Skip to main content
24. ágúst 2020

Hjartanlega velkomin í Háskóla Íslands

Hjartanlega velkomin í Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi skilaboð til nýnema í dag (24. ágúst 2020):

„Kæri nýnemi. 

Nú eru sannarlega spennandi tímamót í lífi þínu. Við eðlilegar kringumstæður er háskólanám krefjandi en nú reynir enn meira á en venjulega við að taka fyrstu skrefin. Aðstæður eru allt öðruvísi en við höfum áður glímt við vegna COVID-19. Engu að síður munum við öll leggjast á eitt við að gera upplifun þína sem besta og skapa saman þann magnaða anda sem einkennir allt mannlíf og starf í Háskóla Íslands. 

Ég veit að margar spurningar leita á þig þessa dagana en á vefsíðunni okkar er að finna afar gagnlegar upplýsingar nýnemum til stuðnings fyrstu dagana og vikurnar. Þar er m.a. myndband þar sem fulltrúar úr Stúdentaráði skólans renna yfir alla helstu stoðþjónustu sem stendur til boða. Þjónustueiningar okkar á Háskólatorgi standa þér allar opnar, eins og þjónustuborðið okkar, nemendaskrá, náms- og starfsráðgjöf, tölvuþjónusta, skrifstofa alþjóðasamskipta og Stúdentaráð. Það þarf reyndar enginn að gera sér ferð í skólann til að nálgast þjónustueiningarnar því netspjallið okkar er aðgengilegt allstaðar á heimasíðu skólans hi.is.  

Starfsfólk og samnemendur þínir hjálpa líka eftir fremsta megni og er Stúdentaráð t.d. búið að koma á fót sérstakri síðu á Facebook í samvinnu við Háskólann til að svara á gagnvirkan hátt öllu sem tengist skólanum eða því sem næst. 

Háskóli Íslands setur velferð þína og samfélagins alls, innan sem utan veggja skólans, í algjöran forgang og hefur gripið til ýmissa aðgerða til að draga úr smithættu. Mig langar að biðja þig um að kynna þér vandlega COVID-19-síðu skólans en þar kemur m.a. fram að eins metra nándarregla gildir innan hans og sett hafa verið upp sérstök sóttvarnarhólf þar sem fleiri en 100 einstaklingar eru í sömu byggingunni. Þar kemur líka fram ef ekki er hægt að framfylgja nándarreglunni á að nota andlitsgrímu sem hylur munn og nef. Ég hvet þig til að fylgja vel auglýstum reglum sóttvarnaryfirvalda og muna að handþvottur er áhrifarík sóttvörn. 

Vegna COVID-19 verður höfuðþunginn á rafræna kennslu þetta haust en við leggjum líka kapp á að nýta möguleika til staðkennslu, sérstaklega fyrir ykkur nýnema. Þið verðið upplýst nánar um kennsluna innan ykkar eininga og deilda og hvet ég ykkur til að vera dugleg við að leita upplýsinga þar.  

Öflug upplýsingatækni verður lykill að námsframvindu þinni þetta haustið og í raun allan tímann í Háskóla Íslands. Því skiptir afar miklu að kynna sér vel alla þætti sem að henni snúa. Háskóli Íslands styðst t.d. við námsumsjónarkerfið Canvas og hér má finna myndband sem útskýrir notkun þess. Nemendur eru hvattir til að sækja Canvas Student appið og geta skoðað hér svör við algengum spurningum sem upp koma um kerfið.  

Háskólanám kallar á sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði hvers og eins. Ég hvet þig til að taka námið föstum tökum frá byrjun og vinna vel allt misserið. Það mun skila bestum árangri. Meginhlutverk háskóla er að stuðla að skilningi á margflóknum veruleika, efla starfshæfni, þroska rökhugsun og auðga heimsmynd ykkar. Þetta hlutverk tekur Háskóli Íslands mjög alvarlega og leggur metnað í að taka vel á móti þér og öðrum nýnemum við flóknar aðstæður og tryggja ykkur trausta og viðurkennda menntun sem nýtist hvert sem förinni er heitið í framhaldinu. 

Stundum er sagt að seiglan einkenni íslenskt samfélag umfram margt annað og ég er viss um að hún verði meginstyrkur ykkar nemenda á fyrstu vikunum í Háskóla Íslands og í raun áfram í öllu námi ykkar hér. 

Verum minnug þess að núverandi ástand er einungis tímabundið og ég óska þér velgengni í námi og starfi. 

Ég býð þig og aðra nýnema hjartanlega velkomna í Háskóla Íslands.  

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Nýnemar í skeifunni við Aðalbygginu
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands