Skip to main content
16. júní 2018

Elísabet kosin forseti stúdentaráðs Aurora

""

Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, hefur verið kosin forseti Stúdentaráðs Aurora, sem er samstarfsnet níu virtra evrópskra háskóla sem eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á hágæðarannsóknir, samfélagslega ábyrgð og að gera samfélögum betur kleift að takast á við áskoranir samtímans. Háskólar í Aurora eiga það einnig sameiginlegt að vera mjög öflugir í rannsóknum samkvæmt mati Times Higher Education University Ranking (THE) sem birtist meðal annars í miklum áhrifum rannsókna sem stundaðar eru innan skólanna. Matslisti THE er einn sá virtasti í heimi á þessu sviði. 

Sem forseti mun Elísabet leiða stúdentaráð Aurora og hafa yfirumsjón með starfi þess frá degi til dags. Samanlagður fjöldi stúdenta innan netsins er um 230.000, og sem forseti er Elísabet í forsvari fyrir þennan stóra hóp stúdenta. Líklega hefur enginn íslenskur stúdentaleiðtogi leitt áður jafnstóran hóp stúdenta í alþjóðlegu umhverfi. 

„Verkefni sem eru meðal annars á borði mínu í augnablikinu er að skipa fulltrúa stúdenta í vinnuhópa innan Aurora sem snúa til dæmis að alþjóðamálum, jafnréttismálum og sjálfbærni, halda áfram með vinnu við undirbúning alþjóðlegs íþróttamóts Aurora-stúdenta, styrkja alþjóðlegt nám og námsmöguleika fyrir stúdenta innan samstarfsnetsins og undirbúa og stýra fundum stúdenta, bæði í gegnum netið og á ráðstefnum,“ segir Elísabet um þetta nýja hlutverk sitt.  

Styrkir alþjóðlega stöðu Háskóla Íslands
„Samstarfsnetið skapar mikilvægan vettvang þar sem háskólar geta bæði litið út fyrir sinn ramma og séð hvað aðrir eru að vinna að og gera vel sem og deilt góðum starfsháttum,“ segir Elísabet um samstarfsnetið. „Þannig er hægt að tileinka sér nýja og framsæknari starfshætti á auðveldari máta og ekki þarf alltaf að finna upp hjólið í hvert sinn. Sömuleiðis styrkir þetta alþjóðlega stöðu Háskóla Íslands þar sem við fáum meira vægi í alþjóðlegri umræðu um menntamál og netið skapar tækifæri, bæði fyrir starfsfólk skólans sem og stúdenta, sem annars væru ekki fyrir hendi.“ 

Elísabet segir að stúdentar innan Aurora haldi bæði sjálfstæða fundi þar sem stúdentar deili hugmyndum og verkefnum hagsmunabaráttunnar innan háskólanna og taki einnig þátt í nær allri vinnu sem eigi sér stað innan netsins. „Forseti stúdentaráðs Aurora á sæti á stjórnarfundum Aurora og leitað er til hans með flest öll verkefni sem eru í gangi í hvert sinn innan samstarfsnetsins. Með því að taka við forsetastöðunni í þessu neti felst gríðarlegt tækifæri, bæði fyrir stúdentabaráttuna á Íslandi þar sem forseti er í lykilstöðu varðandi öll þau alþjóðamál sem Aurora tekur fyrir í hvert sinn og hægt er að yfirfæra margt yfir á hagsmunabaráttu okkar innan Stúdentaráðs þar sem ég sit einnig sem forseti. Þá getur forseti stúdenta Aurora einnig lagt fram nýjar áherslur innan samstarfsnetsins.“ 

Bar sigurorð af sitjandi forseta 
Kosningar í stöðu forseta stúdentaráðs Aurora eru haldnar árlega þar sem allir fulltrúar stúdenta innan netsins geta boðið sig fram. „Kosningarnar fóru fram á ráðstefnu Aurora í byrjun maí í Essen í Þýskalandi þar sem ég bauð mig fram gegn þáverandi forseta samtakanna. Haldin er leynileg kosning meðal allra fulltrúa stúdenta og fór svo að ég fékk meirihluta atkvæða. Ég fékk tækifæri til að halda framboðsræðu þar sem ég lagði áherslu á að tekið yrði samtal um geðheilbrigðismál innan netsins ásamt stöðu flóttafólks. Þetta virtist tala til fulltrúa stúdenta þar sem það fór þannig að ég verð starfandi forseti stúdenta í Aurora næsta árið.“ 

Háskólar í Auroa eru auk Háskóla Íslands, Grenoble-Alpes háskóli (Frakklandi), Háskólinn í Aberdeen (Skotlandi), Háskólinn í Antwerpen (Belgíu), Háskólinn í Björgvin (Noregi), Háskólinn í Duisburg-Essen (Þýskalandi), East Anglia háskóli (Englandi), Gautaborgarháskóli (Svíþjóð) og Vrije-háskóli í Amsterdam (Hollandi).

Hver er Elísabet Brynjarsdóttir?
Elísabet Brynjarsdóttir er fædd og uppalin í Garðabæ og er 25 ára gömul. Hún er hjúkrunarfræðingur og hyggst halda áfram í framhaldsnám í geðhjúkrun eða alþjóðasamskiptum eftir starfsár sitt hjá Stúdentaráði og Aurora. Hún er eins og áður sagði forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands og var oddviti Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands. Elísabet brautskráðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands í júní fyrir réttu ári og starfaði sem teymisstjóri hjá heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar til hún tók við stjórnartaumum í Stúdentaráði.  Elísabet var formaður Hugrúnar – geðfræðslufélags háskólanema, sem hún tók þátt í að stofna árið 2016 ásamt nemendum í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði við Háskóla Íslands. 
 

Elísabet Brynjarsdóttir