Skip to main content
30. mars 2023

Marktækt samband milli netsamskipta og þunglyndis- og kvíðaeinkenna hjá stúlkum

Marktækt samband milli netsamskipta og þunglyndis- og kvíðaeinkenna hjá stúlkum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Marktækt samband reyndist milli netsamskipta og bæði þunglyndis- og kvíðaeinkenna hjá 15 ára stúlkum samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands en þar er rýnt í breytingar á geðheilsu ungs fólks í upphafi 21. aldar. Sagt er frá niðurstöðunum í grein í tímaritinu Scandinavian Journal of Public Health.

Óttar Guðbjörn Birgisson, aðjunkt og doktorsnemi í Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði, er fyrsti höfundur greinarinnar sem ber heitið The relationship between online communication and adolescents' mental health: Long-term evaluation between genders eða Andleg líðan og netsamskipti ungmenna: Langtímaáhrif og forspágildi.

Óttar útskrifaðist með MS-próf í klínískri sálfræði árið 2016 og starfaði sem sálfræðingur lengst af á Heilsugæslunni á Seltjarnarnesi þar til hann hóf doktorsnám við Menntavísindasvið haustið 2021.

„Doktorsannsóknin miðar að því að skoða hvernig geðheilsa ungmenna hefur breyst í upphafi 21. aldarinnar ásamt því að rýna í hvernig netsamskipti á borð við samfélagsmiðla hafa áhrif á geðheilsu þeirra. Einnig verður skoðað hvaða þættir geta spilað inn í þetta samband geðheilsu og netnotkunar og við erum þá helst að horfa til þátta eins og líkamlegrar hreyfingar, þreks, líkamsímyndar, sjálfsálits og fleira. Loks ætlum við að skoða hvort tími sem varið er á samfélagsmiðlum við 15 ára aldur getur spáð fyrir um geðheilsu 17 ára,“ útskýrir Óttar og vísar þar til sín og samstarsfólks, en leiðbeinendur hans í doktorsnámi eru Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði, og Sunna Gestsdóttir, dósent í sömu grein.

Óttar segir jafnframt netsamskipti vera orðin órjúfanlegan hluta af lífi fólks og að vísbendingar séu um neikvæð áhrif slíkra samskipta á geðheilsu barna og ungmenna. „Í þessari grein var skoðað hvernig netsamskipti og einkenni þunglyndis og kvíða hafa breyst hjá 15 ára ungmennum frá árinu 2003 til 2015. Einnig var metið hvort sambandið sjálft milli netsamskipta og einkenna hefði breyst milli áranna. Niðurstöður sýndu að drengir og stúlkur vörðu jafnmiklum tíma í netsamskipti árið 2003 en árið 2015 eyddu stúlkurnar marktækt meiri tíma í þau en drengir. Árið 2003 reyndust stúlkur með marktækt meiri kvíða en drengir en kvíðinn jókst ekki milli áranna tveggja. Stúlkur voru með marktækt meiri þunglyndiseinkenni en drengir árið 2003 og jukust einkennin milli ára hjá stúlkum en ekki drengjum. Árið 2003 var ekkert marktækt samband milli netsamskipta og geðheilsu en árið 2015 var komið á marktækt samband milli netsamskipta og bæði þunglyndis- og kvíðaeinkenna hjá stúlkum.“

Hvert er nýnæmi niðurstaðanna? 

„Almennt hefur skjánotkun og netsamskipti ungs fólks aukist mikið á undanförnum áratugum. Í ljósi þess þá er þessi rannsókn mjög þörf og segir mikið til um lifnaðarhætti ungs fólks í nútímasamfélagi. Nýnæmi greinarinnar er því umtalsvert en kallað hefur verið eftir fleiri rannsóknum sem skoða áhrif netsamskipta á geðheilsu ungs fólks og ólk áhri þeirra á kynin,“ segir Óttar og bætir við að einnig sé skortur á góðum rannsóknum þar sem borið hefur verið saman umfang netsamskipta og áhrif þess á geðheilsu. Í ofangreindri rannsókn eru þessi atriði skoðuð annars vegar þegar samfélagsmiðlar og almenn netsamskipti voru að hefja innreið sína (2003) og 12 árum seinna (2015) þegar nánast allir landsmenn voru komnir með snjallsíma í vasana. 

„Niðurstöður þessara rannsókna sýna að mikil netsamskipti geta haft alvarlega áhrif á líðan og heilsu ungs fólks. Í þessu samhengi er einnig ljóst að sambandið milli netsamskipta og geðheilsu er flókið viðfangsefni og margir þættir sem þarf að rannsaka betur. Engu að síður ljóst að heilbrigðis- og menntamálayfirvöld þurfa að bregðast við og huga betur að heilbrigði ungs fólks,“ segir Óttar að lokum.  
 

Óttar Guðbjörn Birgisson