Skip to main content
16. september 2022

Háskóli Íslands eflir samband sitt við University of Minnesota 

 Háskóli Íslands eflir samband sitt við University of Minnesota  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Joan T.A. Gabel, rektor Minnesota-háskóla, undirrituðu í gær samning í Minneapolis í Bandaríkjunum um áframhaldandi fjölbreytt samstarf milli skólanna til næstu fimm ára. University of Minnesota og Háskóli Íslands hafa átt í samstarfi um um stúdenta-, kennara- og starfsmannaskipti í rétt 40 ár en háskólarnir fögnuðu saman þessum merka áfanga í Minneapolis í vikunni.  

Minnesota-háskóli var fyrsti erlendi skólinn sem HÍ gerði tvíhliða samstarfssamning við en hann var handsalaður árið 1982. Samningurinn við háskólann í Minnesota markaði þá upphaf að víðtæku alþjóðlegu samstarfi og umsvifum HÍ á alþjóðlegum vettvangi sem hefur blómstrað hvað ákafast undanfarin misseri í samstarfsnet Aurora-háskóla í Evrópu. Háskóli Íslands leiðir einmitt það samstarf undir forystu Jóns Atla Benediktssonar. 

„Það er afar mikilvægt fyrir Háskóla Íslands að efla samstarf við Minnesota-háskóla og halda áfram þeirri brýnu vegferð sem þessir skólar hófu saman fyrir réttum fjörutíu árum,“ sagði Jón Atli við þetta tækifæri. „Þessi samningur gerir nemendum okkar kleift að setjast á skólabekk hér í Minnesota, í einum öflugasta rannsóknaháskóla í heimi, sem eykur þeim víðsýni til afreka í þágu íslensks og alþjóðlegs samfélags. Háskóli Íslands vinnur markvisst að því að auka erlent samstarf á mjög breiðum grunni og þessi samningur er hluti af því.“ 

Í gær skrifuðu rektorar beggja skóla einnig undir viljayfirlýsingu þess efnis að Univeristy of Minnesota gengi í Aurora-netið – en hann verður þar með fyrsti háskólinn utan Evrópu til að ganga í þetta öfluga samstarfsnet framúrskarandi háskóla. 

Afar traust samband tveggja öflugra háskóla

Samstarf HÍ og Minnesota-háskóla hefur verið afar traust undanfarin fjörutíu ár og hafa fjölmargir Íslendingar annaðhvort lokið þaðan námi eða stundað hluta af námi sínu við skólann. Öflugt samband skólanna byggist ekki síst á styrktarsjóði Val Bjornson sem styrkir nemendur Háskóla Íslands til námsdvalar við skólann. 

Styrktarsjóður Val Bjornsson var stofnaður í minningu Valdimars „Val“ Bjornsons, fyrrverandi fjármálaráðherra Minnesota (1906–1987), sem var af íslensku bergi brotinn og var honum afar annt um íslenska námsmenn í Minnesota. Sjóðurinn hefur notið mikils stuðnings vestur-íslenska samfélagsins í Minnesota og hafa nú þegar meira en 40 nemendur haldið til Minnesota frá Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins. 

Háskóli Íslands styrkir sömuleiðis nemendur frá UMN sem koma í skiptinám hingað. Þá er sjóður við UMN í nafni Carol Pazandak sem starfsmenn Háskóla Íslands geta sótt í til að stunda rannsóknir eða heimsækja UMN. Þá er hér á landi starfandi Hollvinafélag fyrrverandi nemenda UMN á Íslandi. Jónína Ólafsdóttir Kárdal, náms- og starfsráðgjafi við Háskóla Íslands, er formaður félagsins. 

Minnesota-háskóli er einn sá besti í heimi

Minnesota-háskóli er einn allra öflugasti háskóli Bandaríkjanna og jafnframt í fremstu röð á heimsvísu. Hann var stofnaður árið 1851 og stunda nú rösklega 60 þúsund nám við skólann á nokkrum stöðum í Minnesota-fylki. Stærsti kampus skólans er í tvíburaborginni Minneapolis/St. Paul. Skólinn er alhliða rannsóknaháskóli og er m.a. í 86. sæti á matslista Times Higer Education yfir bestu háskóla heims.

Minnesota-háskóli státar af mjög öflugum einstaklingum sem hafa stundað þar nám eða lokið þaðan námi. Skólinn hefur m.a. brautskráð átta Nóbelsverðlaunahafa, tvo Pulitzer-verðlaunahafa og tvo fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, þá Hubert Humphrey og Walter Mondale. Frægasti fyrrverandi nemandi skólans er þó líklega tónlistarmaðurinn Bob Dylan sem hlaut fyrir fáeinum árum Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. 

 Joan T.A. Gabel og Jón Atli Benediktsson