Skip to main content
20. september 2020

Ítrekun sóttvarnaraðgerða innan Háskóla Íslands 

Ítrekun sóttvarnaraðgerða innan Háskóla Íslands  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (20. september):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Því miður hefur hert á útbreiðslu kórónaveirunnar hérlendis sem hefur leitt til víðtækari tilmæla sóttvarnaryfirvalda. 

Byggingar Háskóla Íslands standa ykkur samt allar opnar á mánudag. En til að tryggja starf okkar áfram er afar mikilvægt að huga að einstaklingsbundnum sóttvörnum, þvo hendur mjög vandlega og spritta. Virðum 1 metra regluna. 

Ég vil hvetja alla, nemendur, kennara og annað starfsfólk, til að nota hlífðargrímur í byggingum skólans, sérstaklega þegar ekki er hægt að koma við 1 metra fjarlægðarmörkum og þegar loftgæði eru lítil. Grímum verður dreift í byggingum skólans í byrjun vikunnar eða eins fljótt og unnt er.

Einnig vil ég hvetja kennara eftir því sem kostur er að auka enn frekar rafræna kennslu vegna tilmæla sóttvararyfirvalda. Áfram verður lögð áhersla á að nýnemar eigi kost á staðnámi þar sem það er mögulegt miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi. 

Skimun verður áfram í boði Íslenskrar erfðagreiningar. Ég vil hvetja þau ykkar sem ekki hafa nýtt þetta úrræði til að bóka tíma. Boðslykill okkar er HI_COVID

Fylgjum reglum almannavarna án undantekninga kæru nemendur og samstarfsfólk. Verum undanbragðalaust heima ef minnstu einkenna er vart. Hlöðum niður smitrakningarappi landlæknis. 

Þessar aðgerðir eru til að bregðast við þeirri bylgju sem nú virðist í uppsiglingu. Stöndum áfram saman af þeirri einurð sem við höfum gert hingað til. Þannig tryggjum við starf okkar og sterkara samfélag. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Oddi og Gimli