Skip to main content
16. júní 2020

Metfjöldi umsókna við Háskóla Íslands

-    Umsóknum í bæði grunn- og framhaldsnám fjölgar mikið milli ára
-    Um 50% fjölgun umsókna í framhaldsnám og 20% í grunnnám
-    Mikil fjölgun umsókna í hjúkrunarfræði, kennaranám og lögfræði
-    Aldrei hafa fleiri þreytt inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun

Vel á tólfta þúsund umsóknir bárust Háskóla Íslands í grunn- og framhaldsnám fyrir komandi skólaár og hafa þær aldrei í sögu skólans verið fleiri. Til samanburðar má geta þess að fjöldi núverandi nemenda Háskólans er um 13.300. 

Umsóknarfrestur um bæði grunn- og framhaldsnám var framlengdur í vor í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið og aðra háskóla á Íslandi. Með því vildu háskólarnir bregðast við vaxandi atvinnuleysi í landinu af völdum COVID-19-faraldursins og milda efnahagsþrengingar á Íslandi samhliða því að mennta fólk til nýrra áskorana. 

6.720 umsóknir um grunnnám bárust Háskólanum að þessu sinni og nemur hlutfallsleg fjölgun þeirra á milli ára nærri 21 prósenti. Um metfjölda umsókna er að ræða. Þess ber að geta að umsóknum um grunnnám fjölgaði um nær 13 prósent milli áranna 2018 og 2019, en þá tók skólinn á móti óvenju stórum hópi vegna áhrifa af styttingu námstíma til stúdentsprófs. Metfjöldi umsókna barst einnig í framhaldsnám eða 4.927. Fjölgun þeirra milli ára nemur 50 prósentum. Heildarfjöldi umsókna fyrir komandi háskólaár er því 11.647.

Umsóknir um grunnnám

Félagsvísindasviði bárust rúmlega 1350 umsóknir um grunnnám. Viðskiptafræði hefur um árabil verið vinsælasta námsgreinin innan fræðasviðsins og engin breyting er á því. Alls bárust 470 umsóknir um námið sem er um 15 prósentum fleiri en á síðasta ári. Næstflestar umsóknir bárust um nám í lögfræði eða um 260 sem er rétt um tvöföldun á milli ára, en þess má geta að Lagadeild hættir frá og með þessu ári að nýta A-prófið svokallaða til þess að velja inn nemendur. Þá stefna rúmlega 200 á nám í félagsráðgjöf, eða um 40 prósentum fleiri en í fyrra, og rúmlega 100 hyggja á nám í félagsfræði eða rúmlega 60 prósentum fleiri en á sama tíma í fyrra.

Heilbrigðisvísindasvið fékk nærri 2.100 umsóknir, en inni í þeirri tölu eru rúmlega 440 nemendur sem skráðu sig í inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun við Læknadeild sem fram fór fyrir helgi, og er það met. Í læknisfræði verða teknir inn 60 nemendur og 35 í sjúkraþjálfun. Þeir sem ekki fá inngöngu í námgsreinarnar tvær geta skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands fram til 20. júlí nk. Flestar umsóknir í einstaka námsleið innan sviðsins, og reyndar innan háskólans alls, bárust Sálfræðideild, eða rúmlega 530. Nemur fjölgun umsókna í þeirri grein rétt um þriðjungi milli ára. Hástökkvarinn innan sviðsins er hins vegar Hjúkrunarfræðideild þar sem rúmlega 480 sóttu um nám eða 77% fleiri en í fyrra. Rétt um 350 vilja hefja BS-nám í hjúkrunarfræði, en deildin nýtir samkeppnispróf til inntöku 130 nemenda að loknu fyrsta misseri í desember nk. Nærri 60 sækjast eftir að hefja nám á nýrri námsleið í hjúkrunarfræði fyrir fólk sem hefur lokið háskólanámi af öðru fræðasviði og enn fremur eru rétt um 80 skráð í undanfara fyrir slíkt nám. Þá vilja rúmlega 115 manns hefja nám í lífeindafræði og 105 tannlæknisfræði og hátt í hundrað manns stefna á nám í næringarfræði eða matvælafræði. 

Hugvísindasviði bárust um 1260 umsóknir um grunnnám að þessu sinni. Þar er líkt og áður íslenska sem annað mál vinsælasta greinin, en alls eru umsóknirnar um 380 í annaðhvort BA-nám eða styttra hagnýtt nám í greininni. Rúmlega 170 vilja hefja nám í ensku eða um 50% fleiri en í fyrra. Alls eru umsóknir um tungumálanám við skólann nærri 490 eða um fimmtungi fleiri en í fyrra. Rúmlega 60 hyggja á BA-nám í sagnfræði og um 50 í íslensku og heimspeki.

Menntavísindasvið fékk 980  umsóknir í grunnnám eða hátt í 200 fleiri en í fyrra. Umsóknir um grunnnám í leikskólakennarafræði og diplómanám í leikskólafræði nærri tvöfaldast á milli ára, fara úr tæplega 100 í rúmlega 190. Umsóknum í grunnskólakennaranám og  kennslufræði fjölgar einnig töluvert. Þær eru um 340 í ár eða um fimmtungi fleiri en í fyrra en sú fjölgun kemur í kjölfar 45 prósenta fjölgunar milli áranna 2018 og 2019. Íþrótta- og heilsufræði nýtur einnig mikilla vinsælda og þar hafa um 150 sóst eftir því að hefja nám eða um fimmtungi fleiri en í fyrra. Þá hyggja um 100 á nám í uppeldis- og menntunarfræði og svipaður fjöldi á nám í þroskaþjálfafræði.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið fékk rétt um 1030 umsóknir í grunnnám að þessu sinni. Tæplega 250 umsóknir bárust um nám í tölvunarfræði og fjölgar um nærri fjórðung milli ára. Þá bárust um tvöfalt fleiri umsóknir en í fyrra um BS-nám í tæknifræði sem fer fram á vettvangi Tæknifræðiseturs Háskóla Íslands í Hafnarfirði. Alls eru umsóknir um nám í  verkfræði- og tæknifræðigreinar innan sviðsins tæplega 600. Áhugi á lífefna- og sameindalíffræði heldur áfram að aukast, en umsóknir um nám í þeirri grein eru nærri 80 og fjölgar um fjórðung milli ára. Þá hafa rúmlega 70 manns sett stefnuna á líffræði í Háskóla Íslands í haust.

„Jafnframt er ljóst að þessi mikla fjölgun sem við horfum fram í Háskólanum mun reyna töluvert á starfslið og innviði Háskólans og við munum leggja áherslu á að styðja bæði nemendur og kennara með öllum ráðum sem við höfum. Við væntum þess að þar munum við njóta stuðnings og skilnings stjórnvalda við þessar krefjandi aðstæður,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Umsóknir um framhaldsnám

Sem fyrr segir eru umsóknir um framhaldsnám hátt í 5.000 talsins. Umsóknum í meistaranám á Menntavísindasviði fjölgar verulega á milli ára eins og áður hefur komið fram, þar á meðal um 118% í meistaranám í leikskólafræðum. Í grunnskólakennaranámi er fjölgunin um 85% og í framhaldsskólakennaranámi um 47%. Umsækjendum um íþróttakennaranám á meistarastigi fjölgar enn, nú um 67% og umsóknum um framhaldsnám í tómstunda- og félagsmálafræði um ríflega 30%. Alls eru umsóknir um meistaranám og nám á framhaldsstigi á Menntavísindasviði rúmlega 1.300 talsins.

Umsóknum um framhaldsnám fjölgar á öllum fimm fræðasviðum skólans. Flestar eru umsóknirnar á Félagsvísindasviði eða rúmlega 1.600 en þar fjölgar umsóknum um framhaldsnám við Viðskiptafræðideild um 50% milli ára og nema alls um 540. Hátt í 490 umsóknir bárust Stjórnmálafræðideild. Á Heilbrigðisvísindasviði fjölgar umsóknum um rúmlega þriðjung við Sálfræðideild og í fjölbreyttu framhaldsnámi Hugvísindasviðs fjölgar umsóknum rétt um 50%. Þar má nefna að nærri 70 umsóknir bárust erlendis frá um norrænt meistaranám í víkinga- og miðaldafræðum og nemur fjölgunin 40% milli ára. Fjölgun umsókna á framhaldsstigi við Verkfræði- og náttúruvísindasvið nemur rúmum þriðjungi og eru þær hátt í 300 talsins. 

Enn fremur fjölgar umsóknum í þverfræðilegar námsleiðir á framhaldsstigi úr nærri 350 í 630, eða um 80 prósent. Af þeim bárust nærri 80 umsóknir um nám í hagnýtri atferlisgreiningu sem Sálfræðideild og Deild heilsueflingar, íþrótta- og tómstunda bjóða upp á í sameiningu í fyrsta sinn í haust. Einnig bárust um 130 umsóknir um meistara- eða diplómanám í umhverfis- og auðlindafræði, en þær voru 80 í fyrra. 

Þessu til viðbótar hafa liðlega 150 manns sótt um doktorsnám við háskólann árið 2020.

Mun reyna á starfslið og innviði skólans

Umsóknir um nám við Háskóla Íslands í ár eru langt umfram þann fjölda sem lýkur stúdentsprófi eða fyrstu prófgráðu í háskóla nú í vor. Þótt að fjölguninni fylgi töluverðar áskoranir mun Háskólinn sem fyrr, eðli máls samkvæmt, leggja mikla áherslu á gæði kennslu og afbragðsþjónustu við nemendur.

„Þetta er langmesti fjöldi umsókna sem Háskólanum hefur nokkur tíma borist og hann vitnar væntanlega um víðtæk samfélagsáhrif kórónaveirufaraldursins. Við sáum í vor í hvað stefndi og brugðumst strax við, m.a. með aðgengilegum fjarkynningum á bæði grunn- og framhaldsnámi sem voru afar vel sóttar á netinu. Enn fremur höfum við búið okkur undir komu fjölbreytts hóps í haust með sumarnámi þar sem m.a. er boðið upp á undirbúningsnámskeið fyrir verðandi háskólanema, en þess má geta að nú hafa um 2.500 einstaklingar skráð sig í sumarnám við skólann. Jafnframt er ljóst að þessi mikla fjölgun sem við horfum fram í Háskólanum mun reyna töluvert á starfslið og innviði Háskólans og við munum leggja áherslu á að styðja bæði nemendur og kennara með öllum ráðum sem við höfum. Við væntum þess að þar munum við njóta stuðnings og skilnings stjórnvalda við þessar krefjandi aðstæður,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.