Skip to main content
27. apríl 2021

Loftslagsmál og íbúar á norðurslóðum í brennidepli á stórri ráðstefnu UArctic

Loftslagsmál og íbúar á norðurslóðum í brennidepli á stórri ráðstefnu UArctic - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á þriðja hundrað fyrirlestra um málefni norðurslóða verður í boði á viðamikilli ráðstefnu Háskóla norðurslóða eða University of the Arctic sem fer fram dagana 15.-18. maí í Reykjavík. Ráðstefnan í ár, sem að þessu sinni er að mestu rafræn, er skipulögð af íslenskum háskólastofnunum sem eru aðilar að University of the Arctic. Setning ráðstefnunnar verður í beinu streymi á vefnum laugardaginn 15. maí kl. 13.

University of the Arctic er samstarfsnet háskóla og menntastofnana á háskólastigi sem vinna að menntun og rannsóknum á norðurskautssvæðinu. Alls eru nú um 200 háskólar og stofnanir víða um heim aðilar að UArctic og hefur Háskóli Íslands verið hluti af samstarfsnetinu frá árinu 2011. 

Tilgangur ráðstefnunnar er að leiða saman fræðimenn, sérfræðinga, fulltrúa frumbyggja og ekki síst nemendur til að ræða saman um málefni norðurslóða, efla samvinnu þegar kemur að rannsóknum og stuðla að sjálfbærum lausnum á þeim áskorunum sem svæðið stendur frammi fyrir.

Ráðstefnan er tengd formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og þar verður lögð sérstök áhersla á loftslagsmál og grænar orkulausnir, íbúa á norðurslóðum og vistkerfi sjávar á svæðinu. Einnig verður hægt að fræðast um mannréttindi, stjórnmál, jafnrétti, öryggismál og margt fleira sem tengist málefnum norðurslóða.

Ráðstefnan verður sett í Hátíðasal Háskóla Íslands laugardaginn 15. maí kl. 13 þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Outi Snellman, varaforseti UArctic, flytja ávörp. Þar mun Halla Hrund Logadóttir, forstöðumaður og meðstofnandi Norðurslóðaverkefnis Harvard-háskóla – Arctic Initiative við Belfer Center Kennedy School of Goverment og verðandi orkumálastjóri, flytja lykilerindi. Setning ráðstefnunnar verður í beinu streymi á vefnum.

Alls taka 245 fyrirlesarar til máls á ráðstefnunni og þátttakendur eru nú þegar vel á fimmta hundrað.

Nemendur eru sérstaklega hvattir til að taka þátt og er þátttaka þeirra gjaldfrjáls.

Frekari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á vef hennar

frá Surtsey