Skip to main content
6. apríl 2018

Lára Jóhannsdóttir valin til þátttöku í samstarfsverkefni Fulbright á sviði norðurskautsfræða

Dr. Lára Jóhannsdóttir, dósent í umhverfis- og auðlindafræðum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hefur verið valin til þátttöku í Fulbright Arctic Initiative (FAI). FAI er flaggskip Fulbright-stofnunarinnar á sviði norðurskautsrannsókna.  Lára var valin til þátttöku sameiginlega af stjórn Fulbright-stofnunarinnar á Íslandi og stjórn Fulbright í Bandaríkjunum.

Þetta er önnur lota FAI en markmið áætlunarinnar er að styrkja alþjóðlegt vísindasamstarf á sviði norðurskautsmála og að auka gagnkvæman skilning  á milli þjóða. FAI gengur út á þverfaglegt samstarf þar sem mál er skoðuð með heildstæðum hætti. Stuðlað er að hagnýtum rannsóknum sem nýtast við að leysa sameiginlegar áskoranir. Um er að ræða 18 mánaða verkefni með þátttöku 16 fræði- og vísindamanna frá ríkjum Norðurskautsráðsins, en Lára er eini Íslendingurinn sem tekur þátt að þessu sinni.

Unnið verður í tveimur vinnuhópum sem hafa hvor sitt áherslusvið: samfélög í sókn (resilient communities) og sjálfbær hagkerfi (sustainable economies) og mun Lára taka þátt í síðarnefnda hópnum. Þátttakendur vinna bæði að eigin rannsókn og sem hluti af rannsóknarteymi. Rannsóknarverkefni Láru snýr að hlutverki vátryggingarfélaga í efnahagslegri þróun á norðurskautssvæðinu. Lára mun stunda rannsóknir við Dartmouth College auk þess að tengjast fræðimönnum frá University of Maine og University of Southern Maine en hún sækir jafnframt fundi FAI á styrktímabilinu. Fyrsti fundurinn er haldinn í Iqaliut í Kanada í maí nk.

Lára lauk doktorsnámi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2012 og MBA-gráðu í alþjóðlegri stjórnun með láði frá Thunderbird School of Global Management árið 2007. Rannsóknir Láru snúa aðallega að fyrirtækjum, sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð þeirra, sér í lagi hlutverki fjármálafyrirtækja á því sviði. Lára hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu en hún starfaði um 14 ára skeið sem sérfræðingur og stjórnandi í vátryggingageiranum á Íslandi auk þess sem hún hefur setið í stjórn lífeyrissjóðs frá árinu 2011.

Frekari upplýsingar um Fulbright Arctic Initiative:

https://www.cies.org/sites/default/files/FAI-Press-Release-2018-Scholar-Announcement.pdf.

https://www.cies.org/fulbright-arctic-initiative/2018-2019-scholars

www.cies.org/arctic

Lára (í miðju) ásamt Belindu Theriault, framkvæmdastjóra Fulbright-stofnunarinnar á Íslandi og Oscar Avila frá sendiráði Bandaríkjanna.