Skip to main content
9. nóvember 2023

Miðeind og Háskóli Íslands hljóta stóran Evrópustyrk til gervigreindarverkefnis

Miðeind og Háskóli Íslands hljóta stóran Evrópustyrk til gervigreindarverkefnis - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands og Miðeind ehf. hafa hlotið styrk úr Horizon-rannsóknaáætlun Evrópusambandsins til verkefnis er lýtur að gerð stórs gervigreindar-mállíkans fyrir germönsk tungumál, þar á meðal íslensku.

Verkefnið nefnist TrustLLM og er unnið í samstarfi 11 aðila víðs vegar í Norður-Evrópu. Að því koma meðal annars Linköping-háskóli og AI Sweden í Svíþjóð, þýska Fraunhofer-rannsóknastofnunin, Alexandra Instituttet í Danmörku, Tækni- og náttúruvísindaháskóli Noregs (NTNU), Jülich-ofurtölvumiðstöðin og TNO rannsóknastofnunin í Hollandi.

Heildarstyrkur til verkefnisins nemur sjö milljónum evra (rétt rúmum milljarði króna), en hlutur Miðeindar og HÍ er um það bil fimmtungur af þeirri upphæð. Verkefnið hófst formlega 1. nóvember sl. og mun taka þrjú ár.

Markmið TrustLLM er að smíða mállíkan (sbr. t.d. GPT-líkönin frá OpenAI) sem styður germönsk tungumál og þá ekki síst minni tungumálin í því mengi. Rannsakaðar verða aðferðir til að ná hámarksfærni í hverju tungumáli þrátt fyrir takmarkað magn þjálfunargagna. Þá verður sérstök áhersla lögð á traust og trúverðugleika úttaks úr mállíkaninu, og lágmörkun hvers kyns bjaga og óæskilegra svara úr því. Reiknifræðilegar aðferðir verða þróaðar til að lágmarka orkunotkun við þjálfun og notkun mállíkana.

Auk sérþekkingar sinnar á sviði máltækni leggur Háskóli Íslands til mikla reynslu á sviði ofurtölva sem eru lykilþáttur í þjálfun stórra mállíkana, í gegnum National Competence Center for HPC & AI in Iceland.

„Það er ómetanleg lyftistöng fyrir íslenska máltækni og gervigreind á íslensku að fá svona öflugan styrk úr Horizon-áætluninni. Styrkurinn er vitaskuld kærkominn sem slíkur, en svo ekki síður þau sambönd sem þarna verða til og samstarfið við margt af leiðandi tæknifólki og rannsakendum Evrópu á þessu hraðvaxandi sviði, sem við hlökkum til og væntum mikils af,“ segir Linda Heimisdóttir, framkvæmdastjóri Miðeindar.

„Við hjá Háskóla Íslands erum stolt af því að taka þátt í þessu mikilvæga samstarfsverkefni á sviði gervigreindar. Þróun mállíkana fyrir minni mál eins og íslensku er mikilvægur þáttur í að tryggja að tungumálið lifi áfram og þróist í takt við tæknina í stafrænum heimi. Með þátttöku okkar í TrustLLM-verkefninu stöndum við vörð um íslenskuna og hjálpum til við að þróa tækni sem mun nýtast komandi kynslóðum. Verkefnið mun einnig styrkja tengsl Háskólans við fyrirtæki og rannsakendur í fremstu röð í Evrópu, sem mun efla íslenskuna enn frekar á alþjóðavettvangi,“ segir Hafsteinn Einarsson, lektor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, sem kemur að verkefninu fyrir hönd Háskóla Íslands ásamt Morris Riedel, prófessor í sömu grein.
 

Morris Riedel, prófessor í tölvunarfræði, og Hafsteinn Einarsson, lektor í sömu grein, koma að verkefninu fyrir hönd Háskóla Íslands.