Skip to main content
26. október 2017

Helga hlýtur inngöngu í Bandarísku hjúkrunarakademíuna

Helga Jónsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, hefur hlotið inngöngu í Bandarísku hjúkrunarakademíuna (American Academy of Nursing) fyrir rannsóknir sínar og þróun á heildrænni hjúkrun fyrir fólk með langvinna sjúkdóma.

Aðild að Bandarísku hjúkrunarakademíunni hljóta þeir sem hafa skarað fram úr í starfi við hjúkrun en samtökin eru meðal þeirra virtustu á sviði hjúkrunarfræði í heiminum. Inngöngunni fylgir nafnbótin „Fellow of the American Academy of Nursing“ (FAAN). 

Rannsóknir Helgu hafa beinst að hjúkrun langveikra og þá einkum sjúklinga með lungna- og taugasjúkdóma og fjölskyldum þeirra. Einkenni og reynsluheimur sjúklinga, þróun og prófun hjúkrunarmeðferða og þróun og mat á hjúkrunarþjónustu hafa verið meginviðfangsefni þessara rannsókna. Rannsóknirnar hafa verið unnar í samvinnu hjúkrunarfræðinga í framhaldsnámi, sérfræðinga í hjúkrun og læknisfræði og í vaxandi mæli erlendra samstarfsaðila.

Helga lauk prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1981. Hún lauk meistaraprófi í hjúkrunarfræði frá Háskólanum í Minnesota í Bandaríkjunum árið 1988 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1994. Í doktorsverkefni sínu fjallaði Helga um lífsreynslu fólks með langvinna lungnasjúkdóma. Helga hefur átt sæti í innlendum og alþjóðlegum nefndum um hjúkrun lungnasjúklinga og setið í ritstjórn alþjóðlegra fagtímarita, fagráði RANNÍS og stýrt alþjóðlegum ráðstefnum. Hún hefur verið virk í uppbyggingu náms og rannsókna í hjúkrunarfræði á Íslandi. Síðustu fjögur árin var hún deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar. Hún er forstöðumaður fræðasviðs um hjúkrun langveikra á Landspítala og prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. 

Í Bandarísku hjúkrunarakademíunni eru um 2400 meðlimir og þeirra á meðal flestir fremstu leiðtogar heims í hjúkrunarfræði, hvort sem er á sviði menntunar, starfa, stjórnunar eða rannsókna. Samtökin voru stofnuð árið 1973 en markmið þeirra er að þjóna almenningi og hjúkrunarstéttinni með því að móta, samþætta og breiða út þekkingu í hjúkrunarfræði og hafa þannig áhrif á stefnumótun í heilbrigðismálum. 

Helga Jónsdóttir