Skip to main content
8. desember 2021

Marína Ósk og Stína Ágústs á jólaháskólatónleikum

Marína Ósk og Stína Ágústs á jólaháskólatónleikum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskólatónleikateymið lokar árinu með alvöru jólatónleikum föstudaginn 10. desember kl. 12.15 á Litla Torgi Háskólatorgs. Upp troða söngkonurnar Marína Ósk og Stína Ágústs ásamt hljómsveit og hægt að staðfesta það hér og nú að aðventustemningin mun fylla öll vit. Tónleikarnir verða líka í streymi.

Efnisskráin er að hluta til byggð á dásamlegri plötu sem þær vinkonurnar gáfu út fyrir tveimur árum síðan, Hjörtun okkar jóla, plata sem er þannig gerð að maður eiginlega finnur fyrir dökkbrúnum, skandinavískum við þegar maður hlustar. Lykt af bökuðum eplum og greni mun flæða af sviðinu.

Útsetningar eru í höndum Mikaels Mána sem leikur á gítar en einnig verður Andri Ólafsson bassaleikari (Moses Hightower) með í för. Tónleikarnir fara fram föstudaginn 10. desember og hefjast leikar kl. 12.15. Staður er Litla torg, út frá Háskólatorgi.

Tónleikunum verður einnig streymt og þá verður hægt að horfa á þá síðar í upptökuformi. Hvort sem þú ert í borginni, úti á landi eða úti í heimi getur þú notið hinna fögru tóna Háskólatónleikaraðarinnar og upplifað stemninguna í skólanum. Öll velkomin á staðinn og aðgangur gjaldfrjáls. 

Gildandi sóttvarnarreglum er að sjálfsögðu fylgt og eru væntanlegir gestir beðnir um að gæta að þeim í hvívetna.

Reglurnar eru þessar helstar:

  • Nándarmörk eru 1 metri. 
  • Skylt er að nota grímu sé ekki hægt að virða 1 metra reglu. 
  • 50 manns mega að hámarki vera í sama rými.
  • Fólk er hvatt til þess að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum.

Slóð á streymið má finna hér

Nánar um háskólatónleika

söngkonurnar Marína Ósk og Stína Ágústs