Skip to main content
28. apríl 2023

Málstofa og leiðsögn um skólahúsið fagra við Stakkahlíð 

 Málstofa og leiðsögn um skólahúsið fagra við Stakkahlíð  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Menntavísindasvið Háskóla Íslands flytur árið 2024 í Sögu við Hagatorg þar sem áður var Hótel Saga. Í dag fer starfsemi Menntavísindasviðs fram í Skipholti, Laugardal og Stakkahlíð. Í tilefni af komandi flutningum sviðsins á Melana, efndi Menntavísindasvið til málstofu og leiðsagnar um Stakkahlíð sem fram fór fimmtudaginn 27. apríl í Stakkahlíð. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarpaði samkomuna og minntist þess að hafa komið fyrst í bygginguna í Stakkahlíð árið 1971 þegar hann var nemandi í æfingadeild Kennaraskóla Íslands en þar áður hafði hann setið á skólabekk neðar í götunni, í Ísaksskóla. Rektor sagði það hafa verið stórkostlegt að fá að nema í byggingunni fögru og sagðist jafnframt vera mjög spenntur fyrir framtíð Menntavísindasviðs í Sögu. 

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti sviðsins, hélt stutt erindi og minntist meðal annars á þá merkilegu list sem prýðir Stakkahlíð og hlúð hefur að þeim sem numið hafa í byggingunni. Hún ræddi jafnframt um komandi flutning í Sögu. „Það er mikill heiður að fá að vera þátttakandi í að skrifa nýja sögu og móta Menntavísindasvið á nýjum stað. Í Sögu ætlum við að byggja upp samfélag og aðstöðu sem hlúir að nemendum og starfsfólki. List- og verkgreinar verða í hjarta aðstöðunnar en list- og menntastarf er og á að vera samofið. Byggingar hlúa að starfseminni en það er líka andinn og sýnin á að mennta og þroska sem skiptir lykilmáli. Við sem störfum við það vitum að, mennta aðra er einnig listgrein. Við erum ekki tilbúin til að kveðja skólahúsið fagra við Stakkahlíð alveg strax en erum komin á kaf í mikla undirbúningsvinnu. Við flytjum með okkur allt það góða úr þessu húsi og ætlum að búa byggja upp nýjan góðan vinnustað í Sögu.“  

Pétur Ármannsson arkitekt ræddi næst um höfunda og listræn sérkenni skólahússins á Rauðarárholti ásamt stöðu þess og samhengi í skipulagi Reykjavíkur. Í máli Péturs kom fram að Stakkahlíð væri ein merkilegasta opinbera byggingin í byggingasögu Reykjavíkur. Málfríður Kristjánsdóttir, arkitekt og frænka Steinars Guðmundssonar (1907-1963), sem hannaði af miklum metnaði bygginguna við Stakkahlíð, fjallaði um ævi og störf hans, og þá alúð sem hann lagði í verkið, en byggingin átti hug hans allan í um tíu ár ævi hans. 

Að lokum fjallaði Ólafur Proppé, fyrrverandi rektor Kennaraháskóla Íslands, um listaverkin í skólahúsin. Hann kom m.a. inn á þá merkilegu ákvörðun ríkisstjórnar Íslands árið 1963, þegar Gylfi Þ. Gíslason, þáverandi menntamálaráðherra, tilkynnti við skólaslit Kennaraskóla Íslands að ríkisstjórn Íslands hafi ákveðið að fela Gunnlaugi Scheving og Valtý Péturssyni listmálurum að skreyta hús Kennaraskólans sem þá var í byggingu við Stakkahlíð. Listaverk Gunnlaugs og Valtýs prýða enn skólahúsið fagra í Stakkahlíð og vonandi um ókomna tíð. Að erindum loknum var farin skoðunarferð um bygginguna, sem Ólafur Proppé leiddi þar sem upphaflegt módel af byggingu Stakkahlíðar var til sýnis. Það smíðuðu myndlistarmennirnir Magnús Pálsson og Diether Roth. Fundarstjóri var Svanhildur Kaaber, fyrrverandi grunnskólakennari og formaður Kennarasambands Íslands. 

Myndir: Kristinn Ingvarsson.

Ólafur Proppé fyrrverandi rektor Kennaraháskólans
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs.
Gestir á viðburðinum Skólahúsið fagra í Stakkahlíð.
Ólafur Proppé fyrrverandi rektor Kennaraháskólans leiddi skoðunarferð um bygginguna.
Draumur álfakýrinnar eftir Gunnlaug Scheving prýðir vegg í Stakkahlíð.
Módel af Stakkahlíð 1 smíðað af Magnúsi Pálssyni og Dieter Roth.
Mynd eftir Gunnlaug Scheving.