Skip to main content
12. nóvember 2019

Ný fyrirlestraröð um loftslagshamfarir og hlutverk menntakerfisins

„Hugmyndin með fyrirlestraröðinni er að leiða saman ólíkar raddir fræðafólks, stjórnvalda og hugsjónafólks til að varpa ljósi á þann gríðarlega vanda sem blasir við heimsbyggðinni. Á Menntavísindasviði viljum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar og ræða hvernig menntakerfið verður að bregðast við ákalli móður jarðar um vernd og virðingu,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, um fyrirlestraröðina Loftslagshamfarir — hlutverk menntakerfisins sem senn verður hleypt af stokkunum. Þar verður rætt á mannamáli um loftslagsmálin í stóru og smáu samhengi og hvernig starfsfólk í skóla- og frístundastarfi getur lagt sitt af mörkum til að bregðast við þróuninni.

Loftslagsaðgerðir aðkallandi

Hamfarahlýnun af mannavöldum er ein af stærstu áskorunum samtímans og ljóst þykir að óhófleg losun gróðurhúsalofttegunda ógnar öryggi, efnahagslegum framförum og mannréttindum allra jarðarbúa. Í fyrirlestraröðinni verður teflt fram hugsjónafólki af ólíkum sviðum samfélagsins og fræðimönnum frá Menntavísindasviði til að kryfja þann vanda sem steðjar að, með sérstaka áherslu á menntun þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi. 

Aðgerðir í loftslagsmálum eru enn fremur eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem öll aðildarríkin hafa innleitt. Þar kemur skýrt fram að auka verði menntun til að vekja fólk til meðvitundar um hvernig mannauður og stofnanir geta haft áhrif og brugðist við loftslagsbreytingum, m.a. með því að stuðla að hugarfarsbreytingu og aukinni samfélagslegri ábyrgð.

„Hugmyndin með fyrirlestraröðinni er að leiða saman ólíkar raddir fræðafólks, stjórnvalda og hugsjónafólks til að varpa ljósi á þann gríðarlega vanda sem blasir við heimsbyggðinni. Á Menntavísindasviði viljum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar og ræða hvernig menntakerfið verður að bregðast við ákalli móður jarðar um vernd og virðingu,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Menntun í takt við tímann

Á Íslandi hafa börn og unglingar gengið til liðs við milljónir annarra um allan heim og tekið þátt í skólaverkföllum vegna loftslagsvárinnar. „Samstaða unga fólksins sendir skýr skilaboð um að loftslagsvandann leysa hvorki einstaklingar né einstaka þjóðir heldur verðum við öll að axla ábyrgð. Menntakerfið er í lykilstöðu til að snúa þessari þróun við en hlutverk þess er að rækta þekkingu, leikni og hæfni einstaklinga og styðja þannig við aukin lífsgæði. Sú alvarlega staða sem upp er komin gerir kröfur um að róttækar breytingar verði á lifnaðarháttum okkar og þær er best að innleiða með menntun og fræðslu. Það er því til mikils að vinna að ungar kynslóðir fái tíma, tól og tækifæri á skólagöngunni til að virkja huga, hönd og hjarta í baráttunni fyrir sjálfbærri framtíð,“ útskýrir Kolbrún en fyrsti viðburðurinn verður haldinn mánudaginn 18. nóvember næstkomandi. Þá munu Andri Snær Magnason rithöfundur og Gunnhildur Óskarsdóttir, dósent við Deild kennslu- og menntunarfræði, ávarpa gesti.

Sköpum vistvæna framtíð 

Loftslagshamfarir — hlutverk menntakerfisins hefur það markmið að veita nemendum og kennurum Háskólans og starfsfólki víðs vegar í menntakerfinu innblástur, skapa umræður og vera uppspretta lærdóms. 

Fyrirlestrarnir munu fjalla um umhverfismál og menntun í víðum skilningi, matarsóun og ábyrga neysluhætti, stjórnkerfið, náttúruvernd og vistvæna framtíð, samtal kynslóðanna og samfélagslega þátttöku, áhrif loftslagsbreytinga á samfélög og afleiðingar þeirra. 

Dagskráin er sem hér segir:

Fyrirlestrarnir eru haldnir að jafnaði á mánudögum frá kl. 15.00-15.50 í Bratta í húsnæði Háskóla Íslands í Stakkahlíð.

18. nóvember 2019
Kynslóðin sem erfir loftslagsvandann — skólakerfi í viðmiðaskiptum
Andri Snær Magnason, rithöfundur og umhverfisverndarsinni, og Gunnhildur Óskarsdóttir, baráttukona og dósent við Deild kennslu- og menntunarfræði.

13. janúar 2020
Hvernig breytum við lífsháttum okkar? Ábyrg neysla og menntakerfið
Rakel Garðarsdóttir, forsvarskona samtakanna Vakandi, og Auður Pálsdóttir, lektor við Deild faggreinakennslu.

10. febrúar 2020
Loftslagið og samtal kynslóðanna 
Feðginin Eir Ólafsdóttir, framhaldsskólanemi við Menntaskólann í Hamrahlíð og hljómsveitarmeðlimur í Ateriu, og Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Deild menntunar og margbreytileika.

16. mars 2020
Stjórnum við þróuninni? Sköpum vistvæna framtíð
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og  
Helena Óladóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið

 30. mars 2020
Hvað getum við gert? Breytum til hins betra!
Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðingur og umsjónarmaður þáttanna Hvað höfum við gert? á RÚV, og Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda.

Viðburðaröðin í heild sinni á Facebook

Kynslóðin sem erfir loftslagsvandann — skólakerfi í viðmiðaskiptum Andri Snær Magnason, rithöfundur og umhverfisverndarsinni, og Gunnhildur Óskarsdóttir, baráttukona og dósent við Deild faggreinakennslu. Andri Snær og Gunnhildur munu ávarpa gesti á fyrsta viðburðinum þann 18. nóvember. MYND/ Kristinn Ingvarsson