Skip to main content
18. september 2020

Helgarkveðja

Helgarkveðja - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (18. september):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Í þessari viku sem nú er að ljúka höfum við fundið hvernig alvara heimsfaraldursins snertir okkur beint. Neyðarstjórn skólans hefur því fundað daglega til að fara yfir stöðuna. Vissulega er þetta mikil áskorun en við höldum engu að síður ótrauð áfram af þeirri seiglu sem hefur einkennt allt okkar starf. Við leggjumst öll á eitt við að tryggja gæði náms við skólann sem verður áfram með óbreyttu sniði. 

Þakkarvert eru hversu mikill fjöldi lagði leið sína í skimun í gær en eitt staðfest smit bættist við þau fimm sem fyrir voru. Um er að ræða starfsmann skólans úr Aðalbyggingu. Allar ráðstafanir hafa verið gerðar sem tengjast þessu eina smiti. 

Skimun verður áfram í boði Íslenskrar erfðagreiningar. Ég vil hvetja þau ykkar sem ekki hafa nýtt þetta úrræði til að bóka tíma. Boðslykill okkar er HI_COVID

Starfið er smám saman að færast í það horf sem við þekkjum og stefnt er að opnun Hámu á mánudag. Munum samt alltaf að hlutir geta sveiflast eftir aðstæðum. 

Handþvottur og aðrar einstaklingsbundnar smitvarnir eru besta vörnin. Fylgjum reglum almannavarna og tökum 1 m fjarlægðarmörkin mjög alvarlega. Verum heima ef minnstu einkenna er vart. Hlöðum niður smitrakningarappi landlæknis. 

Haustið, hvílíkur léttir, orti Bragi Ólafsson og brá upp myndum af ilmandi skólatösku og bókum. Nú er einmitt tíminn þegar skólarnir lifna og halda sínu striki og náttúran skartar miklum litum. Njótum þeirra og helgarinnar eins og öllum er framast unnt en göngum af ábyrgð inn um gleðinnar dyr. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Háskólatorg.