Óformleg menntun valdeflir nemendur sem standa höllum fæti | Háskóli Íslands Skip to main content
22. september 2021

Óformleg menntun valdeflir nemendur sem standa höllum fæti

Óformleg menntun valdeflir nemendur sem standa höllum fæti - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Alþjóðlegt rannsóknanet af þessum toga skipta gríðarlega miklu máli og skapa dýrmætan vettvang til að miðla þekkingu og reynslu milli landa,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ. Hún er ein lykilfyrirlesara á alþjóðlegri menntaráðstefnu sem haldin verður á Menntavísindasviði HÍ dagana 23.-25. september næstkomandi.

Ráðstefnan er á vegum fjölþjóðlegs rannsóknarhóps á vegum World Education Research Association (WERA) sem ber heitið Extended Education Research. Þar er sjónum beint að heildstæðri sýn á menntun og samvinnu í menntamálum. Rannsóknir á sviðinu hafa sýnt fram á að þverfagleg nálgun og óformlegt nám eru mikilvægir þættir allrar menntunar. Á ráðstefnunni munu rannsakendur og sérfræðingar fjalla meðal annars um fagþróun á sviði frístundastarfs, samþættingu skóla og frístunda, samstarf heimilis og skóla, áhrif COVID-19 á nám og velferð, raddir og sjónarhorn ungmenna, sjálfbærni og náttúrumenntun.

„Óformleg menntun (e. non-formal education) hefur rutt sér til rúms og felst í viðurkenningu á því að nám og þroski eigi sér stað á ólíkum stöðum, innan og utan skóla,“ segir Kolbrún. Hún flytur lykilerindi ásamt Ruth Rauterberg, aðjúnkt í þroskaþjálfafræði, en þær hafa báðar lengi rannsakað tengsl milli óformlegrar og formlegrar menntunar og menntun án aðgreiningar.

Kolbrún segir að í erindi þeirra verði sérstaklega horft til skipulags æskulýðs- og tómstundastarfs en einnig til fullorðinsfræðslu og atvinnulífs þar sem einstaklingar öðlist hæfni og þekkingu utan hins skipulega menntakerfis. „Frístundaheimili og félagsmiðstöðvar eru til að mynda grunnþjónusta í íslensku samfélagi og eru frábært dæmi um tækifæri til óformlegs náms. Í öllum vestrænum samfélögum má greina þá þróun að tengja betur saman grunnskóla og frístundastarf, meðal annars til að efla félags- og samskiptahæfni allra nemenda og valdefla nemendur sem standa höllum fæti.“

Félagslegur þáttur menntunar gríðarlega mikilvægur

Heimsfaraldur kóróunuveirunnar hefur haft afdrifarík áhrif á menntakerfi heimsins. Þó tekist hafi að halda skóla- og frístundastarfi að miklu leyti gangandi hér á landi hefur nám og kennsla milljóna fólks um allan heim farið fram á netinu undanfarna átján mánuði. „Samvinna ólíkra hagaðila skiptir sköpum til að slíkt gangi upp og er ljóst að sameiginlegt markmið fagfólks og ráðamanna hefur verið að hlúa að velferð barna og ungmenna. Eitt af því sem við höfum lært á þessum tíma er að hinn félagslegi þáttur menntunar er gríðarlega mikilvægur og sú einangrun sem heimsfaraldur olli hefur reynst erfiður, ekki síst þeim nemendum sem stóðu höllum fæti fyrir. Þannig má segja að heimsfaraldurinn hafi dregið mjög skýrt fram mikilvægi óformlegrar menntunar og þverfaglegrar samvinnu.“

Að sögn Kolbrúnar hefur heimsfaraldurinn minnt rækilega á meginmarkmið menntunar, sem er að efla hvern einstakling til að þroska hæfileika sína og taka virkan þátt í samfélaginu. „Þetta er lykilatriði í menntun án aðgreiningar, að allir nemendur, óháð fötlun, uppruna, stétt, kyni eða þjóðerni, eigi rétt á að taka þátt og njóta sín í hópi jafnaldra. Óformleg menntun hefur einstaklinginn ávallt í forgrunni enda byggir slíkt nám á virkri þátttöku nemandans, á áhuga hans og vali. Slík uppeldis- og kennslufræðileg nálgun er í auknum mæli nýtt innan skóla og er ákaflega vel til þess fallin að vinna markvisst með þátttöku allra. Ekki má gleymast að áskoranir á tímum heimsfaraldurs hafa leitt af sér ýmsa jákvæða strauma, skapað svigrúm fyrir sveigjanlegra námsumhverfi og fjölbreyttari stafræn samskipti sem gera ungmennum kleift að hafa mun meiri áhrif á nám sitt.“

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verkfæri til að skapa betri heim

Áskoranir sem samfélög um heim allan standa frammi fyrir; loftslagsbreytingar, fólksflutningar, stríðsátök og upplýsingaóreiða kalla á sterk og afgerandi viðbrögð menntakerfa. „Ráðstefnan hverfist ekki síst um að skoða hvernig hægt er að nýta Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem verkfæri til að skapa betri og farsælli samfélög til framtíðar. Sú vinna kallar á aðkomu okkar allra. Menntun er besta leiðin til að nesta allt ungt fólk og virkja það til þátttöku. Óformleg menntun er í raun ávallt samofin formlegu námi og styður við námsárangur og velferð nemenda.“

Á dagskrá ráðstefnnnar verða hátt í 70 erindi þar sem rýnt verður í þann lærdóm sem samfélög hafa gengið í gegnum og kynntar verða nýjustu rannsóknir á sviði óformlegrar menntunar. Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar koma frá Indlandi, Bandaríkjunum, Finnlandi og Íslandi og hafa þau öll verið leiðandi á sínu sviði í heimalöndunum. Þó greina megi sameiginleg þemu í efni fyrirlestranna mótast viðbrögð samfélaga af ólíku félags- og menningarlegu samhengi.

Ráðstefnan fer fram rafrænt og er hægt að nálgast efni hennar á vefsíðu WERA.

Alþjóðlega menntaráðstefnan WERA-IRN Extended Education verður haldin á Menntavísindasviði HÍ dagana 23.-25. september næstkomandi. MYND/ Kristinn Ingvarsson