Skip to main content
24. nóvember 2021

Halla Jónsdóttir ráðin endurmenntunarstjóri HÍ

Halla Jónsdóttir ráðin endurmenntunarstjóri HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Halla Jónsdóttir hefur verið ráðin í starf endurmenntunarstjóra hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. 

Halla lauk grunnnámi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og meistaranámi í vinnu- og skipulagssálfræði frá Háskólanum í Amsterdam árið 2004. Þá lauk hún einnig MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2015. Í meistaranámi sínu í vinnusálfræði lagði Halla áherslu á fræðslu, starfsþróun og hæfni einstaklinga.

Halla starfaði sem fræðslustjóri Landsbankans á árunum 2011-2018 en sem sérfræðingur í fræðslumálum þar á undan. Undanfarin ár hefur Halla starfað sem mannauðs- og rekstrarstjóri hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Hún hefur því reynslu og þekkingu úr störfum bæði á almennum markaði og hjá hinu opinbera. Í störfum sínum hefur Halla öðlast reynslu af bæði stjórnun og stefnumótun og -innleiðingu. Þá hefur hún reynslu af því að stýra stefnumótun í fræðslumálum og innleiðingu árangursstjórnunar.

Um Endurmenntun Háskóla Íslands

Endurmenntun Háskóla Íslands hefur verið starfrækt frá árinu 1983 og er í fararbroddi í endur- og símenntun á Íslandi. Hún hefur margþætt tengsl við íslenskt samfélag og teygir anga sína víða.

Hlutverk Endurmenntunar er að efla hæfni og þekkingu fólks í starfi og einkalífi með öflugri nýsköpun í námsframboði og þjónustu. Stefna Endurmenntunar er að vera ávallt eftirsóknarverðasti valkostur fyrirtækja, stofnana og einstaklinga til símenntunar á Íslandi.

Endurmenntun vinnur náið með deildum Háskóla Íslands og öðrum samstarfsaðilum og tryggir þannig að sérþekking starfsfólks háskólans og annarra sérfræðinga eigi greiða leið út í samfélagið. 

Rekstur Endurmenntunar byggist eingöngu á eigin tekjum, þ.e. námskeiðsgjöldum, og nýtur engra opinberra fjárframlaga.

Halla Jónsdóttir