Skip to main content
7. október 2020

Nándarmörk breytast í 2m í Háskóla Íslands

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (7. október):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Stjórnvöld hafa enn hert sóttvarnaraðgerðir á höfuðborgarsvæðinu til að sporna við örri útbreiðslu COVID-19. Nú er brýnt að snúa bökum saman og fylgja án undantekninga þeim reglum sem hafa þegar tekið gildi. 

  • Nándarmörk í Háskóla Íslands breytast úr einum metra í tvo. 
  • Óbreytt er að í hverju kennslurými mega að hámarki 30 manns koma saman en eindregið er hvatt til grímunotkunar. Þetta gerir okkur áfram kleift að halda úti verklegri kennslu í húsnæði Háskólans. 
  • Hvatt er til rafrænnar kennslu og að fólk komi ekki í skólann nema eiga þangað brýnt erindi. Einnig er áhersla lögð á að allir fundir verði rafrænir. 
  • Þeir sem eiga kost á að vinna að heiman geri það í samráði við næstu stjórnendur. 
  • Fólk er að auki hvatt til að halda sig sem mest heima á meðan við náum tökum á útbreiðslu veirunnar. 

Jafnvel þótt við höfum upplifað áþekkt ástand síðasta vetur og í vor er þetta ekki eitthvað sem kemst upp í vana. Við þessar aðstæður er áríðandi að huga vel að andlegri líðan. Hikum ekki við að leita eftir stuðningi og styðjum þá sem standa okkur næstir. 

Ég hvet starfsfólk og nemendur til að huga einnig vel að líkamlegri heilsu og bendi á að fjarleikfimi er í boði fyrir starfsfólk á meðan íþróttahúsið er lokað. 

Okkur tókst með samstilltu átaki að bægja óværunni frá fyrr á þessu ári og sameinuð munum við einnig komast í gegnum þennan brimskafl. 

Verum varkár, hugum öll að einstaklingsbundnum sóttvörnum, virðum nándarmörk, þvoum hendur mjög vandlega og sprittum. Notum hlífðargrímurnar rétt

Gangi ykkur allt að óskum, kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Jón Atli Benediktsson, rektor.“
 

""