ segir Gerður Kristný sem sjálf nam frönsku og bókmenntafræði við HÍ.

„Mér fannst mikill heiður að vera beðin um yrkja ljóð í tilefni af stórafmæli Háskóla Íslands. Ég samþykkti það þó ekki fyrr en ég hafði aðeins velt því fyrir mér fyrir hvað hann stendur í huga mér og párað niður hjá mér hugmyndir. Þær komu þó fljótt, enda bý ég skammt frá skólanum og hef hann því oft fyrir augunum en síðan var ég líka svo heppin að hafa verið nemandi þar.“

Get leyft mér húmor ef ég flyt ljóðið sjálf

Afmælisljóð Gerðar til HÍ ber persónuleg einkenni hennar umbúðalaus, þarna er þessi knappi stíll með beinum myndum og húmor sem hún er þekkt fyrir, jafnvel högg eða „pönsj læn“ í bláendann á hverju erindi sem vekur strax upp hlátur. En er þetta splunkunýja ljóð einhvern veginn öðruvísi en önnur sem hún hefur ort?

„Ljóðið er eflaust í svipuðum anda og önnur ljóð sem ég hef ort,“ svarar skáldið, „ég hef til dæmis líka ort ljóð í tilefni af stórafmæli varðskips og árið 2011 samdi ég ávarp fjallkonunnar í Reykjavík sem hún flutti 17. júní. Ég verð alltaf að gæta þess að slík ljóð séu ekki of knöpp og auðvitað að þau hæfi tilefninu. Mér finnst ég geta leyft mér húmor ef ég flyt ljóðið sjálf.“
Og það gerði hún svo sannarlega með eftirminnilegum hætti.

„Við höfum sterka hefð fyrir tækifærisljóðum og það er gaman að hún skuli enn vera við lýði, að hóað sé í skáld við hátíðleg tilefni. Það er engu líkt að starfa í landi þar sem ljóðið vegur jafn þungt. Hefðina eigum við að þakka öllum þeim færu skáldum sem þetta land hefur alið,“ segir Gerður Kristný sem flutti ljóðið á afmælishátíð Háskóla Íslands fyrir helgi. MYND/Mummi Lú

Ljóðið á sama erindi til okkar og áður

Á afmælishátíðinni sem helgaður var starfsfólki skólans var m.a. bryddað upp fjölmörgum atriðum listamanna en mörgum þótti flutningur ljóðsins standa upp úr og koma á óvart. Sumir fullyrða reyndar að tilgangur ljóðsins hafi breyst í þessu samfélagi ofgnóttar upplýsinga og falsfrétta og rappið sé nýr vettvangur kveðskapar. Þar hafi nýju þjóðskáldin fundið sér vettvang og stökkpall inn í þennan brotakennda veruleika. Gerður svarar því til að ljóðið hafi ekki breyst neitt í eðli sínu og eigi ekki annað erindi til fólksins núna en áður. 

„Stór hópur fólks hér á landi er sólginn í ljóðabækur, mætir á upplestra, les ljóðabækur og hefur skoðanir á þeim. Sér í lagi er áhugi fyrir nýjum ljóðskáldum. Ég hvet fólk til að rölta út í Bóksölu stúdenta og kynna sér til dæmis nýjustu verk Þórdísar Helgadóttur og Brynju Hjálmsdóttur. Þegar sorg ber að dyrum leitum við oftar en ekki í ljóðformið til að tjá huga okkar. Það er svo tært.“

Fer oft á vef HÍ til að athuga hvort hún eigi ekki að bæta einhverju við sig

Gerður Kristný hefur gegnt ýmsum störfum um ævina með fram því að yrkja og skrifa. Hluta ævinnar var hún t.d. blaðamaður og ritstjóri. „Ég bætti við mig hagnýtri fjölmiðlum í Háskólanum,“ segir skáldið og hugsar augljóslega andartak til baka til þess tíma þegar hún sat á skólabekk á Melunum. 

„Það er engu líkt að dvelja í samfélagi fólks sem allt hefur áhuga á því sama, tungumálum og bókmenntum. „Skóli er ekki próf. Skóli er tími,“ segir Vilborg Dagbjartsdóttir í ævisögunni Úr þagnarhyl eftir Þorleif Hauksson. Það var mjög dýrmætt að fá tíma til að læra. Síðan tekur það alla ævina að vinna úr lærdóminum. Í náminu kynntist ég ekki aðeins höfundum, bókum og málfræðireglum sem gott er að hafa á takteinunum, heldur líka fólki sem verið hefur mér dýrmætt.“  

Skáldið segir þannig að námið í HÍ hafi gagnast sér ákaflega vel, sér í lagi bókmenntafræðin. „Enn á ég til að fara inn á vef Háskólans og athuga hvort ég eigi ekki að bæta einhverju við mig. Þessi möguleiki er svo óumræðilega mikill munaður. Að við skulum eiga kost á því að læra!“

Skáldin okkar til forna fluttu oft konungum bálka og jafnvel höfuðlausnir og fóru þá á langskipum yfir Norður-Atlantshaf til að flytja kvæðin á erlendri grund og riðu jafnvel gæðingum síðasta spölinn. Það er tímanna tákn að Gerður Kristný tók strætó í Hörpuna til að flytja ljóðið sitt nýja til Háskóla Íslands.

„Háskólinn er stofnunin, sem veitir þeim sem áhuga hafa, æðri menntun á þjóðartungunni okkar,“ segir hún. „Háskólinn sinnir líka íslenskri menningu, sögu og náttúru. Það er ákaflega mikilvægt jafn fámennri þjóð að eiga háskóla. Hann verður alltaf ein táknmynd sjálfstæðis okkar.“

Gerður Kristný