Skip to main content
19. desember 2018

Lífið of stutt til annars en að skrifa það sem mann langar til

Desember er jafnan annasamur mánuður hjá nemendum í Háskóla Íslands með haustmisserisprófum og verkefnaskilum af ýmsu tagi. Annirnar eru ekki síður miklar hjá kennurum skólans sem leggja nótt við nýtan dag við yfirferð prófa og verkefna í kringum hátíðarnar. Flestum þætti það eflaust ærinn starfi í jólamánuðinum en Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum miðaldabókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, lætur það ekki nægja heldur stendur einnig í ströngu í jólabókaflóðinu miðju með glæpasöguna Útlagamorðin sem hann var að senda frá sér. Hann segir fræði- og skáldsagnaskrif fara vel saman og vinnur nú að þremur nýjum skáldverkum sem hann segir keppast um hylli hans.

Útlagamorðin er fimmta skáldsaga Ármanns og aðspurður segir hann hugmyndina að bókinni hafa kviknað fyrir mörgum árum. „En þá tókst mér ekki að gera úr því góða bók. Ég reyndi aftur nokkrum árum síðar og gekk ekki heldur. Í þriðju tilraun tók aðeins tvo mánuði að skrifa bókina en ég neita því ekki að þar skipti öllu máli að vinur minn féllst á að lesa hverja tíu kafla og hann heimtaði meira sem blés mér kappi í kinn. Ég held líka að þegar ég hófst handa í þriðja sinn hafi ég verið búinn að leysa í huganum flest vandamálin þó að ég hafi raunar ekki verið alveg viss um það sjálfur á þeim tíma,“ segir Ármann um tilurð bókarinnar.

Á síðustu tíu árum hefur Ármann sent frá sér fjórar skáldsögur innan ólíkra greina bókmenntanna, sögulegu skáldsöguna Vonarstræti, skáldsöguna Glæsi þar sem sótt er í efni Íslendingasagna, barnabókina Síðasta galdrameistarann og nútímaskáldsöguna Brotamynd að ógleymdri ljóðabókinni Fréttir frá mínu landi. Ármann segir það ekki hafa verið mjög meðvitaða ákvörðun að skrifa glæpasögu en að hann hafi lengi haft áhuga á slíkum bókmenntum. „Yfirleitt eru nokkrar hugmyndir á sveimi í kollinum á hverjum tíma og ég dembi mér á það sem mig langar mest til að gera. Ég geri mér alveg grein fyrir að íslensk bókmenntaumræða á erfitt með höfunda sem skrifa ólíkar tegundir bóka en ég hef samt ákveðið að hunsa það og gera það sem mig langar til. Lífið er of stutt til annars,“ segir Ármann.

Markmiðið alltaf að brjóta sér leið til lesenda

Glæpasögur hafa sannarlega notið gríðarlegra vinsælda bæði hér heima og erlendis á síðustu árum og áratugum og Íslendingar eiga nú þegar nokkra rithöfunda innan þess geira sem njóta mikillar hylli. Aðspurður hvort það hafi ekki hrætt hann að hella sér út í þá miklu samkeppni sem ríkir innan glæpasagnaheimsins segir Ármann: „Það eru nokkrir höfundar sem njóta mikilla vinsælda en enn fleiri sem hafa ekki uppskorið þær og ég vissi alveg að hið síðarnefnda væri líklegri niðurstaða í mínu tilviki. En ég tel mig hafa eitthvað fram að færa sem sé sérstakt og verð að trúa því til að vera rithöfundur og þá reynir maður að trúa því líka að það muni að lokum brjóta mér leið til lesendanna. Auk heldur lít ég þannig á að ef þessi saga nái til nýrri lesenda muni þeir þá frekar lesa aðrar bækur eftir mig og í því sé nokkur ávinningur.“

Í Útlagamorðunum kynnir Ármann til sögunnar lítinn hóp innan morðrannsóknadeildar lögreglunnar sem fæst við morðmál í litlum bæ úti á landi. Sú hugmynd kviknar við lestur bókarinnar að hann hafi ekki alveg sagt skilið við þær áhugaverðu persónur sem leika lykilhlutverk í bókinni. „Mér finnst alls ekkert ólíklegt að ég haldi áfram því að ég skrifaði þessa bók þannig að persónurnar eru ekki „tæmdar“, þ.e. ýmsum spurningum er ósvarað og ég held að það sé möguleiki á að vinna frekar með þær,“ segir hann aðspurður um frekari glæpasagnaskrif. „Svo hef ég nokkrar óljósar hugmyndir um önnur sakamál sem hópurinn gæti leyst og vonandi formast þær nógu skýrt. En ég mun örugglega líka vilja spreyta mig við fleiri bókmenntagreinar og er með hugmyndir um það líka.“

Útlagamorðin

Útlagamorðin er fimmta skáldsaga Ármanns Jakobssonar, prófessors í íslenskum miðaldabókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Mikil afköst til marks um hugmyndaauðgi fremur en dugnað

Ármann hefur ekki aðeins verið látið mikið til sín taka á skáldsagnasviðinu heldur er hann afar afkastamikill fræðimaður, reyndar í hópi þeirra afkastamestu innan Háskólans. Hann hefur skrifað og ritstýrt í kringum tuttugu fræðibókum í bæði miðalda- og nútímabókmenntum og fræðigreinarnar skipta hundruðum. Auk þess hefur hann verið afar ötull við að leibeina doktorsnemum og sem stendur vinna fjórir nemar að doktorsverkefni sundir leiðsögn Ármanns. En hver er lykillinn að koma svo miklu í verk?

„Yfirleitt þýða mörg verk höfundar að hann hefur ýmsar hugmyndir þannig að ég a.m.k. lít svo á að mikil afköst fræðimanna séu til marks um hugmyndaauðgi fremur en dugnað. Hvort hugmyndirnar séu góðar verða svo aðrir að svara í mínu tilviki. Auk heldur hneigist ég til að skilja eftir tíma á hverjum degi til að bregðast við erindum og gera það strax og tel það tímasparandi. Annað sem sparar tíma er að leggja ekki út í vinnu sem mun ekki leiða til neins og reyna t.d. ekki að hefja skriftir fyrr en maður hefur trú á að verkið gangi upp. Það tekst ekki alltaf en stundum. Aðalástæðan fyrir fjölda doktorsnema sem ég hef leiðbeint er að margir hafa sóst eftir að nema hjá mér og smám saman hef ég orðið aðeins betri við að aðstoða þá við að greiða sér leiðina. En doktorsritgerð sem lokið er hlýtur þó fyrst og fremst að vera til marks um dugnað sjálf doktorsins og leiðbeinandinn getur einna helst stært sig af því að hafa ekki tafið hann mikið,“ segir Ármann enn fremur.

Hann segir aðspurður að fræðiskrifin og skáldsagnaskrifin fari vel saman og bendir á að það að vinna við bókmenntir hjálpi við skilning á þeim. „Eins hjálpar bókmenntamenntun mín mér talsvert við skriftir. Þetta eru vissulega ólík form en eiga þó sumt sammerkt, t.d. þarf helst að skrifa góðan texta bæði í fræðiritgerð og skáldverki,“ bætir hann við.

Með þrjú skáldverk í smíðum

Að skrifa bók er eitt en það er ekki síður vinna að fylgja henni eftir með kynningum og upplestrum og í því hefur Ármann staðið síðustu vikur samhliða kennslu- og fræðistörfum. „Ég var reyndar svo heppinn að ljúka kennslu í ár viku áður en bókin kom til Íslands en hins vegar þurfti ég að fara í skurðaðgerð sem hefur auðvitað sett strik í reikninginn. Ég hef þó farið á eina átta upplestra af ýmsu tagi og ævinlega gengið vel og fólk verið vinsamlegt. Í þetta sinn ákvað ég að lesa ævinlega nýjan kafla í hvert sinn og það hefur gengið furðu vel, e.t.v. vegna þess að þetta er skáldsaga númer fimm og ég er farinn að skrifa upplestrarhæfari texta,“ segir Ármann enn fremur. 

Áður en við kveðjum Ármann er freistandi að forvitnast hvort ekki sé von á fleiri skáldverkum á næstu árum. „Ég er með ein þrjú verk í smíðum og eitt af þeim er um sömu persónur og Útlagamorðin. Það verður spennandi kapphlaup milli þessara verka um hvað nær að fanga mig mest. Þau eru gjörólík öll þrjú og ögra mér mjög mikið á þessari stundu. Framhaldið af Útlagamorðunum verður mjög aðgengileg skáldsaga og annað af hinum alls ekki en þetta kemur allt í ljós. Það er erfitt að skýra fyrir fólki verk sem maður skilur varla sjálfur en þegar bækurnar koma út, verð ég búinn að skilja þær, því lofa ég!“ segir hann að endingu.

Ármann Jakobsson