Skip to main content
11. desember 2020

Kennsla áfram rafræn að mestu í upphafi nýja ársins

aðalbygging

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (11. desember):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Fyrst af öllu við ég þakka öllum fyrir hvernig til hefur tekist við framkvæmd stað- og fjarprófa sem hafa verið þreytt við flóknar aðstæður. Lokaprófum haustmisseris lýkur í næstu viku og óska ég nemendum áfram góðs gengis. Brýnt er að við höldum árvekni okkar þessa síðustu prófdaga. Gætum að einstaklingsbundnum sóttvörnum, fjarlægðarmörkum og notkun hlífðargríma. Þetta á einnig við í þeim hraða sem stundum einkennir undirbúning jólanna. 

Nú er ljóst að kennsla á vormisseri 2021 verður með rafrænum hætti eins og verið hefur mestan hluta haustmisseris, en takmarkað staðnám verður þó áfram heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun deilda og fræðasviða. Staðan verður svo metin jöfnum höndum í ljósi þróunar heimsfaraldursins og bólusetningar hérlendis. 

Markmið Háskóla Íslands er ávallt að skapa hvetjandi og skemmtilegt starfs- og námsumhverfi sem stuðlar að vellíðan allra. Vonandi tekst okkur sem fyrst á nýju ári að laga starfið aftur að því sem við þekkjum best og opna byggingarnar aftur án takmarkana. Fækkun smita utan sóttkvíar, tilslakanir sóttvarnaryfirvalda og áform um bólusetningu við COVID-19 gefa tilefni til bjartsýni. 

Nú þegar jólin nálgast tekur mannlífið þrátt fyrir allt æ meiri svip af þeim anda sem einkennir þessa árstíð. Andstæður ljóss og skugga eru áberandi skarpar í desember. Njótum þess en förum varlega með kerti og skreytingar. 

Hugum hvert að öðru og látum gott af okkur leiða á aðventunni. 

Góða helgi. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Jólatré á Háskólatorgi