Skip to main content
6. nóvember 2020

Metnaður og fagmennska eru vopn okkar við breyttar aðstæður

Á göngum Aðalbyggingar

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (6. nóvember):

Enn á ný vil ég þakka ykkur, kæru nemendur og samstarfsfólk, fyrir viðbrögð ykkar við þeim tímabundnu hömlum sem hafa verið á starfi okkar. Þótt merkja megi minnkandi útbreiðslu veirunnar hérlendis síðustu daga þá þekkjum við af reynslunni að ekkert má gefa eftir í baráttunni. Stöndum áfram saman meðvituð um að seiglan skilar árangri og einstaklingsbundnar sóttvarnir eru langbesta vörnin. Virðum fjarlægðarmörk, fjöldatakmarkanir, þvoum hendur, sprittum og notum hlífðargrímurnar.

Núna í vikunni fundaði Aurora-háskólanetið, eða Norðurljósanetið, um aukið samstarf háskólanna sem að því standa. Í netinu eru níu evrópskir háskólar sem eiga það sameiginlegt að vera framúrskarandi í rannsóknum samhliða því að leggja ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð, nýsköpun í kennslu og félagslegan fjölbreytileika. Einn angi af Norðurljósanetinu snýr að því að móta framtíðartilhögun evrópskra háskóla með veglegum stuðningi frá Evrópusambandinu. Markmiðið er að efla samfélagslega nýsköpun og auka sveigjanleika háskólanna í samstarfi, m.a. á sviði sameiginlegra námsleiða og prófgráða. Þannig verður m.a. stuðlað að hreyfanleika nemenda og starfsfólks.

Þótt við sjáum ekki fram á mikil ferðalög í þágu rannsókna og menntunar í augnablikinu er ljóst að samstarf þessara háskóla mun ótvírætt skila miklu til okkar allra áður en langt um líður. Háskóli Íslands mun leiða Norðurljósanetið næstu tvö árin. Það er einstaklega spennandi tækifæri fyrir Háskóla Íslands að móta háskólastarf framtíðarinnar í Evrópu í mjög nánu samstarfi við virta og öfluga háskóla víðsvegar í álfunni.

Kæru nemendur. Flest ykkar eru vafalítið farin að huga að prófum. Í næstu viku verður tilkynnt hvernig tilhögun þeirra verður í desember. Eins og áður hefur komið fram munum við að sjálfsögðu haga prófum í samræmi við aðstæður. Ég vil hvetja ykkur til að sinna áfram náminu af eins miklum þrótti og festu og nokkur er kostur. Það mun sannarlega skila sér, ekki einungis í prófunum sjálfum, heldur í öllum þeim verkum sem þið vinnið í framtíðinni. Við starfsfólk skólans munum að sjálfsögðu gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja ykkur hér eftir sem hingað til.

Ég vil líka hvetja ykkur öll, nemendur og samstarfsfólk, til að vinna áfram af þeim metnaði sem einkennt hefur starfið innan Háskóla Íslands á þeim tíma sem farsóttin hefur geisað.

Höfum í huga að metnaður og fagmennska eru ekki einungis vopn til að halda uppi gæðum námsins við krefjandi aðstæður, þetta tvennt er líka forsenda þess mikilvæga trausts sem Háskólinn nýtur innan samfélagsins og langt út fyrir landsteinana.

Nú er helgi fram undan og þegar nær dregur prófum nota margir helgarnar til að læra. Gleymum samt ekki að njóta stunda þar sem við tæmum hugann og endurnýjum kraftana.

Förum varlega. Hugum hvert að öðru og að okkur sjálfum.

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Jón Atli Benediktsson á skrifstofu sinni