Skip to main content
20. janúar 2022

HÍ og Kaupmannahafnarháskóli með risanetnámskeið í sniðlækningum

HÍ og Kaupmannahafnarháskóli með risanetnámskeið í sniðlækningum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nú stendur yfir samnorrænt netnámskeið í sniðlækningum sem Háskóli Íslands stendur að ásamt Kaupmannahafnarháskóla. Tvennt vekur einna mesta athygli varðandi námskeiðið. Annað er að Kaupmannahafnarháskóli hefur ekki áður komið að gerð svo umfangsmikils netnámskeiðs. Hitt er að námskeiðið tekur fyrir sniðlækningar, stundum kallaðar einstaklingsmiðaðar lækningar (e. personalised/precision medicine) sem er nýlegt hugtak á sviði heilbrigðisþjónustu. Sniðlækningar eru algjörlega öndverðar við það þegar allir með tiltekinn sjúkdóm fá sömu meðferð. Í sniðlækningum er þjónustan sérniðin að hverjum og einum.

„Markmiðið er að einstaklingsmiða meðferð með því nýta alla þá þætti sem hafa sýnt gagnreynd tengsl við áhættu, horfur eða meðferðarsvörun, til að velja besta meðferðarkostinn fyrir hvern einstakling á hverjum tímapunkti og forða honum frá ónauðsynlegri meðferð, aukaverkunum og kostnaði.“ 

Þetta segir Sædís Sævarsdóttir, prófessor í sniðlækningum við Læknadeild Háskóla Íslands, gigtarlæknir á Landspítala og vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hún er jafnframt umsjónarkennari námskeiðsins fyrir hönd HÍ ásamt Sisse Rye Ostrowski, prófessor við Læknadeild Kaupmannahafnarháskóla.

Þær stöllur fengu 33 sérfræðinga frá öllum Norðurlöndunum til að taka þátt í þessu verkefni með sér. Námskeiðið er í sex hlutum með alls 30 stuttum myndböndum sem nálgast efnið frá ýmsum hliðum, ýmist í formi fyrirlestra, viðtala eða umræða, auk ítarefnis í formi greina og tengla á gagnlegar vefsíður og tæki. Íslensk erfðagreining lagði til hluta af þeirri mikilvægu vinnu sem fór í kvikmyndun í verkefninu. 

Hér er stutt kynning á námskeiðinu:

 

Sniðlækningum ætlað að stórbæta læknisþjónustu

Sædís segir að námsefnið verði til að byrja með valáfangi á lokaári læknanema en verði einnig nýtt sem hluti sérnáms og endurmenntunar heilbrigðisstarfsfólks í Danmörku og raunar um allan heim enda sé það ókeypis og öllum opið. „Við vonumst til að námskeiðið auki þekkingu um hvernig nýta má möguleika sniðlækninga til að bæta heilbrigðisþjónustu, en þetta er þverfaglegt efni sem ekki hefur áður verið kennt í háskólanámi,“ segir Sædís. 

„Einnig vonumst við til að það auki tengsl grunnvísinda við klíníska þjónustu og hjálpi fólki að skilja þær áskoranir sem eru til staðar og hvernig samstarf og nýting tækninýjunga er lykillinn að því að skapa heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar. Norðurlöndin eiga svo margt sameiginlegt hvað varðar samfélagsinnviði, eins og heilbrigðisþjónustuna með víðtækri rafrænni skráningu, gæðagagnagrunna og lífsýnasöfn, auk ramma um siðareglur og persónuvernd, en allt þetta eru forsendur þess að þróa og nýta sniðlækningar.“

Sædís segist vona að námskeiðið veki einnig áhuga rannsóknarnema í lífvísindum, lögfræði, siðfræði og fleiri greinum „enda er lögð áhersla á skilning og möguleika gegnum þverfaglega nálgun“.

Segja má að námskeiðið sé algerlega í takti við nýja stefnu Háskólans, HÍ26, en þar er áhersla á alþjóðlegt samstarf háskóla, upplýsingatækni, notendamiðaða þjónustu og stafræna umbyltingu hennar. Námskeiðið hefur einnig í fókus nýsköpun í heilbrigðisþjónustu þar sem áhersla er á að draga úr kostnaði við rekstur hennar en bæta um leið gæði og meðferð sjúklinga. Hér er því mörgu sinnt sem skiptir samfélagið miklu.

Hvað eru sniðlækningar?

Þegar Sædís er spurð nánar út í sniðlækningar skortir ekki svör. „Einstaklingsbundnir þættir sniðlækninga geta verið af ýmsum toga, í raun allt sem gagnast til að spá fyrir um áhættu og eða horfur. Þetta geta verið klínískir þættir, rannsóknaniðurstöður, þ.m.t. myndgreining, blóðgildi próteina og erfðaþættir, aldur, kyn, menntun, starf og ekki síst lifnaðarhættir á borð við reykingar, áfengisneyslu og mataræði og aðrir umhverfisþættir.“

Sædís segir að hugtakið nái því frá grunnrannsóknum til klínískrar þjónustu og sé leið til að takast skipulega á við þá áskorun að þekking aukist gríðarlega hratt og brúa þurfi bilið yfir í klíníkina. „Til að slíkar upplýsingar gagnist í klínísku starfi þarf að þróa spálíkön sem eru aðgengileg fyrir bæði heilbrigðisstarfsfólk og sjúklinga með hjálp snjalltækja enda er tilgangurinn að gera upplýsingar um áhættu og meðferðarkosti aðgengilegar. Þannig sparast bæði peningar og tími þegar við getum beitt hnitmiðuðum forvörnum, snemmgreiningu og kjörmeðferð. Lækningar hafa auðvitað frá örófi alda snúist um að taka tillit til sem flestra þátta þegar meðferð er valin en upplýsingamagnið er slíkt í dag að það kallar á nýjar aðferðir.“

„Faraldurinn hefur einnig sýnt okkur hvernig snjalltæki og rafræn upplýsingaskráning sjúklinga eru lykilatriði til að fá sem réttasta mynd af stöðunni þar sem gögnum er safnað með skipulegum hætti í sem mestri upplausn frá sem flestum einstaklingum,“ segir Sædís Sævarsdóttir. MYND/Landspítalinn/Þorkell Þorkelsson

Kórónufaraldurinn dregið jákvæða athygli að sniðlækningum

Nú hefur kórónufaraldur geisað í heiminum í tvö ár og Sædís segir að COVID-19 hafi í raun skollið yfir okkur á sama tíma og ákveðið var að skapa þetta netnámskeið. „Faraldurinn hefur sannarlega sýnt okkur gildi þess að eiga námsefni á rafrænu formi og við sem höfum búið námskeiðið til höfum alfarið gert það yfir netið. Nemendur sækja í auknum mæli í námsefni á netinu og það er mikilvægt að slíkt námsefni sé aðlagað að íslenskum aðstæðum. Sem betur fer eru aðstæður á Norðurlöndunum oft svipaðar og við höfum langa hefð fyrir að sækja framhaldsnám til annarra norrænna ríkja svo það er kjörið að starfa saman á þessum vettvangi.“

Sædís segir að heimsfaraldurinn hafi svo einnig vakið sérstakan áhuga almennings á sniðlækningum. Hún segir að fólk hafi fylgst spennt með fréttum af því hvaða þættir tengist aukinni áhættu á að veikjast eða fá alvarlegan sjúkdóm. „Faraldurinn hefur einnig sýnt okkur hvernig snjalltæki og rafræn upplýsingaskráning sjúklinga eru lykilatriði til að fá sem réttasta mynd af stöðunni þar sem gögnum er safnað með skipulegum hætti í sem mestri upplausn frá sem flestum einstaklingum.“

Mikilvægt að huga að öryggi gagna

Sædís víkur líka að öryggi gagna en hún segir að rannsóknum sem nýti slík gögn fleygi fram „og auk þess að vinna slíkar rannsóknir í samvinnu við sjúklinga er auðvitað lykilatriði að gæta að upplýsingaöryggi og fara vel yfir siðfræðilegar og lagalegar hliðar í öllum skrefum þar sem við erum að fást við viðkvæmar persónuupplýsingar. En þar ber líka að hafa í huga að leiðin að betri meðferð fyrir sjúklinga er að nýta upplýsingar til að læra hvað skiptir máli og til að nálgast það heildrænt þarf að tengja saman ólíkar tegundir af upplýsingum um hvern einstakling, á dulkóðuðu formi, koma þeim á samræmanlegt form sem hægt er að vinna úr.“

Sædís segir mjög brýnt að gæðaprófa gögnin og skapa breytur sem hægt sé að rannsaka auk þess að þróa spálíkön sem síðan þurfi að gagnreyna áður en þau séu nýtt í heilbrigðisþjónustu. „Þetta er það sem netnámskeiðið fjallar um og gefur mörg dæmi um hagnýta notkun á sniðlækningum á Norðurlöndunum.“

Kjöraðstæður að stunda sniðlækningar á Norðurlöndum

Þegar vikið er að bakgrunni námskeiðsins segir Sædís að norrænu ríkin hafi á síðustu árum lagt áherslu á styrki til rannsókna á sviði sniðlækninga, ekki síst fyrir samstarfsverkefni milli landanna, enda hafa úttektir sýnt að það eru kjöraðstæður til að þróa og stunda sniðlækningar á Norðurlöndunum og til mikils að vinna úr heilsuhagfræðilegu sjónarmiði.

„Haldinn var stefnumótandi fundur í Kaupmannahöfn í febrúar 2020 á vegum Læknadeilda háskóla á Norðurlöndunum, með þátttöku fulltrúa rannsóknarsjóða, vísindafólks og stjórnmálafólks, þ.m.t. menntamálaráðherra Íslendinga. Markmiðið var að finna leiðir og nýta styrkleika Norðurlandanna til þess að mennta, rannsaka, þróa og hagnýta sniðlækningar. Eitt af því sem skorti var sameiginlegt námsefni í sniðlækningum. Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði og þáverandi deildarforseti Læknadeildar HÍ, fékk styrk frá samráðsnefnd rannsóknarráða Norðurlandanna ásamt öðrum í menntanefnd Læknadeilda á Norðurlöndum til að framleiða netnámskeiðið í samvinnu við Kaupmannahafnarháskóla. Háskólinn í Kaupmannahöfn er með samning við Coursera sem er einn stærsti vettvangur heims fyrir háskólanámskeið á netinu með meira en 80 milljónir notenda.”

Það eru margir nýsköpunarfletir í námskeiðinu en t.d. er í því fyrsta sameiginlega námsefnið sem búið er til fyrir læknanema á Norðurlöndum. „Það er auk þess, eins og allt efni á Coursera, á ensku og öllum opið á heimsvísu,“ segir Sædís.  

Mikilvægt að norrænir háskólar vinni saman

Sædís segir það mjög mikilvægt að norrænir háskólar leggi saman krafta sína eins og gert er í þessu verkefni og til mikils sé að vinna. „Sniðlækningar eru eitt af mörgum sviðum læknisfræðinnar sem eru í örri framþróun. Norrænu ríkin eru þegar í miklu samstarfi og við erum sterkari saman og það er engin ástæða til að finna upp hjólið hver í sínu horni. Við í HÍ og samstarfsfólk okkar í Kaupmannahafnarháskóla drógum vagninn við að skapa þetta námskeið en um leið skapast dýrmætt tengslanet við sérfræðinga á Norðurlöndunum á þessu sviði. Ég sé fyrir mér að hægt sé að þróa svona námskeið á mörgum sviðum og þar sé HÍ stundum í aukahlutverki og stundum í aðalhlutverki. Gagnið sem þetta hefur er ómælt, bæði hvað varðar að skapa námsefnið og ekki síður samstarfið sem getur fylgt í kjölfarið í rannsóknum og starfi.“

Sædís Sævarsdóttir