Skip to main content
4. október 2020

Hertar aðgerðir innan Háskóla Íslands

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (4. október):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Því miður hafa sóttvarnaryfirvöld enn á ný þurft að grípa til hertra aðgerða til að sporna við útbreiðslu COVID-19. Til að auka möguleika á starfi innan háskóla og framhaldsskóla landsins verða fjöldamörk eilítið rýmri þar en almennt gildir í samfélaginu.  

Miðast þau við að ekki megi fleiri koma saman í hverju kennslurými í Háskóla Íslands en 30 manns.  Þetta gerir okkur áfram kleift að halda úti verklegri kennslu í húsnæði Háskólans. Almennt er þó hvatt  til þess að kennsla verði rafræn en fræðasviðum er áfram heimilt að skipuleggja kennslu í litlum hópum innan takmarkana sóttvarnaryfirvalda hverju sinni. Einnig er áhersla lögð á að allir fundir verði rafrænir. 

Vegna þessara tímabundnu samkomutakmarkanna verða vinnu- og lesrými grunn- og meistaranema almennt lokuð. 

Íþróttahúsið er lokað tímabundið vegna þessara samkomutakmarkana. 

Fyllstu sóttvarnaráðstafana verður gætt innan Háskólans. Sameiginlegir snertifletir verða sótthreinsaðir a.m.k. einu sinni á dag. Áríðandi er að kynna sér vel sóttvarnarhólf í byggingum Háskólans en enginn samgangur má vera á milli hólfa. Þetta á við um salernisaðstöðu, veitingasölu og þar sem önnur þjónusta er veitt. Gangar eru ferðarými ásamt og inn- og útgöngum og þar á fólk að nota hlífðargrímur.  

Til að draga úr smithættu verður starfsfólki í stjórnsýslu og í opnum rýmum skipt upp í tvo eða þrjá hópa eftir nánari ákvörðun næstu stjórnenda. Sama gildir um doktorsnema sem vinna í opnum rýmum. Þetta hefur einnig áhrif á þá sem deila skrifstofum. Tilhögun þessa verður tilkynnt innan hverrar einingar ekki síðar en á morgun, mánudaginn 5. október. 

Starfsfólk með undirliggjandi sjúkdóma eða í sérstökum áhættuhópum er hvatt til að ráðfæra sig við næstu stjórnendur varðandi vinnufyrirkomulag og mögulega heimavinnu.

Nemendur og starfsmenn eru hvattir til að koma með nesti í skólann.

Þessar aðgerðir taka gildi strax og bið ég ykkur góðfúslega, kæru nemendur og kennarar, að búa ykkur undir þessa breyttu tilhögun sem er tímabundin.

Þessi þróun er vissulega á annan veg en við vonuðust til en með því að stilla saman strengina náum við að halda uppi starfi og gæðum þess eins og kostur er miðað við aðstæður. 

Ég minni á að handþvottur, sprittun handa, góð fjarlægð milli manna, notkun hlífðargríma og aðrar einstaklingsbundnar smitvarnir gefa besta raun. Fylgjum reglum almannavarna. Verum heima ef minnstu einkenna er vart. Hlöðum niður smitrakningarappi landlæknis.

Gangi ykkur öllum vel í vikunni fram undan. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Nemandi með grímu