Skip to main content
18. júní 2021

Mikið líf í Háskóla Íslands – metfjöldi brautskráður á morgun 

Mikið líf í Háskóla Íslands – metfjöldi brautskráður á morgun  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (18. júní):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Mér er efst í huga þakklæti til ykkar allra við lok háskólaársins, en afar sérstæðu misseri lýkur á morgun með brautskráningu og háskólahátíð í Laugardalshöll. Þá verða hvorki meira né minna en 2.548 kandídatar brautskráðir sem er met í 110 ára sögu Háskóla Íslands

Sú vaska sveit sem mun taka við prófskírteinum sínum á morgun á eftir að hafa afgerandi áhrif á atvinnulíf og samfélag hér á landi og víðar á næstu árum og áratugum. Athygli vekur að nú verða í fyrsta sinn brautskráðir meistaranemar í iðnaðarlíftækni sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og lyfjafyrirtækisins Alvotech. Fyrirtækið hefur byggt upp höfuðstöðvar sínar á svæði Vísindagarða Háskólans í Vatnsmýrinni og er nú að auka verulega við þær. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá samstarf atvinnulífs og háskóla leiða af sér prófgráður í nýrri námsgrein og er þessi brautskráning vitnisburður um ávöxt þess samstarfs. Við Vísindagarðanna starfa nú þegar yfir 1.100 manns og við stefnum markvisst að því að þeir verði áfram vettvangur nýsköpunar og tækifæra og segull á vel menntað fólk. 

Því miður geta kandídatar ekki tekið með sér gesti við brautskráninguna á morgun vegna sóttvarna en við leggjum kapp á að bjóða upp á hágæða streymi frá athöfninni. 

Í vikunni hefur margt borið á góma í starfi Háskóla Íslands. Háskóli unga fólksins var haldinn af miklum krafti hér á háskólasvæðinu og við héldum vel heppnaðan ársfund Háskólans á mánudag. 

Í gær, á þjóðhátíðadaginn 17. júní, fögnuðum við svo 110 ára afmæli Háskólans með hátíðasamkomu að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og fjölda gesta. Á samkomunni var undirituð viljayfirlýsing af mér, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem einnig er starfandi mennta- og menningarmálaráðherra. Viljayfirlýsingin kveður á um að opnuð verði á næsta ári sýning í Loftskeytastöðinni við hlið Veraldar – húss Vigdísar, sem helguð verður forsetatíð og störfum Vigdísar Finnbogadóttur. Vigdís hefur alla tíð verið einstök velgjörðarkona Háskóla Íslands og er m.a. tvöfaldur heiðursdoktor við skólann sem er einsdæmi. Við athöfnina í gær afhenti Vigdís Háskóla Íslands ýmsa stórmerkilega muni frá forsetatíð sinni sem verða hluti af sýningunni.

Háskólar horfa jafnan fram á við í þágu þekkingar og nýsköpunar en þegar við minnumst sögunnar lítum við um öxl. Það sem fyrst og síðast einkenndi þá frumkvöðla sem unnu að stofnun Háskólans fyrir 110 árum var framsýni og djörfung.  Háskóli Íslands hefur mótað þessa þjóð allan þann tíma sem hann hefur starfað og er leitun að öðrum háskóla sem hefur haft víðlðíka áhrif á samfélagið sem hann starfar í. Tengsl Háskólans og samfélagsins eru einmitt leiðarstefið í nýrri heildarstefnu okkar sem kynnt var formlega á ársfundinum síðastliðinn mánudag undir kjörorðinu „Betri háskóli – betra samfélag“. 

Nú er sumarið framundan og senn verður það í sínum algræna skrúði. En við horfum jafnframt til haustsins með bjartsýni og væntingum um að nám og starf verði þá aftur með langþráðu og hefðbundnu sniði. Enn er þó verið að meta áhrif vatnstjónsins sem varð í upphafi árs á húsakynni okkar og því miður er ekki útlit fyrir að við getum nýtt rými á jarðhæð í Gimli og á 1. hæð í Háskólatorgi þegar kennsla hefst á ný í haust. Verið er að leita lausna varðandi kennslurými og verða þau kynnt áður en langt um líður. 

Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Sjaldan sjáum við betur en þegar við brautskráum ungt fólk til þátttöku í samfélagi og atvinnulífi að bókvitið er svo sannarlega í askana látið. Þekkingin er nefnilega gjaldmiðill framtíðarinnar. 
Njótið helgarinnar sem best þið megið og sumarsins framundan. 

Jón Atli Benediktsson, rektor.“

Frá brautskráningu í Laugardalshöll