Skip to main content
15. nóvember 2017

Guðbjörg í stjórn Alþjóðlegu náms- og starfsráðgjafarsamtakanna

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf og deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar, var nýverið kjörin fulltrúi Norðurlanda í stjórn Alþjóðlegu náms- og starfsráðgjafarsamtakanna. Kjörið fór fram á fundi Norrænu náms- og starfsráðgjafarsamtakanna (Nordiska förbundet för studie- och yrkesvägledning) sem fór fram í Reykjavík í byrjun nóvember (sjá mynd).

Alþjóðlegu náms- og starfsráðgjafarsamtökin (International Association for Educational and Vocational Guidance) voru stofnuð árið 1951. Í samtökunum eru nú um 25 þúsund félagar frá fimmtíu löndum í sex heimsálfum. Guðbjörg hefur störf í stjórninni í október 2018.

Markmið samtakanna er að tryggja aðgengi almennings að faglegri náms- og starfsráðgjöf, vinna að jafnstöðu gagnvart menntun og störfum, móta stefnu sem tryggir gæði þjónustunnar, efla menntun náms- og starfsráðgjafa, bæta aðferðir í ráðgjöf og rannsóknir á sviðinu og kynna siðareglur samtakanna. Sjá nánar á IAEVG.com

Í október var Guðbjörg kjörin stjórnarmaður í European Society of Vocational Design and Career Counseling. Meginmarkmið þeirra samtaka er að efla rannsóknarstarf og doktorsnám í faginu í háskólum Evrópu.

Stjórnarmenn og skipuleggjendur NFSY fundarins