Skip to main content
25. nóvember 2020

Körfuboltaséní og kláraði meistarapróf á einu ári í kófinu

Sóllilja Bjarnadóttir

Háskóli Íslands brautskráði í lok október rúmlega 340 manns af öllum fræðasviðum. Í hópi brautskráðra var Sóllilja Bjarnadóttir sem gerði sér lítið fyrir og lauk meistaraprófi í félagsfræði, sem að jafnaði tekur tvö ár, á einu ári og það í miðjum heimsfaraldri. Sóllilja hefur þegar hafið doktorsnám í greininni þar sem hún fetar nýjar slóðir hér á landi en samhliða því kennir hún grunnnemum í félagsfræði og er jafnframt meðal fremstu körfuknattleikskvenna landsins.

Sóllilja er borin og barnfæddur Kópavogsbúi þar sem hún gekk í Kársnesskóla samhliða því að stunda körfubolta og fótbolta af miklu kappi. Úr Kársnesskóla lá leiðin í Verzlunarskóla Íslands þar sem náttúrufræðibraut varð fyrir valinu. „Það átti að opna flesta möguleika í framtíðinni. En ég fann það eftir um tvö ár í námi að þetta var ekki alveg það sem ég vildi gera í framtíðinni. Stærðfræðin og náttúrufræðin höfðuðu ekki til mín en það er einmitt svolítið skrítið hvað ég hafði lítinn áhuga á stærðfræði því ég er að kenna tölfræði núna,“ segir hún og brosir.

„Mér fannst oft og tíðum stærðfræðin vera bara reikningsdæmi sem við reiknuðum og svo ekkert meira en tölfræðin skýrir miklu meira samband á milli breyta sem er hægt að nota til að skilja samfélagið betur.“ 

Hún heldur áfram: „Ég fór því að velta fyrir mér öðrum brautum og eftir að hafa skoðað þá kosti sem voru í boði leist mér best á að fara á félagsfræðibraut í Kvennó og þangað fór ég. Ég fann það strax á fyrstu vikunum þar að félagsfræðiáfangarnir áttu miklu betur við mig og þetta er örugglega besta ákvörðun sem ég tók á minni menntaskólagöngu því annars hefði ég mögulega aldrei kynnst félagsfræðinni.“

Kennaranám eða félagsfræði?

Að loknu stúdentsprófi stóð valið hjá Sóllilju á milli kennaranáms og félagsfræði en áður en hún skráði sig til náms í Háskóla Íslands starfaði hún eitt ár á leikskóla. „Það var mjög gaman en ég vissi alltaf að ég myndi vilja fara í frekara nám því mér hefur alltaf fundist gaman í skóla. Ég ákvað á endanum að fara í félagsfræði því mér fannst það skemmtilegustu áfangarnir sem ég tók í menntaskóla.“

Ánægjan var ekki síðri í grunnnámi í  félagsfræði í Háskólanum. „Mér finnst svo frábært hvernig félagsfræðin getur horft á alla hluti samfélagsins og gefur færi á að rannsaka það út frá fjölbreyttum sjónarhornum,“ segir Sóllilja sem lauk BA-gráðu í greininni í fyrravor með ágætiseinkunn.

solliljaba

Sóllilja lauk BA-prófi í félagsfræði vorið 2019.

„Er ég eitthvað rugluð að vera strax byrjuð að pæla í MA-ritgerðinni minni?“

Hún lét ekki þar við sitja heldur skráði sig strax í meistaranám haustið 2019 og lauk tveggja ára og 120 eininga námi á einu ári. „Það var í rauninni ekkert planið strax. Ég vissi að ég vildi gera 60 eininga ritgerð sem er þá þannig að þú ert eitt ár í námskeiðum og vinnur ritgerðina á einu ári. Ég fann strax að ég var spennt að byrja að skrifa ritgerðina. Það eru margir sem hugsa til baka og segja: „Ó mæ god, BA-ritgerðin,“ og finnst hún hafa tekið mikið á. Ég er ekki að segja að þetta hafi verið létt en ég man að ég fékk aldrei þessa tilfinningu að þetta væri leiðinlegt eða íþyngjandi. Mér finnst mjög gaman að gera rannsóknir og ég fann að ég var ótrúlega spennt að byrja aftur að skrifa ritgerð og kafa ofan í áhugavert efni,“ segir hún um meistararitgerðina. „Ég man að ég sagði við vinkonur mínar: „Er ég eitthvað rugluð að vera strax byrjuð að pæla í MA-ritgerðinni minni?“ Þær sögðu bara: „Já, þetta er fáránlegt,““ segir Sóllilja og hlær.

Sóllilja vann því að meistaraverkefninu samhliða náminu síðasta vetur og það sóttist vel. „Þá ákvað ég bara að nýta sumarið til þess að klára ritgerðina og ég skilaði henni í september.“ 

Ritgerðin reyndist afar góð því fyrir hana fékk Sóllilja 9,5 og meðaleinkunn hennar úr öllu MA-náminu var 9,39.  „Þetta var auðvitað smá álag á einhverjum tímapunkti en ekki þannig að ég hafi eitthvað séð eftir þessu. Ég var bara svo spennt að byrja í doktorsnámi,“ segir þessi kappsama unga kona um glæsilegan árangur í meistaranámi. Flestum þætti eflaust nóg um að klára meistaragráðu á einu ári, hvað þá í miðjum heimsfaraldri. Aðspurð segir hún að ástandið hafi að hluta til hjálpað til. „Ég fékk alveg fullt af tíma þar sem það var ekkert að gerast í þjóðfélaginu sem nýttist til að skrifa. Ég skrifaði heilu og hálfu dagana og fannst það geggjað!“ segir hún og bætir við: „Ég hefði samt engan veginn getað klárað meistaranámið á einu ári ef það hefði ekki verið fyrir endalausan stuðning frá mömmu og pabba, Sóleyju Ægisdóttur og Bjarna Gauki Þórmundssyni, og bræðrum mínum, Ægi Hreini og Bjarti Frey Bjarnasonum. Þau styðja mig alltaf í öllu sem ég tek mér fyrir hendur og ég er endalaust þakklát fyrir þau.“

„Mér finnst mjög gaman að gera rannsóknir og ég fann að ég var ótrúlega spennt að byrja aftur að skrifa ritgerð og kafa ofan í áhugavert efni,“ segir hún um meistararitgerðina. „Ég man að ég sagði við vinkonur mínar: „Er ég eitthvað rugluð að vera strax byrjuð að pæla í MA-ritgerðinni minni?“ Þær sögðu bara: „Já, þetta er fáránlegt,““ segir Sóllilja sem er hér glaðbeitt með spánnýja MA-ritgerð í höndunum. 

Áhrif félagsnetsins á umhverfishegðun okkar

Meistaraverkefni Sóllilju var á sviði félagsfræðinnar sem hingað til hefur fengið litla athygli hér á landi, svokallaðrar umhverfisfélagsfræði. „Þorvarður Árnason er sá eini sem ég veit að hefur notað nálganir umhverfisfélagsfræðinnar hér landi, annars er held ég enginn annar Íslendingur sem hefur lært þetta. Kannski verður það leiðrétt hjá mér eftir þetta viðtal,“ segir hún og heldur áfram: „Ég ákvað að skrifa um viðhorf og umhverfishegðun Íslendinga. Rannsóknarspurningin mín snerist um það hvort félagsnet einstaklinga hafi áhrif á umhverfishegðun þeirra en með félagsneti á ég við fólkið sem er í kringum okkur. Ég vildi meðal annars kanna að ef fólkið í kringum þig er að flokka rusl, reyna að draga úr óþarfa neyslu eða nota strætó, hvort þú sért líkleg(ur) til að gera það líka,“ segir Sóllilja og segist ekki vita um neina sambærilega eða jafnítarlega rannsókn hafa verið gerða áður á Íslandi.

Rannsóknin byggðist á spurningalista sem Sóllilju bauðst að gera í samstarfi við Félagsvísindastofnun í einu af námskeiðunum sem hún tók í meistaranámi. „Niðurstöðurnar sýndu að bæði hafði félagsnet áhrif á flokkunarhegðun einstaklinga og ýtti þeim í átt að aukinni fyrirhöfn til að vernda umhverfið, en það eru aðgerðir eins og að nota einkabílinn minna, fljúga sjaldnar eða kaupa notuð föt. Mér fannst mjög áhugavert líka að skoða muninn á flokkunarhegðuninni, sem flestir virðast taka þátt í á Íslandi, og þessari auka fyrirhöfn til að vernda umhverfið, sem mun færri virðast taka almennt þátt í samkvæmt gögnunum mínum,“ segir hún.

Hún bendir á að erfitt sé að átta sig á umhverfishegðun fólks með því einu að spyrja það um hana. „Mér finnst við þurfa að horfa á þetta í miklu stærra félagslegu samhengi. Félagsveruleiki einstaklings hefur þar mikil áhrif en það hafa ekki allir sömu tækifæri til að taka þátt í mismunandi umhverfishegðunum. Þetta er ekki svo einfalt að spyrja einungis hvað einstaklingar eru að gera, þetta er ekki bara frá einstaklingnum komið. Það fer eftir því hvað er að gerast í kringum einstaklinginn og hvert normið er í hverju samfélagi. Það er svo áhugavert hvað félagsveruleiki einstaklinga hefur mikil áhrif og þar held ég að stjórnvöld komi sterk inn. Um leið og þau fara í einhverjar aðgerðir sem hafa áhrif á gjörðir einstaklinga, eins og í tilviki flokkunartunnanna eða banns á plastpokum í búðum, þá fer boltinn að rúlla. En við þurfum stærri aðgerðir en þetta til að ætla að hafa einhver alvöru áhrif,“ segir hún enn fremur.

solliljadalbygging

Sóllilja í Aðalbyggingu þar sem hún mun væntanlega verja doktorsritgerð sína þegar fram líða stundir. MYND/Kristinn Ingvarsson

Heldur áfram í umhverfisfélagsfræði í doktorsnámi

Sóllilja hyggst halda áfram á braut umhverfisfélagsfræðinnar í doktorsnáminu sem hún hefur þegar hafið. Hún segir þessa undirgrein félagsfræðinnar stórt svið erlendis. „Ég ákvað í haust að taka tvö námskeið, umhverfismannfræði og inngang að umhverfis- og auðlindafræði, í HÍ til þess að fá enn betri innsýn í umhverfismálin á Íslandi en ég er einnig að vinna í því núna að finna út úr því hver rannsóknarspurningin verður í doktorsnáminu,“ segir hún.

Doktorsrannsóknina mun hún vinna undir leiðsögn Sigrúnar Ólafsdóttur, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hún segist þegar hafa sótt um styrk til rannsóknarinnar hjá Rannís en það ræðst fljótlega eftir áramót hvort hún hlýtur hann. „Ég er eiginlega orðlaus yfir því hvað Sigrún hjálpaði mér mikið með styrkumsókina mína og bara allt sem hún hefur hjálpað mér með. Það er frábært að fá að læra hjá svona flottri fræðikonu. Hún bæði fór yfir meistararitgerðina mína í sumar og doktorsumsóknina og eyddi nánast sumarfríinu í þetta þannig að ég er henni óendanlega þakklát,“ segir Sóllilja sem er hóflega bjartsýn um að fá styrk enda samkeppnin um styrki Rannís gríðarhörð.

Kennt og numið í kófinu

Samhliða doktorsnáminu er Sóllilja meðal kennara í fjórum námskeiðum í grunnnámi í félagsfræði í haust. „Ég byrjaði fyrst sem aðstoðarkennari í tölfræði þegar ég var enn í grunnnámi og hef sinnt því í þrígang. Mér hefur alltaf fundist mjög gaman að kenna og þegar ég byrjaði í háskóla stóð einmitt valið á milli kennaranáms og félagsfræði,“ bendir hún á.

Sóllilja er því í þeirri sérstöku stöðu að vera bæði nemandi og kennari í kófinu þar sem flestir tímar fara fram á netinu. „Þetta er alveg áskorun og maður finnur að maður tengist nemendum ekki alveg jafn vel en mér finnst samt allir vera á sömu blaðsíðu með að láta þetta bara virka. Nú er ég bæði nemandi og kennari á þessari önn og mér finnst einhvern veginn allir vera sammála um að komast í gegnum þetta saman með von um að ástandið skáni bráðum,“ segir hún en segist jafnframt skilja vel að fólki finnist erfitt að vera í öllum þessum áföngum á netinu í kófinu.

solliljakarfa

Sóllilja í leik með Breiðabliki í efstu deild kvenna í körfubolta.

Hvergi nærri hætt í körfunni

Sóllilja lætur sér ekki námið og kennslu nægja því hún æfir körfubolta af miklu kappi og hefur gert frá sjö ára aldri. „Ég kem úr mikilli körfuboltafjölskyldu. Pabbi minn var að þjálfa körfubolta mjög lengi og eldri bróðir minn var líka í körfubolta þannig að ég var alltaf í íþróttahúsinu þegar ég var yngri. Ég mætti svo bara á æfingu þegar ég var sjö ára og hef ekki stoppað síðan, mér finnst þetta svo ótrúlega skemmtilegt,“ segir Sóllilja en hún stundaði líka knattspyrnu til þrettán ára aldurs.  

Sóllilja er fyrirliði Breiðabliks sem spilar í efstu deild kvenna í körfubolta, Dominos-deildinni, og það útheimtir miklar æfingar þótt vissulega hafi þær verið settar á ís á meðan kórónuveiran fer um samfélagið. 

Hún segir körfuboltan alltaf vera jafn skemmtilegan. „Maður fer bara á æfingar og gerir eitthvað skemmtilegt í einn og hálfan tíma og það er hluti af deginum en auðvitað fer ótrúlega mikil skipulagning í það að koma þessu öllu fyrir þegar maður er í fullu námi og kannski að vinna með líka,“ segir hún. 

Óvíst er hvenær Sóllilja og stöllur hennar komast aftur út á völlinn. „Maður vonast náttúrlega til að það gerist sem fyrst en skilur vel að það sé ekki hægt núna eins og ástandið er.“

Íslenska landsliðið hefur sömuleiðs notið krafta Sóllilju því hún á að baki fjölmarga leiki með yngri landsliðum og hefur leikið sjö leiki með A-landsliðinu og er greininlegt að metnaðurinn er ekki síðri á körfuboltavellinum en í Háskólanum.

Draumurinn að starfa í Háskóla Íslands í framtíðinni

Það er augljóst að bæði rannsóknir og kennsla höfða mjög til Sóllilju og því vaknar óhjákvæmilega sú spurning að hún sjái fyrir sér háskóla sem sinn framtíðarstarfsvettvang. „Já, draumurinn núna er að fara að kenna hérna í Háskóla Íslands í framtíðinni. Mér finnst mjög gaman að vinna rannsóknir og það er hluti af kennarastarfinu hér í HÍ að birta vísindagreinar þannig að það væri draumurinn að koma umhverfisfélagsfræðinni á kortið hér,“ segir hún.

Sóllilja Bjarnadóttir