Skip to main content
20. mars 2021

Gossprungan 180 metra löng og rennslið 10 rúmmetrar á sekúndu

Gossprungan 180 metra löng og rennslið 10 rúmmetrar á sekúndu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jarðvísindafólk Háskóla Íslands hefur staðið í ströngu í nótt og í morgun vegna gossins sem hófst í Geldingadal við Fagradalsfjall á Reykjanesi klukkan 20:45 í gærkvöldi. Þótt gosstöðvarnar séu mjög nærri byggð þarf engu að síður að notast við þyrlur til að komast að þeim. 

Vísindafólkið hefur flogið yfir gosstöðvarnar ítrekað frá því eldur varð uppi, m.a. Freysteinn Sigmundsson, forseti Jarðvísindadeildar Háskóla Íslands, Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði og Ásta Rut Hjartardóttir, jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans. Þau hafa öll tekið mikilvægar myndir yfir gosstöðvunum sem eru m.a. notaðar til greiningar á eðli gossins. Afar mikilvægt er að átta sig á eðli gossins með öryggi fólks í huga en einnig út frá vísindalegum þáttum. 

Hraunið varla meira en 0,1 ferkílómetri

Myndir sem vísindamennirnir hafa tekið eru t.d. notaðar til að meta lengd gossprungunnar, mæla rennslishraða hraunsins og þykkt þess auk flatarmálsins sem hraunið þekur. 

Miðað við nýjustu ljósmyndir sem teknar voru af Ástu Rut Hjartardóttur úr þyrlu Landhelgisgæslunnar nú í morgun er hraunið mjög lítið, varla meira en 0,1 ferkílómetri, gossprungan er 180 metrar á lengd og rennsli hraunsins er varla meira en 10 rúmmetrar á sekúndu. Að sögn Magnúsar Tuma er þetta því með minnstu gosum og ekki horfur á að hraunið nái út úr hinum aflokaða Geldingadal á næstunni.  

Miðað við það sem Páll Einarsson, hinn reynslumikli jarðvísindamaður við Háskóla Íslands, benti í gær þá geta Íslendingar einmitt hrósað nokkru happi yfir staðnum þar sem eldur kom upp. „Þetta er í lokuðum dal þannig að þarna má mikið hraun renna áður en það fer að fara eitthvað frá upptökunum. Þetta er einhver heppilegasti staður á Reykjanesskaga fyrir hraungos,“ sagði Páll í gærkvöldi.

Þótt gosið sé afar smátt í sniðum eins og bæði Páll og Magnús Tumi hafa bent á, en þeir hafa jafnvel notað orðið ræfilslegt til að lýsa umfanginu, þá er það engu að síður eins og alltaf á við um gos sögulegt í sjálfu sér og ekki síst sökum þess hversu nærri það er byggð og af hinu að þetta er í fyrsta sinn sem gýs á Reykjanesi í átta aldir.

Miðað við nýjustu ljósmyndir sem teknar voru af Ástu Rut Hjartardóttur úr þyrlu Landhelgisgæslunnar nú í morgun er hraunið mjög lítið, varla meira en 0,1 ferkílómetri, gossprungan er 180 metrar á lengd og rennsli hraunsins er varla meira en 10 rúmmetrar á sekúndu. Að sögn Magnúsar Tuma er þetta því með minnstu gosum og ekki horfur á að hraunið nái út úr hinum aflokaða Geldingadal á næstunni. MYND/Kristinn Ingvarsson

Hraunsýni tekin og sniðmælingar gerðar á hrauni

Magnús Tumi og Tobias Dürig nýdoktor ásamt Bergrúnu Örnu Óladóttur á Veðurstofunni flugu með flugvél Isavia í morgun en þá voru gerðar sniðmælingar á þykkt hraunsins. Nú er verið að vinna úr þeim.  

Gosmökkur stígur upp af gosstöðvunum en hann er að mestu vatnsgufa sem nær í 1,5-2 kílómetra hæð og berst til austurs og nær allavega að Kleifarvatni að sögn Magnúsar Tuma.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í bergfræði og eldfjallafræði við Háskóla Íslands, fór nú í hádeginu á laugardegi ásamt fleira vísindafólki frá Háskólanum í loftið með þyrlu frá Landhelgisgæslunni til að taka hraunsýni. Tilraunastofur í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskólans, verða notaðar til að vinna úr þeim sýnum sem tekin verða á gosstöðvunum. 

Vísindamenn fylgjast einnig mjög náið með gasstreymi úr gosinu og  munu fylgjast með vindáttum til að meta hvert gasið dreifist en það getur haft skaðleg áhrif á heilsu fólks. 

Bryndís Brandsdóttir

Bryndís Brandsdóttir, vísindamaður við Háskólann segir að úr efnasamsetningu gas- og hraunsýna megi lesa þróun kvikunnar frá möttli og upp til yfirborðs. „Framtíðarvöktun á náttúruvá mun grundvallast á þeirri þekkingu sem við öflum með rannsóknum dagsins í dag,“ segir Bryndís. 

Eldgos í Geldingadal
Eldgos í Geldingadal