Nýtt nám í hagnýtri atferlisgreiningu við Háskóla Íslands

Boðið verður upp á framhaldsnám í hagnýtri atferlisgreiningu í Háskóla Íslands frá og með haustinu 2020 í samstarfi tveggja öflugra deilda innan skólans. Með þessu er verið að bregðast við ákalli um að fjölga sérfræðingum í samfélaginu sem hafa þekkingu á árangursríkum vinnubrögðum og geta skapað jákvæðar og hvetjandi námsaðstæður fyrir fjölbreyttan hóp barna.
„Við viljum meðal annars mennta fagfólk sem getur beitt atferlisgreiningu á áhrifaríkan hátt í starfi með börnum með margvíslegar þarfir, þar á meðal hegðunarerfiðleika, námserfiðleika, einhverfu og önnur þroskafrávik. Það er mikil þörf á fagfólki með slíka menntun og því mikilvægt að bjóða upp á hagnýtt nám og næga starfsþjálfun. Námið er skipulagt í samræmi við alþjóðlegar kröfur um kenningarlegan grunn og hagnýta þjálfun með áherslu á siðareglur greinarinnar og fagmennsku í starfi,“ segir Íris Árnadóttir, verkefnisstjóri námsins.
Að námi í hagnýtri atferlisgreiningu standa Deild heilsueflingar, íþrótta- og tómstunda á Menntavísindasviði og Sálfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði. Boðið verður upp á 120 eininga nám til meistaraprófs og 60 eininga diplómanám til eins árs.
Í náminu verður meðal annars boðið upp á námskeið um hagnýtingu atferlisgreiningar í vinnu með börnum með hegðunarerfiðleika, námserfiðleika, einhverfu eða þroskafrávik. Íris segir enn fremur að námið muni að stórum hluta fela í sér hagnýt verkefni, starfsþjálfun á vettvangi og þjálfun í viðeigandi rannsóknafærni.
Námið er kjörið fyrir fólk með grunnháskólagráðu á borð við sálfræði eða á sviði menntunarfræða og vill auka þekkingu sína í starfi með börnum og viðkvæmum hópum. Diplómanám í hagnýtri atferlisgreiningu er jafnframt tilvalið fyrir kennara sem sækja um námsleyfi eða annað fagfólk sem vill auka færni sína í starfi á sviði uppeldis eða menntunar.
Frá undirritun samkomulags milli fulltrúa þeirra fræðasviða og deilda sem koma að náminu nýja ásamt aðstandendum þess og rektor. MYND/Kristinn Ingvarsson