Skip to main content
27. mars 2020

Hátt í 200 sóttu menntabúðir á netinu

Þrátt fyrir samkomubann er starfsemi Menntavísindasviðs með líflegasta móti. Í vikunni stóðu kennarar við sviðið fyrir fjölmennum menntabúðum með fjarfundarsniði ásamt samstarfsfólki sínu við Háskólann á Akureyri. Tuttugu og fjórar vinnusmiðjur voru í boði og sóttu hátt í 200 manns menntabúðirnar af öllu landinu - og frá þremur heimsálfum! Fjölmargar leiðir og lausnir voru kynntar sem nýtast í fjar- og netnámi á mismunandi skólastigum. Verkefni og snjallforrit voru sýnd og rædd í menntabúðunum en eftir því hefur verið tekið hve hugmyndaríkir kennarar í skólum landsins hafa verið síðustu vikur, þar sem skólahald hefur ýmist legið niðri eða verið takmarkað. 

Sólveig Jakobsdóttir, prófessor í fjarkennslufræðum við Menntavísindasvið, er í forsvari fyrir menntabúðirnar. „Jafningjafræðsla kennara og fagfólks í skólum með menntabúðarsniði hefur notið sívaxandi vinsælda um allt land á undanförnum árum. Þessi tilraun okkar, að bjóða upp á tækifæri til sambærilegar fræðslu á netinu, tókst vonum framar. Umræða í lok búðanna og fyrstu niðurstöður könnunar meðal þátttakenda benda eindregið til þess að fólk hafi verið mjög ánægt með framtakið,“ segir hún. 

„Það hefur verið magnað að fylgjast með skólasamfélaginu undanfarnar vikur miðla sín á milli, gefa góð ráð og segja frá hugmyndum sínum. Þetta fer fram víða á samfélagsmiðlum, innan faghópa af öllu tagi. Þetta er spennandi þróun til viðbótar við það að hittast og ræða saman í rauntíma,“ segir Sólveig Jakobsdóttir, prófessor í fjarkennslufræðum við Menntavísindasvið, sem var í forsvari fyrir menntabúðirnar.

Vonir Sólveigar standa til þess að hægt verði að endurtaka leikinn fyrr en seinna. Hún segir að í raun þurfi fólk þó ekki að bíða eftir að fræðslan komi til þeirra því að í samfélagi kennara og skólafólks sé mikil þekking til staðar og einfalt mál fyrir marga að skipuleggja fjarmenntabúðir eða netráðstefnur. 

„Það hefur verið magnað að fylgjast með skólasamfélaginu undanfarnar vikur miðla sín á milli, gefa góð ráð og segja frá hugmyndum sínum. Þetta fer fram víða á samfélagsmiðlum, innan faghópa af öllu tagi. Þetta er spennandi þróun til viðbótar við það að hittast og ræða saman í rauntíma.“

Flest framlögin á netmenntabúðunum voru frá starfandi kennurum en einnig kynntu fulltrúar stofnana, skólaskrifstofa og fyrirtækja lausnir, hugmyndir, verkfærakistur og leiðir til eflingar náms og kennslu. „Hér gildir hið sama og annars staðar í samfélaginu á þessum óvenjulegu tímum: Stöndum saman og leitum lausna!“ segir Sólveig að endingu.

Ingvi Hrannar Ómarsson í menntabúðunum.