Skip to main content
17. apríl 2020

Háskóla unga fólksins aflýst og ferðum Háskólalestar frestað

""

Háskóli Íslands hefur tekið ákvörðun um að aflýsa starfi Háskóla unga fólksins sem fram átti að fara í júní í sumar og fresta einnig ferðum Háskólalestarinnar a.m.k. fram á haust. Þetta er gert vegna takmarkana sem settar verða á samskipti næstu vikur og mánuði vegna COVID-19-faraldursins.

Mjög er harmað að starfi þessara tveggja mikilvægu verkefna sé frestað en Háskóli Íslands hefur unnið að kappi með stjórnvöldum, landlækni og sóttvarnalækni til að draga úr smithættu og vill með þessu vinna í þágu öryggis allra, ekki síst unga fólksins. 

Háskóli Íslands hefur sjálfur gripið til mjög fjölþættra aðgerða undanfarnar vikur í eigin starfi vegna COVID-19-faraldursins. M.a. hafa allar byggingar verið lokaðar nemendum frá því 16. mars og tekin hefur verið upp rafræn kennsla og prófahald á öllum fræðasviðum.

Háskóli Íslands hefur það í stefnu sinni að vekja athygli ungs fólks á áhrifum rannsóknastarfs og hafa hvort tveggja Háskóli unga fólksins og Háskólalestin haft það að markmiði að sýna vísindin í lifandi og litríku ljósi. Bæði verkefni hafa notið gríðarlegra vinsælda og hlotið verðlaun fyrir vísindamiðlun í þágu ungs fólks.

Háskóli unga fólksins hefur verið starfræktur frá árinu 2004 og verður hann að óbreyttu haldinn að nýju í júní 2021. Í starfi Háskóla unga fólksins hefur m.a. verið vakin athygli á mikilvægi nýsköpunar og rannsókna fyrir umhverfi og samfélag. Nemendur, sem eru á aldrinum 12 til 16 ára, hafa fjölmennt í Háskólann í byrjun sumars og tekið þátt í örnámskeiðum sem hafa m.a. miðast við þær fræðagreinar sem kenndar eru í Háskóla Íslands. 

Háskólalestin hóf ferðir sínar árið 2011, á aldarafmæli skólans. Hún hefur ferðast um land allt í samstarfi við sveitarfélög og grunnskóla. Háskólalestin hefur boðið ungmennum upp á námskeið úr Háskóla unga fólksins og haldið líflega vísindaskemmtun fyrir alla fjölskylduna. Öllum fjórum ferðum lestarinnar núna í maí er frestað fram á haustið. Þegar mál skýrast verða áfangastaðir hennar tilkynntir sérstaklega. 

Háskólalestin