Skip to main content
8. september 2023

Ný tilraunastofa fyrir stjarneðlisfræði opnuð

Ný tilraunastofa fyrir stjarneðlisfræði opnuð - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í síðustu viku var opnuð ný tilraunastofa fyrir stjarneðlisfræði í byggingunni VR-III sem ber nafnið Skuggsjá. Tilraunastofan, sem er að hluta til fjármögnuð af svokölluðu CMBeam-verkefni sem nýtur stuðnings Evrópska rannsóknaráðsins, verður notuð við hönnun og kvörðun á örbylgjusjónaukum framtíðarinnar, sjónaukum sem ætlað er að fræða okkur meira um sögu alheimsins. Skuggsjá býr jafnframt yfir tækjabúnaði sem opnar nýjar víddir í kennslu í tilraunaeðlisfræði, rafsegulfræði og vélaverkfræði.

Jón Emil Guðmundsson, lektor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands, fer fyrir CMBeam-verkefninu á Íslandi, en sagt var frá rannsóknum hans nýverið á vef Háskóla Íslands.

„Rannsóknir mínar tengjast mest megnis örbylgjukliðnum, þ.e.a.s. elsta ljósinu í alheiminum, og því hvað þetta ljós getur sagt okkur um sögu og eiginleika hans. Undanfarið hef ég unnið mikið við hönnun og kvörðun á örbylgjusjónaukum sem verður beitt við þessar rannsóknir á næstu árum,“ segir Jón Emil sem er afkastamikill í rannsóknum á sínu sviði.

Hér má sjá myndband þar sem Jón Emil ræðir rannsóknir sínar.

Sigurður Magnús Garðarsson, sviðsforseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Jón Emil Guðmundsson, lektor í stjarneðlisfræði og Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ