Skip to main content
5. nóvember 2021

HÍ skipar sér í allra fremstu röð á 110 ára afmælinu

HÍ skipar sér í allra fremstu röð á 110 ára afmælinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (5. nóvember):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

„Mjór getur verið mikils vísir.“

Svona komst Björn M. Ólsen, fyrsti rektor Háskóla Íslands, að orði í setningarræðu sinni fyrir réttum 110 árum þegar Háskóli Íslands var stofnaður á Alþingi. Það má með sanni segja að þessi orð hafi gengið eftir þegar við horfum til hins örsmáa háskóla, sem hafði ekki einu sinni eigið húsnæði, með einungis 45 nemendur og 11 fasta kennara, þróast í að verða öflugur alhliða rannsóknaháskóli sem starfar á fimm fræðasviðum í 26 metnaðarfullum deildum með miklum fjölda rannsóknastofnanna sem helga sig af krafti mikilvægum rannsóknum og áskorunum. 

Þið, kæru nemendur, eruð núna hartnær 16 þúsund og fast starfsfólk er nærri 1.500 talsins sem starfar í fjölda bygginga Háskólans sem hýsa kennslu og rannsóknir á heimsmælikvarða. Háskólar eru þekkingaveitur sem leita markvisst lausna og breyta heiminum með kennslu, rannsóknum og nýsköpun. Á því sviði hefur starfsfólk Háskólans og nemendur hans lagt afar mikilvæg lóð á vogarskálarnar.  

Í dag ætlar starfsfólk HÍ að fagna því að 110 ár eru liðin frá því að þessi litli skóli við Austurvöll hóf starfsemi, skóli sem hefur vaxið og dafnað með ævintýralegum hætti og raðast nú með þeim allra bestu í veröldinni. Það fengum við staðfest enn á ný í vikunni þegar tilkynnt var að HÍ væri í hópi 300 bestu háskóla heims á sviði hugvísinda samkvæmt nýjum lista tímaritsins Times Higher Education. HÍ hefur því í ár komist á alls níu lista tímaritsins sem taka til frammistöðu háskóla á afmörkuðum fræðasviðum. Þar að auki komst HÍ á 14 lista ShanghaiRanking Consultancy yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum sem birtir voru fyrr á árinu. Þetta undirstrikar ekki bara alhliða styrk skólans heldur líka vægi prófgráðanna sem veittar eru frá HÍ en þær opna aðgengi að atvinnulífi og framhaldsnámi um víða veröld. 

Háskóli Íslands mun leiða norrænt samstarf á sviði NUAS, samvinnuvettvangs starfsfólks í stjórnsýslu háskóla á Norðurlöndunum, næstu tvö árin. Guðmundur Ragnar Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu, hefur tekið við sem formaður NUAS. 

Markmið NUAS er að bæta starf háskóla á sem flestum sviðum og miðla þekkingu innan stjórnsýslu þeirra, byggja upp mikilvægt tengslanet milli fólks innan sama geira á Norðurlöndunum og stuðla að faglegri þróun starfsfólks. 

Það er verulega ánægjulegt að Háskóli Íslands leiði þetta starf nú um stundir þegar augu okkar eru á alþjóðastarfi í áherslum nýrrar stefnu skólans. 

Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Því miður berast nú fregnir af örum vexti COVID-faraldursins í samfélaginu. Sýnum áfram þá samstöðu og seiglu sem hefur leitt okkur ítrekað út úr kófinu. Fylgjum sóttvarnarreglum. Hreinlæti er frumforsendan í einstaklingsbundnum sóttvörnum. Þvoum hendur og sprittum. Rannsóknir sýna að notkun hlífðargríma dregur úr líkum á smiti. Förum beint í sýnatöku ef við finnum fyrir einkennum og mætum alls ekki á háskólasvæðið eða á samkomur við slíkar aðstæður. 

Förum að öllu með gát kæru nemendur og samstarfsfólk. Fátt er líklegra til að treysta það mikilvæga starfsumhverfi sem við nú höfum.

Góða helgi. 

Jón Atli Benediktsson, rektor.“
 

""