Inga Þórsdóttir áfram forseti Heilbrigðisvísindasviðs | Háskóli Íslands Skip to main content
1. júní 2017

Inga Þórsdóttir áfram forseti Heilbrigðisvísindasviðs

""

Dr. Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði, hefur verið ráðin til að gegna áfram stöðu forseta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands til næstu fimm ára. Inga hefur gegnt starfinu frá árinu 2012.

Inga lauk doktorsprófi í klínískri næringarfræði frá Gautaborgarháskóla í Svíþjóð árið 1989 og var prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðiskor Raunvísindadeildar Háskóla Íslands frá 1997 til 2008, eða þar til Matvæla- og næringarfræðideild varð sjálfstæð deild innan Heilbrigðisvísindasviðs. Það ár tók hún við embætti forseta Matvæla- og næringarfræðideildar og gegndi því þar til hún varð forseti Heilbrigðisvísindasviðs.

Inga hefur gegnt ýmsum öðrum forystustörfum innan Háskóla Íslands og utan hans. Hún var forstöðumaður næringarstofu Landspítala og Rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands á árunum 1995-2012 og hefur átt sæti í norrænum stýri- og sérfræðingahópum og ráðlagt um næringarefni. Þá sat hún um tíma í Vísinda- og tækniráði og í ritnefndum alþjóðlegra vísindatímarita, svo eitthvað sé nefnt. 

Inga hefur verið mjög afkastamikill vísindamaður á sviði næringarfræði og hefur ritað fjölda greina í alþjóðleg ritrýnd tímarit, bókarkafla og ágrip auk þess að vera virk í fyrirlestrahaldi. Hún hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín, þar á meðal heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright fyrir framúrskarandi árangur í rannsóknum á sviði næringarfræði, og þá var hún valin heiðursvísindamaður Landspítala ársins 2012. Inga hefur einnig hlotið fjölmarga rannsóknarstyrki, m.a. frá Evrópusambandinu og úr íslenskum og norrænum sjóðum, og tekur þessi misserin þátt í evrópska rannsóknarverkefninu MoodFOOD sem miðar að því að kanna tengsl fæðuvenja við offitu og þunglyndi.

Heilbrigðisvísindasvið er eitt fimm fræðasviða Háskóla Íslands. Innan þess eru sex deildir, Hjúkrunarfræðideild, Lyfjafræðideild, Læknadeild, Matvæla- og næringarfræðideild, Sálfræðideild og Tannlæknadeild.

Inga Þórsdóttir.