Skip to main content
23. nóvember 2020

Elísabet valin Framúrskarandi ungur Íslendingur

""

Elísabet Brynjarsdóttir, fyrrverandi forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Stúdentaráðs Aurora-háskólanetsins, var á dögunum valin Framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2020 fyrir framlag sitt á sviði mannúðar- og sjálfboðaliðamála.

Það er JCI-hreyfingin á Íslandi sem veitir viðurkenninguna en þau eru hluti af alþjóðlegri viðurkenningu sem JCI stendur fyrir um allan heim til að vekja athygli á því sem er vel gert og einnig til að hvetja annað ungt fólk til dáða.

Þetta var í 19. sinn sem verðlaunin voru veitt hér á landi. Dómnefnd tilnefndi eins og áður tíu einstaklinga til verðlaunanna og hlutu þau öll viðurkenningu fyrir að vera Framúrskarandi ungir Íslendingar vegna einstaks framlags þeirra til íslensks samfélags. Í hópnum eru nokkrir núverandi og fyrrverandi nemendur Háskóla Íslands.

Verðlaunin sjálf voru síðan veitt einum einstaklinganna sem þótt skara sérstaklega fram úr og sem fyrr segir varð Elísabet Brynjarsdóttir fyrir valinu að þessu sinni. Elísabet tók við verðlaununum úr hendi Guðlaugar Birnu Björnsdóttur, landsforseta JCI Íslands, þann 18. nóvember síðastliðinn. 

Elísabet braustskráðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2017 en í námi sínu átti hún meðal annars þátt í að setja fót geðfræðslufélagið Hugrúnu ásamt fleiri nemendum í hjúkrunarfræði, sálfræði og læknisfræði við Háskóla Íslands. Félagið fræðir ungt um geðheilbrigði og þau úrræði sem því stendur til boða. Elísabet var m.a. formaður félagsins veturinn 2017-2018.

Veturinn 2018-2019 gegndi Elísabet embætti forseta Stúdentaráðs Háskóla Íslands og kom m.a. stofnun loftslagsverkfallsins hér á landi í störfum sínum þar. Þá var hún einnig kosin forseti Stúdentaráðs Aurora 2018-2020, en um er að ræða samstarfsnet níu virtra evrópskra háskóla sem Háskóli Íslands á aðild að. Sem forseti ráðsins var Elísabet í forsvari fyrir alls 230 þúsunds stúdenta innan netsins og líklega hefur enginn íslenskur stúdentaleiðtogi leitt áður jafnstóran hóp stúdenta í alþjóðlegu umhverfi.

Unnið þrekvirki í vitundarvakningu um fíknivanda

Elísbet starfar nú sem verkefnastjóri Frú Ragnheiðar, skaðaminnkandi þjónustu Rauða krossins, en áður en hún varð verkefnastjóri vann hún sem hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði í tvö ár. Hún hóf enn fremur feril sinn í verkefninu sem sjálfboðaliði áður en hún var ráðin til starfa.

„Sem verkefnastjóri hefur hún unnið ótrúlegt þrekvirki við skipulagningu starfsins og vitundarvakningu um orsakir, eðli og afleiðingar vímuefnavanda fyrir einstaklinginn, svo og samfélagið í heild eins og aðstæður heimilislausra og þeirra sem minna mega sín. Hún er ötul baráttukona jaðarsettra hópa, til dæmis heimilislausra og þeirra sem nota vímuefni í æð.

Hún fræðir almenning um stöðu fólks með vímuefnavanda og brennur svo heitt fyrir málefninu. Hún hefur tekið að sér það hlutverk að reyna sýna þjóðinni að fólk er fólk, alveg sama í hvaða aðstæðum það hefur lent og allir eiga skilið mannúð og virðingu,“ segir í umsögn dómnefndar dómnefndar JCI.

Háskóli Íslands óskar Elísabetu innilega til hamingju með viðurkenninguna Framúrskarandi ungur Íslendingur.

Elísabet Brynjarsdóttir