Skip to main content
12. nóvember 2021

Háskóli Íslands er háskóli okkar allra

Háskóli Íslands er háskóli okkar allra - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (12. nóvember):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Enn berast því miður tíðindi af vexti kórónaveirunnar hérlendis. Á miðnætti verður hert á fjöldatakmörkum í skólanum af sóttvarnaryfirvöldum og mega þá einungis 50 manns vera saman í einu tilteknu rými. Við höfðum nú þegar hert reglur í vikunni um nándarmörk og grímuskylda er í skólanum þar sem ekki er unnt að hafa 1 metra milli einstaklinga. Líkt og á fyrri misserum þar sem COVID-19 hefur haft áhrif á starf okkar munum við í einu og öllu fylgja tilmælum heilbrigðisyfirvalda við framkvæmd kennslu og prófa. Við viljum vernda þann mikilvæga árangur sem náðst hefur í Háskóla Íslands í baráttunni við veirufaraldurinn undanfarið og það verður best gert með einstaklingsbundnum sóttvörnum. Þvoum hendur, sprittum og notum grímu. Ef vart verður minnstu einkenna mætum við ekki á háskólasvæðið og förum strax í sýnatöku. 

Háskóli Íslands leggur áherslu á að rannsóknir ykkar, starfsfólks og nemenda, skili vísindalegum, samfélagslegum og efnahagslegum ávinningi, bæði fyrir íslenskt atvinnulíf og þjóðina alla. Í vikunni fórum við yfir mikilvægi þess að atvinnulíf og akademía leggi saman krafta sína í þágu samfélagsins á fundi um framtíð nýsköpunar. Viðburðurinn var í fundaröð okkar með líftæknifyrirtækinu Alvotech sem hefur reist höfuðstöðvar sínar á svæði Vísindagarða HÍ í Vatnsmýrinni.

Samstarf HÍ við Alvotech hefur reynst árangursríkt en fyrirtækið starfar einkum á sviði lyfjalíftækni sem er ört vaxandi iðnaður. Reynslan sýnir að með slíku samstarfi eflum við samstarf við íslenskt atvinnulíf og búum til spennandi tækifæri fyrir ungt fólk. Slíkt samstarf hefur bæði efnahagslega og samfélagslega þýðingu fyrir þjóðina. Þannig tryggjum við tækifæri fyrir komandi kynslóðir. 

Fullyrða má að frumkvöðlar þekkingarfyrirtækisins Controlant hafi sannarlega gripið tækifærin en á fundinum um framtíð nýsköpunar í vikunni voru fundargestir uppfræddir um ferðalag sprotafyrirtækis frá hugmynd í kennslustofu HÍ út í hina víðu veröld atvinnulífsins. Controlant hefur á undanförnum mánuðum ratað reglulega í fjölmiðla en vörur fyrirtækisins gegna m.a. lykilhlutverki í vöktun á bóluefni Pfizer gegn COVID-19 sem dreift er um heimsbyggðina. Færri vita hins vegar að fyrstu skref fyrirtækisins í nýsköpun voru tekin í Háskóla Íslands. Fyrstu hugmyndirnar urðu til í VR3 – steinsnar frá þeim stað sem hátæknifyrirtækið Marel varð til. 

Á málþinginu í fyrradag miðlaði einnig Þorsteinn Loftsson prófessor sinni merkilegu reynslu af nýsköpun og þróun hugmynda. Þorsteinn hefur um áratugaskeið verið meðal fremstu vísindamanna Háskóla Íslands á sviði lyfjaþróunar og fyrstur þeirra til að komast á lista yfir þá áhrifamestu í heiminum. Þorsteinn er ekki aðeins framúrskarandi vísindamaður heldur er hann einnig raðfrumkvöðull sem hefur náð afburðarárangri og tekið þátt í stofnun fjölda sprotafyrirtækja og þróun lausna sem nú eru margar varðar með einkaleyfum. 

Á háskólaþingi í gær höfðum við skipulagsmálin í háskerpu. Fátt er mikilvægara en samgöngumál í borgum og hvernig við tryggjum að sá stóri hópur sem hér stundar nám og starf komist að og frá háskólasvæðinu með einföldum, skjótum og sjálfbærum hætti. Eins ræddum við mikilvægi þess að háskólasvæðið taki utan um alla þá sem hér dvelja og stuðli að samheldnu háskólasamfélagi – hvort sem fólk komi hingað til búsetu, náms, starfs eða til þess eins að njóta hér þjónustu eða kynnast því mikilvæga starfi sem hér fer fram. 

Háskólasvæðið hefur mikla sögulega sérstöðu og er í nánum tengslum við friðlandið í Vatnsmýrinni, Tjörnina og miðborgina. Við viljum efla og rækta þessi tengsl og tryggja að hér verði blómlegt, heilsusamlegt og farsælt starfsumhverfi með vistvænar samgöngur sem stuðla að jöfnu aðgengi og samheldnu samfélagi.

Í ljóði sem skáldið Gerður Kristný flutti Háskóla Íslands í tilefni af 110 afmæli hans í vikunni sem leið segir að Háskólinn sé virki byggt úr þeirri bjargföstu trú að vernda skuli allt sem er gott og satt. „Á kvöldin lýsa kastarar upp virkisvegginn,“ yrkir skáldið. „Birtast þá menn á múrnum sem risar. Þannig er Háskólinn, stækkar okkur svo við megum vernda allt sem gott er og satt.“

Háskóli Íslands er háskóli okkar allra. Með rannsóknum leitum við þess sanna og leggjum krafta okkar í að uppgötva hið nýja – fletta hulunni af því sem enginn vissi áður. Þannig sköpum við nýja þekkingu.

Með kraftmiklu nýsköpunarstarfi stuðlum við saman að góðu lífi. 

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Sýnum áfram samstöðu og förum að öllu með gát. 

Góða helgi.

Jón Atli Benediktsson, rektor.“
 

Frá háskólasvæðinu