Skip to main content
24. febrúar 2021

Létt á takmörkunum á starfi Háskóla Íslands

Létt á takmörkunum á starfi Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (24. febrúar):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Neyðarstjórn Háskóla Íslands fundaði í morgun og fór yfir nýja reglugerð heilbrigðisráðherra þar sem m.a. er létt á takmörkunum í starfi háskóla. Breytingin er afar ánægjuleg og tekur hún gildi í dag og hefur eftirfarandi í för með sér fyrir Háskóla Íslands:

  • Skólastarf er heimilt í öllum byggingum Háskólans svo fremi sem nemendur og starfsfólk hafi minnst 1 metra sín á milli.
  • Fjöldi nemenda og starfsmanna í hverju kennslu- eða lesrými fari ekki yfir 150 manns.
  • Blöndun nemenda og kennara á milli hópa er heimil.
  • Ef ekki er unnt að halda 1 metra fjarlægð á alltaf að nota andlitsgrímur.
  • Starfsfólk má ekki vera fleira en 50 í hverju rými.
  • Starfsfólki er heimilt að fara á milli hópa.
  • Heimilt er að víkja frá fjöldatakmörkunum í sameiginlegum rýmum, eins og inngöngum, anddyrum, salernum og göngum, að því gefnu að notaðar séu andlitsgrímur.
  • Verkleg kennsla og klínískt nám, þar sem ekki er hægt að hafa fjarlægðarmörk, er heimil með því skilyrði að nemendur og kennarar noti andlitsgrímu og að sóttvarna sé gætt.
  • Sameiginlegir snertifletir í kennslustofum Háskólans verða sótthreinsaðir milli nemendahópa og sameiginlegur búnaður og snertifletir innan skólans verða sótthreinsaðir a.m.k. einu sinni á dag.

Unnið er að  því að skipuleggja náms- og kennslurými bygginga Háskólans í samræmi við nýju reglugerðina. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu verði að mestu lokið mánudaginn 1. mars. Skipulag kennslunnar innan þessa nýja ramma er í höndum fræðasviða, deilda, námsleiða og kennara einstakra námskeiða.

Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Í ljósi þessara jákvæðu breytinga býð ég ykkur öll hjartanlega velkomin í byggingar Háskólans að nýju en minni á að afar mikilvægt er að fylgja framangreindum reglum og einstaklingsbundnum sóttvörnum.

Gangi ykkur öllum vel.

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Nemendur á háskólasvæðinu