Skip to main content
19. nóvember 2021

Hugum að sóttvörnum – Verjum skapandi samfélag okkar

Hugum að sóttvörnum – Verjum skapandi samfélag okkar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (19. nóvember):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Nú fer að líða að desemberprófum sem er einhver mesti álagstíminn hjá velflestum sem eru í námi á háskólastigi. Ég vil hrósa ykkur sérstaklega, kæru nemendur og kennarar, fyrir sveigjanleika og seiglu en þetta er fjórða misserið í röð þar sem próf skólans fara fram í heimsfaraldri.

Framkvæmd desemberprófanna verður með sama sniði og á tveimur undanförnum misserum þar sem við höfum glímt við afleiðingar faraldursins. Notast verður við bæði staðpróf og heimapróf og hvet ég ykkur öll til að skoða vandlega auglýsta próftöflu. Það er afar skiljanlegt að þessar erfiðu aðstæður leggist þungt á hugann en það er mat skólans að hægt sé á öruggan hátt að halda þau staðpróf sem eru auglýst. Vandlega verður gætt sóttvarna í öllum prófum og hvet ég ykkur, kæru nemendur og kennarar, til að huga vel að eigin sóttvörnum og virða nándarmörk.

Hingað til hefur ekkert smit komið upp í staðprófum hjá okkur og engin þekkt dæmi eru um að nemendur hafi neyðst til að fara í sóttkví vegna prófahalds í HÍ. Mikill meirihluti nemenda og starfsfólks er bólusettur nú við lok þessa misseris og eru það gjörbreyttar aðstæður frá því sem áður var. Ég vil engu að síður nota tækifærið og hvetja þau ykkar sem ekki hafa fengið bóluefni til að þiggja það hið fyrsta og sömuleiðis þau sem þegar eru bólusett að hluta til, að fá annan skammt eða örvunarskammt.

Við framkvæmd prófa nú í desember verður líkt og áður komið til móts við nemendur með sérþarfir, s.s. þau sem þurfa aukið rými og fjarlægð frá öðrum við próftöku vegna undirliggjandi áhættuþátta. Nemendur sem óska eftir slíkri aðstöðu geta sent beiðni hér, umsóknarfrestur er til og með  föstudeginum 26. nóvember nk. Ég vek líka athygli á því að ekki þarf að skila vottorði þegar tilkynnt er um veikindi í prófum. Það nægir að senda tölvupóst frá hi-netfangi á nemskra@hi.is. Munið að tilgreina númer og heiti námskeiðs, nafn og kennitölu. Mikilvægt er að tilkynna forföll eins fljótt og unnt er og ekki síðar en þremur dögum eftir að próf var haldið. Tryggt verður að þau sem geta ekki þreytt próf samkvæmt próftöflu í desember sökum COVID-19 (eru í einangrun eða sóttkví), geta þreytt sjúkrapróf í desember eða janúar 2022.

Háskóli Íslands kappkostar að eiga í skapandi samstarfi við íslenskt atvinnulíf til að örva hér nýsköpun, fjölga störfum og efla almenna velferð. Samstarf okkar við líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech hefur t.d. skilað miklum ávinningi, ekki síst fyrir nemendur skólans. Nú býður Alvotech í annað sinn upp á launaða starfsþjálfun á sviði líftækni og er hún opin þeim sem hafa nýlega lokið námi í líffræði, efnafræði, lífefnafræði og lyfjafræði frá HÍ. Hægt er að kynna sér störfin hjá Tengslatorgi HÍ.

Markmið nýrrar framtíðarstefnu Háskóla Íslands er m.a. að styðja enn betur við alþjóðlegt rannsóknasamstarf, auka tækifæri til skiptináms ásamt því að fjölga námsleiðum í samstarfi við erlenda háskóla. Þetta er brýnt þar sem samkeppni eykst nú afar hratt á öllum sviðum meðal háskóla heimsins og ekki síður á alþjóðlegum vinnumarkaði. Í þessari viku var haldið þing evrópskra samstarfsháskóla okkar í Aurora-netinu í Tarragona á Spáni en það snýst einmitt um að efla nám, rannsóknir og nýsköpun í öllum háskólunum í takt við örar samfélagsbreytingar. Háskólarnir í Aurora starfa nú þegar saman að rannsóknaverkefnum og vinna að því að bjóða sameiginleg námskeið, námsleiðir og prófgráður, ekki síst á sviði nýsköpunar og sjálfbærni m.a. með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Háskóli Íslands leiðir Aurora samstarfið sem er í takt við nýjustu strauma í Evrópu enda er það styrkt sérstaklega úr rammaáætlun Evrópusambandsins til að efla og breyta háskólanámi og auka rannsóknasamstarf í álfunni í takt við nýjar áherslur og áskoranir.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Enn eigum við í höggi við COVID-19 sem hefur ítrekað þrengt að skólastarfinu. Með því að huga að einstaklingsbundnum sóttvörnum getum við þó enn haldið uppi nokkurn veginn eðlilegu skólastarfi sem er einstaklega dýrmætt því lifandi háskólar nærast á samvinnu og samstarfi á breiðum grunni. Háskólar eru samfélög þar sem hugmyndir krauma í nánd og samtali þvert á fræðigreinar og námsleiðir. Gleymum því ekki að við slíkar aðstæður getur orðið til ný þekking sem getur breytt heiminum – og ný vináttutengsl myndast daglega sem oft vara ævilangt. Verjum sem best við getum þetta skapandi samfélag, sem er gríðarlega brýnt fyrir okkur öll því þekkingin er í raun áreiðanlegasti gjaldmiðill framtíðarinnar.

Förum að öllu með gát, sofnum ekki á verðinum heldur hugum að sóttvörnum og fylgjum sóttvarnareglum án undantekninga.

Góða helgi.

Jón Atli Benediktsson, rektor.

prófborð