Skip to main content
12. mars 2021

Ný stefna í burðarliðnum

Ný stefna í burðarliðnum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á stúdenta og starfsfólk í dag (12. mars):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Markmið okkar er alltaf að gera góðan háskóla betri til að hann geti sem best haft jákvæð áhrif á samfélagið, umhverfi okkar og lífríki. Mótun nýrrar framtíðarstefnu Háskóla Íslands fyrir 2021-2026  stendur nú yfir og fara drögin fljótlega í kynningarferli. Við höfum lagt ríka áherslu á að vinna nýju stefnuna í viðamiklu samráði við háskólasamfélagið allt og eins aðila í atvinnu- og þjóðlífi. Á næstunni verða stefnudrögin sett í samráðsgátt til umsagnar og vil ég hvetja ykkur til að nota tækifærið til að hafa áhrif á þessa vinnu eins og kostur er. Áformað er að ný stefna verði afgreidd á háskólaþingi og í háskólaráði í júní.

Háskóli Íslands eflir með starfi sínu nýsköpun á öllum sviðum og leggur sérstaka rækt við tengsl náms og atvinnulífs. Í dag lýkur nýsköpunarhraðli Háskóla Íslands fyrir konur undir merkjum Academy for Women Enterpreneurs (AWE) sem haldinn var í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Markmiðið hraðalsins er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Sérstök verðlaun verða veitt við hátíðlega athöfn í Hátíðasal núna eftir hádegið fyrir þrjár bestu viðskiptaáætlanir hraðalsins.

Háskóli Íslands leggur áherslu á mikil gæði prófgráða á öllum námsstigum enda veita þær aðgang að framhaldsnámi og störfum víða um heim. Ég vil hvetja þau ykkar sem eruð að ljúka grunnnámi til að kynna ykkur sérstaklega þær fjölbreyttu leiðir sem eru í boði á framhaldsnámsstigi. Nú er t.d. í fyrsta sinn einfalt að sjá á grunnnámssíðum skólans hvaða möguleikar eru til staðar varðandi val á framhaldsnámi eftir að prófgráðu lýkur í grunnnáminu. 

Í vikunni fengum við því miður fyrstu tíðindi af innanlandsmitum kórónuveirunnar í langan tíma og brýnir það okkur til að huga áfram afar vel að persónulegum sóttvörnum. Með samstöðunni komumst við í gegnum þetta.

Jörð skelfur enn á Reykjanesi og við fylgjumst flest með mikilvægri greiningu vísindamanna okkar á aðstæðum og breytingum í jarðskorpunni. Eðlilegt er að kvíði sæki að fólki vegna öflugra jarðskjálfta og óvissunnar sem þeim fylgir. Mikilvægt er að við styðjum hvert annað sem best við getum á óvissutímum.

Við fengum að kynnast því í vikunni að þótt krókusar hafi boðað vor með því að stinga upp kolli í görðum víða á höfuðborgarsvæðinu, þá er alltaf von á hreti á þessum árstíma. Það er enn nokkur spölur í hörpu samkvæmt fornu tímatali en vorið færist engu að síður nær. Þá styttist líka í prófatíð og við vitum öll að stöðug ástundun og góður undirbúningur skilar þar mestum árangri. 

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Förum að öllu með gát og njótum helgarinnar. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

nemendur á Háskólatorgi