Skip to main content
8. janúar 2021

Í upphafi nýs árs

Í upphafi nýs árs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (8. janúar):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Gleðilegt nýtt ár og velkomin aftur til náms og starfa. Kennsla er þegar hafin á sumum fræðasviðum Háskóla Íslands en hún hefst af fullum þunga næstkomandi mánudag. Ég býð nýnema sérstaklega velkomna og hvet þá til að nýta sér mjög ríkulegar upplýsingar á vefsíðunni okkar um fyrstu skrefin og mikilvæga þjónustu innan Háskóla Íslands.

Ný reglugerð Heilbrigðisráðuneytisins tók gildi 1. janúar en samkvæmt henni er skólastarf heimilt í öllum byggingum skólans, að því tilskildu að nemendur og starfsfólk hafi minnst 2 metra sín á milli og að fjöldi fólks í hverju kennslu- eða lesrými fari ekki yfir 50.

Áhersla verður þó áfram á rafræna kennslu nú við upphaf þessa misseris. Fræðasvið og deildir veita nánari upplýsingar um fyrirkomulag kennslunnar og eru nemendur hvattir til að fylgjast með tilkynningum frá fræðasviðum og upplýsingum frá kennurum um tilhögun einstakra námskeiða. 

Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja fjarlægðarmörkum, eins og í verklegri kennslu og klínísku námi, er kennsla heimil með því skilyrði að nemendur og kennarar noti hlífðargrímu og gætt sé að sóttvörnum.

Við staðkennslu er samgangur nemenda á milli hópa ekki heimill en starfsfólk og kennarar mega fara á milli hópa. Nokkrum byggingum Háskóla Íslands verður því áfram skipt upp í sóttvarnarhólf.  

Háskóli Íslands mun leggja áherslu á góða loftræstingu í rýmum og lofta út á milli hópa. Sameiginlegir snertifletir í kennslustofum verða sótthreinsaðir milli nemendahópa. Einnig verður sameiginlegur búnaður og snertifletir sótthreinsaðir a.m.k. daglega. 

Í sameiginlegum rýmum Háskólans, svo sem við innganga, í anddyri, á salernum og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um samgang á milli hópa að því gefnu að notaðar séu andlitsgrímur. 

Viðburðir og aðrar samkomur sem ekki teljast til kennslu eða náms mega ekki fara fram í byggingum Háskólans og takmarka þarf gestakomur.

Háma verður opnuð á mánudag en eingöngu verður unnt að taka veitingar með sér úr húsi. 

Gangi ykkur vel og munum að mikilvægt er að sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum. Ég hvet ykkur öll til að halda góðri fjarlægð, þvo og spritta hendur vandlega og nota hlíðfargrímur. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Nemandi á Háskólatorgi