Skip to main content
12. apríl 2016

Hlýtur 300 milljóna styrk til rannsókna á mergæxli

""

Hópur vísindamanna undir forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors í blóðsjúkdómum við Læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðings við Landspítala, hefur hlotið 300 milljóna króna styrk (2,4 milljónir bandaríkjadala) til rannsóknar á forstigi mergæxla og framvindu sjúkdómsins í mannslíkamanum. Liður í rannsókninni er að bjóða 140 þúsund einstaklingum búsettum á Íslandi í skimun.

Mergæxli er ólæknandi sjúkdómur í beinmerg og einkenna sjúkdómsins verður oft ekki vart fyrr en hann hefur haft alvarleg áhrif á heilsuna. Árlega greinast um 25 manns með sjúkdóminn hér á landi og alls um 200 þúsund manns í heiminum öllum. Samfara auknum rannsóknum á sjúkdómnum og nýjum og betri lyfjum hafa horfur sjúklinga með mergæxli hins vegar batnað gríðarlega síðastliðin ár. 

Rannsóknarverkefnið sem um ræðir hefur fengið nafnið iStopMM (Iceland Screens Treats or Prevents Multiple Myeloma). Leitað verður samþykkis einstaklinga fyrir þátttöku í verkefninu. 

Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor og forsprakki rannsóknarinnar, segir að rannsóknarhópurinn stefni að því að bjóða um 140 þúsund einstaklingum, búsettum á Íslandi, yfir fertugu að taka þátt og skima fyrir forstigi mergæxlis, svokallaðri einstofna góðkynja mótefnahækkun (MGUS). Finnist þetta forstig sjúkdómsins verði viðkomandi einstaklingum boðið að taka þátt í klínískri rannsókn þar sem markmiðið er að skoða hvaða meðferð henti best. Jafnframt er ætlunin að nýta gögnin úr rannsókninni til þess að þróa nýtt áhættulíkan fyrir framþróun sjúkdómsins. „Í framhaldinu stefnum við að því að geta boðið sjúklingum með mergæxli meðferð mun fyrr en annars gerist og er það von okkar að þannig getum við stuðlað að lækningu sjúkdómsins.“

„Í stað þess að hefja skipulega skimun ætlum við að rannsaka gildi skimunar fyrir forstigi mergæxla. Við munum með niðurstöðum þessarar rannsóknar geta svarað nokkrum mikilvægum spurningum, eins og hvort skimun sé hagkvæm, hversu oft þurfi að fylgjast með einstaklingunum, hvaða áhrif það hafi á lífsgæði einstaklinga að hafa vitneskju um forstig krabbameina og hvort unnt sé að lækna mergæxli með því að meðhöndla það fyrr en nú er gert um allan heim,“ segir Sigurður Yngvi.

Áætlað er að um 4% fólks yfir fimmtugu séu með MGUS-forstig mergæxlis en fæst þeirra hafa verið greind. Að sögn Sigurðar Yngva er það mikil áskorun að skipuleggja víðtæka skimunarrannsókn sem þessa. „Þar sem nú eru fyrir hendi meðferðarúrræði, sem hafa minni hliðarverkanir en áður, er mjög líklegt að meðhöndlun fyrr í sjúkdómsferlinu auki bæði lífslíkur og lífsgæði sjúklinga,“ segir hann.

Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala, Krabbameinsfélags Íslands, Memorial Sloan Kettering sjúkrahússins í New York og Binding Site í Bretlandi.

Verndari rannsóknarinnar er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

„Styrkveiting þessi til rannsóknar Sigurður Yngva og félaga sýnir alþjóðlegan styrk þeirra og þá trú að þau geti  svarað grundvallarspurningum sem snúa að mergæxlum. Þessi rannsókn nýtir á frumlegan hátt þá sérstöðu sem við Íslendingar höfum með öflugum gagnaskrám og aðgengi að heilli þjóð. Læknadeild er sérlega stolt af árangri Sigurður Yngva og hans samstarfsmanna,“ segir Magnús Karl Magnússon, forseti Læknadeildar Háskóla Íslands.

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóli Íslands: „Rannsóknastyrkur Sigurðar Yngva Kristinssonar prófessors frá International Myeloma Foundation í Kaliforníu er einn stærsti styrkur sem vísindamaður við Háskóla Íslands hefur fengið. Styrkurinn er fyrst og fremst mikil viðurkenning fyrir Sigurð Yngva og samstarfsfólk hans og ótvírætt vitni þess að rannsóknir hans eru á heimsmælikvarða. Háskólinn verður í vaxandi mæli að reiða sig á tekjur frá erlendum rannsóknasjóðum þar sem bestu vísindamenn heims keppa sín á milli um takmarkað fé. Háskóli Íslands kappkostar því að bjóða vísindamönnum sínum upp á frjótt og skapandi rannsóknaumhverfi sem gerir þeim kleift að keppa í þessum harða heimi. Rannsóknastyrkur Sigurðar Yngva er mikil viðurkenning fyrir Háskóla Íslands og hvatning fyrir okkur til að sækja með auknum krafti á erlend mið.“

Um Sigurð Yngva og styrkinn

Sigurður Yngvi Kristinsson er prófessor í blóðsjúkdómum við Háskóla Íslands og sérfræðingur á Landspítala frá 2012. Hann lauk sérnámi í lyflæknisfræði og blóðsjúkdómum við Karólínska sjúkrahúsið 2007 og doktorsnámi frá Karólínska háskólanum 2009. Hann er yngsti prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Sigurður Yngvi hefur birt fjölda vísindagreina í virtustu vísindatímaritum heims um mergæxli, forstig þess og tengda sjúkdóma. Rannsóknarteymi Sigurðar Yngva samanstendur af sjö doktorsnemum, tölfræðingi, verkefnisstjóra auk læknanema. 

Það eru samtökin The International Myeloma Foundation í Bandaríkjunum sem veita styrkinn. IMF hafa yfir að ráða elsta og stærsta sjóði heims sem styrkir sérstaklega rannsóknir á mergæxlum en markmið hans er að stuðla að bættum lífsgæðum fyrir mergæxlissjúklinga bæði með rannsóknum, fræðslu, stuðningi og ráðgjöf. Sjóðurinn hefur m.a. sett á laggirnar rannsóknaverkefnið Black Swan Research Initiative en markmið þess er að stuðla að lækningu á mergæxli. „Við erum ákaflega ánægð með að geta stutt þessa rannsókn vegna þess að við höfum mjög mikla trú á því að snemmgreining og meðferð geti leitt til lækningar á mergæxli,“ segir Dr. Brian Durie, stjórnarformaður og einn stofnenda The International Myeloma Foundation, en hann er jafnframt stjórnandi Black Swan Research Initiative. Black Swan styrkir um þessar mundir yfir 35 rannsóknarverkefni sem snúa að sjúkdómnum um víða veröld.

Sigurður Yngvi Kistinsson
Sigurður Yngvi er hér ásamt rannsóknarhópi sínum en í honum eru þau Ásdís Rósa Þórðardóttir, Anna María Birgisdóttir, Bjarni Rúnar Jónasson, Maríanna Þórðardóttir, Vilhjálmur Steingrímsson, Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir, Jónas Bjartur Kjartansson, Guðbjörg Jónsdóttir, Sæmundur Rögnvaldsson og Ólafur Pálsson. MYND/Kristinn Ingvarsson
Sigurður Yngvi Kistinsson
Sigurður Yngvi er hér ásamt rannsóknarhópi sínum en í honum eru þau Ásdís Rósa Þórðardóttir, Anna María Birgisdóttir, Bjarni Rúnar Jónasson, Maríanna Þórðardóttir, Vilhjálmur Steingrímsson, Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir, Jónas Bjartur Kjartansson, Guðbjörg Jónsdóttir, Sæmundur Rögnvaldsson og Ólafur Pálsson. MYND/Kristinn Ingvarsson