Skip to main content
27. nóvember 2020

Helgarkveðja rektors 27. nóvember

Helgarkveðja rektors 27. nóvember - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (27. nóvember):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Í næstu viku fögnum við aldarafmæli Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hlutverk Stúdentaráðs er fyrst og síðast að gæta hagsmuna stúdenta við Háskólann og hefur starf samtakanna skipt verulegu máli, ekki einungis fyrir stúdenta heldur fyrir Háskóla Íslands og samfélagið allt í heila öld. Til hamingju stúdentar!

Fjölmargir leiðtogar stúdenta hafa látið að sér kveða í samfélagi og atvinnulífi í áranna rás. Í vikunni bárust okkur fréttir af því að Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands og samtaka stúdenta í evrópska Aurora-háskólanetinu, hefði verið valin framúrskarandi ungur Íslendingur fyrir framlag sitt á sviði mannúðar- og sjálfboðaliðamála. 

Þetta er eitt dæmi af mörgum um þau áhrif sem brautskráðir nemendur Háskóla Íslands hafa í íslensku samfélagi, en nýverið var staðfest Háskólinn tilheyrir hópi þeirra háskóla á heimsvísu sem búa nemendur sína hvað best undir þátttöku í atvinnu- og þjóðlífi. Það er sannarlega dýrmæt staðfesting. 

Nú er unnið að stefnumótun fyrir næstu fimm ár við Háskóla Íslands og er markmiðið að gera góðan háskóla enn betri. Við mótun stefnunnar er lögð rík áhersla á opið og víðtækt samráð við alla hagaðila innan og utan Háskólans. Því hefur sérstök gátt verið opnuð á vefnum þar sem þið eruð öll hvött til að hafa bein áhrif á framtíð og stefnu skólans. 

Sjaldan hefur verið jafnskýrt og á þessu ári hversu öflugum mannauði Háskóli Íslands hefur á að skipa. Í vikunni fram undan munum við heiðra starfsmenn innan skólans fyrir lofsverðan árangur í starfi. Viðurkenningarnar verða veittar á upplýsingafundi rektors sem verður streymt á netinu þann 3. desember nk.

Nú er aðventan að ganga í garð og verður hún eins og annað með breyttu sniði vegna heimsfaraldurs. Messa guðfræðinema verður þannig með öðru lagi en venjulega og hátíð brautskráðra doktora, sem haldin hefur verið á fullveldisdaginn 1. desember, verður með breyttu sniði. Við fögnum árangri þeirra 70 einstaklinga sem vörðu doktorsverkefni sín á árinu með sérstöku myndbandi sem verður frumsýnt á fullveldisdaginn. Efling doktorsnáms við Háskóla Íslands hefur verið einn mikilvægasti vaxtarbroddur starfseminnar á síðustu árum enda er óumdeilt að menntun, rannsóknir og nýsköpun eru gjaldmiðlar framtíðarinnar.

Kæru nemendur. Lokapróf í Háskóla Íslands hefjast í næstu viku og krefjast þau mikils undirbúnings og einbeitingar af ykkar hálfu. Ég vona svo sannarlega að ykkur gangi vel í prófunum. Ég vil minna á að ítrustu sóttvarna verður gætt í öllum staðprófum og reglugerð heilbrigðisyfirvalda hlítt í hvívetna. Ég minni í þessu sambandi á síðuna „Spurt og svarað um lokapróf“ á vefsvæði skólans.

Við höfum séð í fréttum vikunnar að nýsmitum hefur því miður ekki fækkað eins og margir væntu og því er ekki tilefni til að slaka á persónubundnum sóttvörnum. Þetta er ekki búið. Eftir sem áður eru þó fjölbreyttar leiðir til að njóta margs sem almennt er tengt undirbúningi jóla og áramóta. Njótum því aðventunnar og helgarinnar fram undan sem best við megum og sýnum aðgát. 

Jón Atli Benediktsson, rektor.“

Aðalbygging í snjó