Norrænu ríkin hafi forystu um evrópska miðstöð um gervigreind | Háskóli Íslands Skip to main content

Norrænu ríkin hafi forystu um evrópska miðstöð um gervigreind

29. maí 2018
""

Hópur vísindamanna við norræna háskóla hvetur ríkisstjórnir á Norðurlöndum til að taka forystu um að koma á fót evrópskri miðstöð á sviði gervigreindar, vitvéla og vélræns náms og vinna þannig gegn því að Evrópuþjóðir dragist aftur úr Bandaríkjunum og Kína. Þetta kemur fram í áskorun sem var send í dag til stjórnvalda í norrænu ríkjunum fimm.  

Hópur evrópska vísindamanna hefur sett fram hugmyndir um að Evrópuþjóðir setji á fót rannsóknarmiðstöð á sviði vélræns náms (e. machine learning) og vitvéla (e. intelligent systems). Hefur miðstöðin fengið vinnuheitið European Lab for Learning & Intelligent Systems (ELLIS) sem yrði vettvangur fyrir samstarf fremstu vísindamanna Evrópu á þessum sviðum. Aðstandendur hugmyndarinnar benda á að í þeirri hröðu tækni- og samfélagsbyltingu sem nú á sér stað gegni vélrænt nám gríðarmikilvægu hlutverki. Evrópulönd dragist nú aftur úr t.d. Bandaríkjunum þar sem fremstu rannsóknar- og kennslustofnanir á þessu sviði eru, auk þess sem fjárfesting í Kína og Norður-Ameríku í þessum geira sé umtalsvert meiri en í Evrópu. Með því að koma ELLIS á fót geti Evrópuþjóðir haft mikil áhrif á hvernig þróun í vélrænu námi og gervigreind muni breyta heiminum. Með framúrskarandi, óháðum rannsóknum innan rannsóknarmiðstöðvarinnar megi enn fremur stuðla að öflugra efnahagslífi og fleiri nýjum störfum á þessu sviði í Evrópu.

Í bréfinu sem barst norrænum ríkisstjórnum í dag og undirritað er af vísindamönnum við háskóla í öllum fimm norrænu ríkjunum, þar á meðal við Háskóla Íslands, er fullum stuðningi lýst við hugmyndina um ELLIS-rannsóknarmiðstöðina og norræn stjórnvöld hvött til að beita sér fyrir stofnun hennar. Miklir möguleikar séu á sviði vélræns náms og vitvéla á Norðurlöndum enda norrænu þjóðirnar meðal þeirra sem fremst standa í heiminum á sviði stafrænnar tækni. 

Nám á þessum sviðum sé afar vinsælt víða í Skandínavíu og þá státi rannsókna- og kennslustofnanir á Norðurlöndum á þessum sviðum af mikilli reynslu og vinni m.a. að nýjum lausnum á sviði heilsu og líftækni, umhverfismála og úrvinnslu fjarkönnnunargagna til umhverfisvöktunar. Norrænu rannsóknastofnanirnar eigi hins vegar líkt og fleiri evrópskar stofnanir í afar harðri samkeppni við stofnanir í Bandaríkjunum og Kína og því sé besti kosturinn að sameina krafta vísindamanna á sviði gervigreindar og tengdra greina í Evrópu. Mikilvægt sé að norrænn hugsunarháttur sé hafður að leiðarljósi við þróun gervigreindar til þess að tryggja að öryggi, sjálfbærni og lýðræði verði leiðarstef við þróun þessarar nýju tækni.

Bréf hópsins má sjá lesa hér 

Bréfið kemur í kjölfar ákalls framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem hvatt er til að evrópskar ríkisstjórnir og fyrirtæki fjárfesti meira í nýsköpun og rannsóknum á gervigreind.

 

""