Skip to main content
5. október 2017

Grennslast fyrir um lífríkið í fjörum við Gróttu

„Við Gróttu er margt að finna því þar er fjaran margvísleg að gerð, bæði grýtt, klettótt, þakin þangi og sendin og svo er brimið víða töluvert. Mest líf er í grýttum þangfjörum þar sem brimasemi er í meðallagi. Þarna finnum við margs konar þang og þara, rauðþörunga, hrúðurkarla, kræklinga og ýmiss konar krabbadýr, kuðunga, skeljar, burstaorma, krossfiska, svamp og fleira.“ Þetta segir Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor í líffræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem leiða mun fjöruferð fyrir alla aldurshópa í Gróttu á vegum Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna næstkomandi laugardag, 7. október, kl. 12.30. Þetta er síðasta ferð ársins í samstarfi Háskólans og Ferðafélagsins. 

Auk Hrefnu munu þau Kristín Norðdahl, dósent á Menntavísindasviði, Lisa Anne Libungan, sérfræðingur við Hafrannsóknastofnun, Hrönn Egilsdóttir, nýdoktor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, Ragnhildur Guðmundsdóttur, doktorsnemi við sama svið, og Snorri Sigurðsson, líffræðingur hjá Reykjavíkurborg, verða gestum innan handar og fræða þá um undur hafsins og fjörunnar. Þá verða einnig fulltrúar frá Ferðafélagi barnanna sem er undirdeild Ferðafélags Íslands.

Hist verður á bílastæðinu við Gróttu kl. 12.30 á laugardag og er reiknað með að gangan taki tvær klukkustundir. Hún er opin öllum og þátttaka er alveg ókeypis. 

Í fjörum ægir saman miklum fjölda lífvera en þær eiga það sameiginlegt að hafa aðlagast aðstæðum þar sem þær eru ýmist á kafi í sjó eða á þurru landi. „Eftir því hve vel þær hafa aðlagast þessu raða þær sér í lárétt belti niður fjöruna,“ segir Hrefna. Í fjörum sé að finna jafnt bakteríur,  þörunga, sem og ýmis dýr af ýmsum stærðum og gerðum en engin leið sé að henda reiður á fjölda þeirra. „Fjörugerðirnar eru misjafnar og það er mismunandi hvaða lífverur eru einkennandi. Smágerðir burstaormar eru gífurlega algengir í leirum en kræklingur og doppur, marflær, þanglýs og krabbar í grýttum fjörum, svo dæmi sé tekið,“ segir Hrefna. 

Þeir sem heimsótt hafa vestasta hluta Seltjarnarness vita að göngustígurinn út í Gróttu hverfur á flóði en þess verður gætt á laugardag að ljúka göngunni áður en það gerist. Gangan er ætluð fólki á öllum aldri og því er tilvalið fyrir fjölskyldur að fjölmenna út í Gróttu og kynna sér lífríkið í fjörunni. Rannsóknir hafa enda sýnt að útivera og upplifun af náttúrunni hafa góð áhrif á viðhorf barna til náttúrunnar og þá sérstaklega vilja til að vernda hana. 

Hrefna hvetur fólk til að koma vel klætt og bendir m.a. á að gott sé að klæðast stígvélum og hafa jafnvel fötur meðferðis til að safna smádýrum í. Þá getur stækkunargler einnig komið sér vel enda fæst með því enn betri sýn á lífríkið. 

Gangan á laugardag er hluti af verkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna sem nefnist Með fróðleik í fararnesti og hófst á aldarafmæli skólans árið 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í þessum áhugaverðu gönguferðum. Markmiðið með þeim er að vekja áhuga almennings á náttúrunni með fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. 
 

Frá fjöruferð í Gróttu í fyrra