Skip to main content
2. júní 2021

Nýtt lyfjaform gegn malaríu sigraði í samkeppni um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ

Nýtt lyfjaform gegn malaríu sigraði í samkeppni um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nýtt lyfjaform gegn malaríu fyrir börn, sem ekki þarf að gefa á sjúkrahúsum, bar sigur úr býtum í árlegri samkeppni um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands sem lauk í Hátíðasal skólans í dag. Þrjú önnur verkefni sem snúast um breytilega stífni gervifóta, sjónræna framsetningu á hopun jökla og hugbúnað til að geta notað íslensku betur í stafrænum heimi fengu einnig verðlaun. 

Þetta var í 23. sinn sem Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands voru veitt. Metfjöldi tillagna barst í samkeppnina að þessu sinni eða 50 tillögur. Veitt voru verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar í fjórum flokkum: Heilsa og heilbrigði, Tækni og framfarir, Samfélag og Hvatningarverðlaun. Auk þess var sigurvegari keppninnar valinn úr hópi verðlaunahafa úr ofangreindum flokkum. 

Við mat á umsóknum skoðaði dómnefndin einkum nýnæmi og frumleika, útfærslu, samfélagsleg áhrif, m.a. út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og hvort verkefnið styddi stefnu og starf Háskólans.

heilsa

Sigurvegari í flokknum Heilsa og heilbrigði og samkeppninni í heild var verkefnið Meðferð við heilahimnubólgu af völdum malaríu sem hlaut samtals 3 milljónir króna í verðlaunafé. Verkefnið gengur út á að þróa nýtt lyfjaform fyrir börn sem samanstendur af tveimur malaríulyfjum, töflu og stungulyfi. Markmiðið er ekki síst að auðvelda aðgengi að og notkun lyfja gegn þessum skæða sjúkdómi sem kostar eitt barn lífið á tveggja mínútna fresti í Afríku, sunnan Sahara. Hópnum á bak við verkefnið hefur tekist að leysa lyfin upp í svokölluðu klysma (þ.e. lyfjaform sem endaþarmsvökvi), en slíkt lyfjaform er ekki á markaði í dag. Því þarf ekki að gefa lyfið á sjúkrahúsum heldur kunna foreldrar, aðstandendur eða hjúkrunarfólk á litlum heilsugæslum að hefja meðferð strax. Stefnt er að framkvæmd klínískra prófana á lyfjaforminu í haust.

Dómnefnd telur verkefnið hafa háleitt og göfugt markmið sem falli vel að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þá hafi það möguleika á að skapa mikil og jákvæð áhrif fyrir viðkvæman hóp í samfélaginu, feli í sér mikið nýnæmi og falli vel að stefnu og starfi Háskólans. „Verkefnið er gott dæmi um öflugt samstarf innan skólans og við erlenda sérfræðinga og stofnanir,“ segir í umsögn dómefndar.

Að verkefninu standa Sveinbjörn Gizurarson, prófessor í lyfjafræði, Ellen K. G. Mhango, doktorsnemi í lyfjafræði, Bergþóra S. Snorradóttir, lektor í lyfjafræði, og Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, lektor í efnafræði.  Verkefnið er unnið í samstarfi við Baxter Kachingwe við Háskólann í Malaví og Peter Ehizibue Olumese frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. 

taekni

Verðlaun í flokknum Tækni og framfarir hlaut verkefnið Breytileg stífni gervifótar og nam verðlaunaféð 1,5 milljónum króna. Það snýst um að þróa tvær nýjar tegundir af gervifótum sem laga sig að vali og virkni notandans. Þeir gervifætur sem eru á markaði í dag henta mjög vel í flest dagleg verkefni en skortir aðlögunarhæfni þegar kemur að ójöfnu undirlagi, leik með börnum, krjúpa, ganga upp eða niður brekkur og klífa stiga. Um er að ræða nýjan eiginleika í gervifótum en hönnun þeirra eykur hreyfigetu notandans í starfi og leik og mun bæta til muna lífsgæði hans. Fyrstu notendaprófanir lofa góðu. 

Dómnefnd bendir á að verkefnið sé þarft enda þarna á ferðinni þekkt vandamál í gervifótum. Þá sé það mikið nýnæmi og hafi samfélagslegan ávinning. „Verkefnið er gott dæmi um að samvinna Háskóla Íslands og aðila úr atvinnulífinu leiði til framfara og nýrrar þekkingar til góðs fyrir samfélagið,“ segir m.a. í umsögn dómnefndar.

Verkefnið er unnið í samstarfi vísindamanna og doktorsnema við Háskóla Íslands við hátæknifyrirtækið Össur. Að því standa Christophe Lecomte, doktorsnemi í vélaverkfræði, og stjórnandi hjá Össuri, Sigurður Brynjólfsson og Fjóla Jónsdóttir, prófessorar í vélaverkfræði, Kristín Briem, prófessor í sjúkraþjálfun, Felix Starker, sérfræðingur hjá Össuri, Anna Lára Ármannsdóttir, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum, og Heimir Tryggvason, doktorsnemi í vélaverkfræði. 

samfelag

Í flokknum Samfélag hlaut verkefnið Breiðamerkurjökull 2121: Sjónflug inn í óvissa framtíð verðlaun að upphæð 1,5 milljón króna. Verkefnið snýst um að sjóngera Breiðamerkurjökul og landslagið næst honum eins og vænta má að hann muni líta út eftir hundrað ár á grundvelli traustustu vísindaþekkingar sem nú er fyrir hendi um líklegt hop jökulsins. Útbúin verða tilgátukort með 25 ára millibili út frá þremur ólíkum sviðsmyndum um hraða jökulbráðnunar. Búnar verða til tölvugerðar myndir af jöklinum og landslaginu og þær settar saman í hreyfimynd sem sýnir þróun mála yfir tíma út frá ólíkum sviðsmyndum. Bráðnun jökla er með allra sýnilegustu birtingarmyndum loftslagsbreytinga og því mjög hentugt viðfangsefni til upplýsingamiðlunar um áhrif þeirra breytinga.

Dómnefnd bendir á að verkefnið sé samfélagslega mikilvægt enda hamfarahlýnun ein stærsta áskorun sem heimurinn stendur frammi fyrir. Ný þrívíddartækni sem aðallega hafa verið notuð í tölvuleikjagerð séu notuð til miðlunar vísindalegrar þekkingar og verkefnið sé til fyrirmyndar um þverfaglegt samstarf vísindafólks, hönnuða, kvikmyndagerðarmanna og opinberra stofnana.

Stór hópur kemur að verkefninu, þau Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, Helgi Björnsson, prófessor emeritus í jöklafræði, Finnur Pálsson, verkfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði, Kieran Baxter, nýdoktor við rannsóknasetrið á Hornafirði, Johannes Welling, verkefnisstjóri þar á bæ,  David C. Ostman, verkefnisstjóri og Jón Örn Guðbjartsson, sviðstjóri markaðs- og samskiptasviðs Háskólans. Verkefnið er unnið í samstarfi við Snævarr Guðmundsson, sviðsstjóra og jöklajarðfræðing hjá Náttúrustofu Suðausturlands, Hrafnhildi Hannesdóttur, sérfræðing hjá Veðurstofu Íslands, Alice Watterson, sérfræðing hjá 3DVisLab við Dundee-háskóla, Gunnlaug Þór Pálsson, kvikmyndaleikstjóra og -framleiðanda, M Jackson, jöklafræðing og fjölmiðlakonu, Arctic Centre við Háskólann í Lapplandi, Arctic Centre Vatnajökulsþjóðgarð,  Náttúruminjasafn Íslands og Landmælingar Íslands.

hvatning

Hvatningarverðlaun, að upphæð 500 þúsund krónur, hlaut verkefnið Með íslensku má alltaf finna svar – opin þvermála spurningasvörun með djúpum tauganetum. Verkefnið felst í að þróa hugbúnaðarlausn sem gerir tölvukerfum, eins og leitarvélum, kleift að taka við fyrirspurnum og gefa svar á íslensku ef það finnst, en til vara á öðru tungumáli. Þannig geti notendur slíkra lausna treyst á íslenskuna í alla staði þegar kemur að því að eiga í samskiptum við tölvur og tæki með fyrirspurnarsniði. Fyrstu niðurstöður spurningasvörunar lofa góðu og sýna að netið hefur lært að gefa upp hvar í leitartexta megi finna svar við spurningu. Sprotafyrirtækið Miðeind stefnir að því að innleiða lausnina að verkefninu loknu.

„Það er mat dómnefndar að verkefnið sé til þess fallið að stuðla að eflingu íslenskunnar í hinum stafræna heimi, verkefnið feli í sér nýnæmi og sé komið langt á leið auk þess að vera unnið í samstarfi við fyrirtæki sem hyggst koma verkefninu áfram út í samfélagið,“ segir í umsögn dómnefndar um verðlaunin.

Að verkefninu standa Vésteinn Snæbjarnarson, meistaranemi í tölvunarfræði, og Hafsteinn Einarsson, lektor í tölvunarfræði og leiðbeinandi í verkefninu. Verkefnið er unnið í samstarfi við Miðeind ehf.

Samkeppnin um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Árnason|Faktor og Auðnu-tæknitorgs. 

Fleiri myndir frá úthlutun verðlaunanna.

Frá vinstri: Kristinn Andersen, prófessor og formaður dómnefndar, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, Bergþóra S. Snorradóttir, lektor í lyfjafræði, Ellen K. G. Mhango, doktorsnemi í lyfjafræði, Sveinbjörn Gizurarson, prófessor í lyfjafræði, Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, lektor í efnafræði, og Jón Atil Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Myndina tók Kristinn Ingvarsson.