Skip to main content
26. janúar 2021

Hátt í hundrað milljónir til menntarannsókna frá Evrópusambandinu

Hátt í hundrað milljónir til menntarannsókna frá Evrópusambandinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kennarar og rannsakendur á Menntavísindasviði Háskóla Íslands eru á meðal þátttakenda í þremur nýjum samstarfsverkefnum sem hlutu á dögunum veglega styrki úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Samanlögð upphæð stykjanna nemur nærri eitt hundrað milljónum króna. 

Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningarfræðum, stýrir verkefniu Promoting Cultural diversity in primary and lower-secondary schools (DIVERS-CULT) sem miðar að því að auka þekkingu nemenda og kennara á fjölbreytileika í skólum.  

„Verkefninu er skipt í tvo meginhluta. Annars vegar viljum við skilgreina þvermenningarlega hæfni og þróun viðmiða sem byggjast m.a. á rammaáætlun UNESCO og hins vegar þróa tæki og leiðarvísi um fjölmenningarlega menntun fyrir kennara. Ætlunin er að nýta tækin til að auka hæfni kennara og nemenda, auka sköpun, samskipti nemendahópa og tækifæri til ígrundunar,“ segir Hanna.

Auk Íslands eru þátttökulönd í verkefninu Ítalía, Litháen, Rúmenía og Kýpur og verður afraksturinn aðgengilegur á vef verkefnisins á næsta ári. 

Margrét Sigmarsdóttir, lektor í sálfræði, stýrir verkefninu SPARE (Strengthening parenting among refugees in Europe) en það er foreldrafærniúrræði fyrir flóttafólk í Evrópu. Markmið SPARE-verkefnisins er að nýta sannreynd foreldrafærniúrræði til að fyrirbyggja vanda barna á aldursbilinu 2-18 ára og bæta aðlögun fjölskyldunnar í nýjum heimkynnum. Samhliða því að styrkja foreldrana í sínu hlutverki er unnið með þætti tengda áfallavinnu með tilfinningaþjálfun og núvitund. 

„Börn innflytjenda eru oft undir miklu álagi og því í áhættu á að glíma við þrautir tengdar aðlögun á borð við hegðunarerfiðleika, kvíða, þunglyndi og áfallastreituröskun. Þá eiga þau á hættu að leiðast frekar en aðrir hópar út í misnotkun áfengis og vímuefna og eiga oftar í félagslegum erfiðleikum,“ segir Margrét.

Verkefnið er unnið í nánu samstarfi Íslands, Noregs, Danmerkur og Hollands en í þessum löndum er löng reynsla af innleiðingu aðferðafræðinnar. Samstarfsaðili Háskólans í verkefninu hérlendis er Reykjavíkurborg en þar er þremur hópum boðin þjónusta.

Tryggvi Thayer, kennsluþróunarstjóri Menntavísindasviðs, stýrir verkefninu Digital Firefly sem miðar að því að þróa stutt, hnitmiðuð netnámskeið um samþættingu frumkvöðlamenntunar í þeim aðstæðum sem nú eru nú uppi í skólum um allan heim. 

„Í heimsfaraldri kórónuveirunnar hafa kennarar þurft að takast á við margvíslegar óvæntar áskoranir sem fylgja því að fara alfarið úr hefðbundinni kennslu í fjarkennslu með skömmum fyrirvara. Það hefur orðið til þess að minni tími hefur gefist til að huga að samþættingarverkefnum í kennslu og innleiðingu nýrra kennsluhátta,“ segir Tryggvi. 

Auk Íslands taka Belgía, Finnland, Grikkland og Spánn þátt í verkefninu. 

Um Erasmus+

Erasmus+ er styrkjaáætlun Evrópusambandsins fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál. Áætlunin styður fjölbreytt samstarfsverkefni, nýsköpun í kennslufræðum, stefnumótun á öllum stigum, viðurkenningu á færni og margt fleira. 

Háskóli Íslands hefur verið virkur þátttakandi í Erasmus-samstarfi um árabil og leitast við að efla þátttöku alls háskólasamfélagsins í verkefnum Evrópusambandsins. Á Íslandi hýsir Rannís Landskrifstofu Erasmus+.

Kennarar og rannsakendur á Menntavísindasviði Háskóla Íslands eru á meðal þátttakenda í þremur nýjum samstarfsverkefnum sem hlutu á dögunum veglega styrki úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins.Frá vinstri: Hanna Ragnarsdóttir prófessor í fjölmenningarfræðum, Tryggvi Thayer kennsluþróunarstjóri Menntavísindasviðs, Margrét Sigmarsdóttir lektor í sálfræði. MYND/ Samsett